Don’t Breathe, spennutryllirinn/hrollvekjan um hóp af unglingum sem gerir þau stóru mistök að brjótast inn í rangt hús, er vinsælasta myndin í Bandaríkjunum þessa helgina, með áætlaðar tekjur upp á 26,1 milljón Bandaríkjadala.
Myndin fetar í fótspor marga annarra mynda í sama flokki sem frumsýndar hafa verið á þessu ári, mynda eins og The Purge: Election Year, The Conjuring 2, Lights Out og The Shallows, sem allar hafa notið hylli í bíó.
Með aðalhlutverk fer Avatar leikarinn Stephen Lang.
Myndir af þessari tegund eru mjög vinsælar hjá kvikmyndaverunum þar sem framleiðslukostnaður er yfirleitt lágur af því að myndirnar krefjast ekki mikilla tæknibrellna né frægra leikara. Til samanburðar þá þurfa ofurhetjumyndir á báðu síðasttöldu að halda, sem gerir þær því áhættusamari í framkvæmd.
„Þessar myndir eru draumamyndir baunateljarans,“ sagði Paul Dergarabedian, greinandi hjá comScore. „Þær eru peningamaskínur, og jafnvel þegar gagnrýnendur rakka þær niður, þá hópast fólk á þær.“
Framleiðandi Don´t Breathe er Screen Gems og Stage 6 Films, og kostaði tæpar 10 milljónir dala.
Myndin segir frá fyrrnefndum unglingahópi sem brýst inn til blinds manns, sem þau halda að sé auðveld bráð. En í staðinn fyrir að komast í burtu með ránsfenginn þá lenda þau í mesta basli með hinn blinda íbúa, og upphefst leikur kattarins að músinni.
Myndin var kynnt bæði á SXSW hátíðinni sem og Comic-Con nú fyrr í sumar, en einnig hefur hún verið kynnt talsvert á samfélagsmiðlum eins og Snapchat, Facebook og Twitter.
„Þetta verður mikil peningamaskína fyrir okkur,“ sagði Rory Bruer yfirmaður dreifingarmála hjá Sony í samtali við Variety kvikmyndaritið.
„Við vissum að við værum með dálítið sérstakt í höndunum. Þetta er mynd sem fær fólk til að stökkva upp úr sætunum af spenningi, og grípa í næsta mann.“
Myndin verður frumsýnd 16. september hér á landi.