Dóttir Magnum orðin spæjari

magnum selleckAðdáendur hins fjallmyndarlega einkaspæjara Magnum P.I., sem Tom Selleck lék í geysivinsælum samnefndum sjónvarpsþáttum á níunda áratug síðustu aldar, geta nú tekið gleði sína á ný, þar sem von er á framhaldi af þáttunum. Nú er það hinsvegar ekki Magnum sjálfur sem er aðalpersónan, heldur dóttir hans, Lily  „Tommy“ Magnum, sem snýr heim til Hawaii og tekur við einkaspæjarabissness föður síns.

Hún og vinir hennar munu starfa í sól og sumaryl á suðrænum ströndum, við að tukta til óþjóðalýð af ýmsum toga, sem og að sinna alþjóðlegri njósnastarfsemi og reyna að ráða gátuna um njósnaverkefnið, sem varð til þess að ferill hennar hjá leyniþjónustu sjóhersins, leið undir lok.

„Við vissum að enginn gæti farið í hið goðsagnakennda hlutverk Thomas Magnum, svo að John ákvað að breyta hugmyndinni um endurræsingu þáttanna í framhald, og halda ævintýrum Magnum áfram – með dóttur hans sem kom við sögu í upprunalegu  þáttunum,“ sagði Eva Longoria, einn af framleiðendum þáttanna við Deadline.

Magnum P.I. hóf göngu sína árið 1980 og gekk samfleytt í átta ár.  Lily kom fram í fjórum þáttum, en hún var alin upp af móður sinni, eiginkonu Magnum, Michele, sem var á ákveðnum tímapunkti talin af, og seinni eiginmanni hennar.

Eftir dauða þeirra þá tók blóðfaðir hennar, Magnum, við uppeldinu og bjó henni gott heimili.