Disney með risatilkynningar um Star Wars-heiminn

Disney hefur síðustu tvo daga haldið kynningu þar sem fjárfestum er sagt frá framtíðarplönum varðandi fyrirtækið. Það er ansi margt sem hægt er að hlakka til að sjá í Stjörnustríðsheimi Disney+.

Í kjölfar vinsælda sjónvarpsþáttaraðarinnar The Mandalorian á Disney+, hefur verið ákveðið að setja allt á fullt og enn fleiri seríur munu líta dagsins ljós. Nú þegar hafði verið tilkynnt um stutta þáttaröð byggða á ævintýrum Obi Wan-Kenobi, sem gerist á árunum milli Revenge of the Sith og A New Hope. Einnig var búið að segja frá því að Ewan McGregor muni endurtaka hlutverk sitt sem Kenobi, en í gær var tilkynnt að Hayden Christensen muni endurtaka leikinn sem Anakin Skywalker. Við sama tækifæri var fjárfestum sýnt myndband frá framleiðslu sjónvarpsseríunnar Andor, sem er fjallar um Cassian Andor, sem Diego Luna lék í Rogue One: A Star Wars Story og leikur einnig í þáttunum.

Einnig var sagt frá tveimur nýjum leiknum Star Wars-þáttaröðum. Báðar eru þær einskonar afleggjarar af The Mandalorian, sem gerast á sama tímabili og skarast. Sú fyrri heitir Ahsoka og mun fjalla um Ahsoka Tano, sem upprunalega birtist í The Clone Wars og Rebels-teiknimyndunum. Ahsoka hefur þegar verið kynnt til leiks sem persóna í The Mandalorian. Þar kom fram að hún leitar að keisaraveldisillmenninu Grand Admiral Thrawn.

Það er Rosario Dawson sem leikur hana, en hún kom fyrst fram á sjónarsviðið í hinni rómuðu Kids, frá árinu 1995. Stöð 2 sýnir nú sjónvarpsþáttaröðina Briarpatch, þar sem hún leikur aðalhlutverkið.

Hin þáttaröðin sem tilkynnt var um í gær, heitir Rangers of the Old Republic og tengist Tano og The Mandalorian-þáttunum. Sögulínur þáttaraðanna þriggja munu svo ná hápunkti þegar þær skarast allar í risa uppgjöri. Lítið er vitað um Rangers-þáttaröðina, en út frá The Mandalorian mætti giska á að hún fjalli um löggæsluliðið sem öðru hvoru hefur birst þar. 

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að giska hver þessi hápunktur verður, þar sem The Mandalorian hefur þegar sett af stað sögulínu er varðar yfirvofandi endurreisn keisaraveldisins.

Meira í pípunum

Þetta eru þær þáttaraðir sem lengst er á veg komnar, en Disney tilkynnti einnig um fleiri þætti í þróun. Lando Calrissian mun einnig fá sinn eigin þátt á Disney+, en það er höfundur Dear White People, Justin Simien, sem er yfir þróun þáttaraðarinnar. Enn hefur ekki verið tilkynnt hver mun leikar Lando, en Crispin Glover lék hann hins vegar í Solo: A Star Wars Story árið 2018 og verður að teljast líklegur, hafi hann áhuga.

Star Wars: Acolyte, er önnur þáttaröð sem er í þróun. Það er höfundur Russian Doll, Leslye Headland, sem fer fyrir því verkefni. Um er að ræða þriller sem leiðir áhorfendur um skuggahliðar Star Wars-heimsins.
Einnig fengu fjárfestar að sjá brot í Clone Wars-afleggjaranum The Bad Batch, sem tilkynnt var um fyrr á árinu. Fleiri teiknaðir þættir eru í pípunum, Star Wars: A Droid Story, sem mun fjalla um RD-D2 og C-3PO, og Star Wars: Visions, stuttmyndir í tíu þáttum. 

Það verður því nóg að gera hjá Disney og Lucasfilm næstu árin.