Efron er myndarlegi raðmorðinginn Ted Bundy

Baywatch og Greatest Showman leikarinn Zac Efron, mun innan skamms sjást í hlutverki raðmorðingjans Ted Bundy, í nýrri kvikmynd. Bundy er þekkt umfjöllunarefni, og hefur nú þegar birst í sex kvikmyndum.

Efron er þannig sjöundi leikarinn til að bregða sér í hlutverk morðingjans. Bundy er einn þekktasti raðmorðingi í sögu Bandaríkjanna, en auk þess að vera morðóður, þá þótti hann mjög myndarlegur og heillandi, sem er svo aftur ein helsta ástæðan fyrir því að um hann hefur verið fjallað ítrekað í bíómyndum.

Kvikmyndin sem Zac Efron leikur í heitir Extremely Wicked, Shockingly Evil and Vile.

Sagan í myndinni, sem er spennutryllir, er sögð út frá sjónarhóli kærustu Bundy, Elizabeth Kloepfer, sem Lily Collins leikur í myndinni.

Efron setti mynd af sér inn á Instagram reikning sinn á dögunum, til að fagna því að myndin verði sýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í byrjun næsta árs.

Á ljósmyndinni lítur Efron út eins og eldri útgáfan af Bundy í réttarsal, en réttvísin náði honum að lokum, og hann var tekinn af lífi í rafmagnsstól árið 1989.

Leikstjóri kvikmyndarinnar er Joe Berlinger, og höfundur handrits er Michael Werwie.

Berlinger, sem þekktur er fyrir að leikstýra glæpa – heimildarkvikmyndum, var tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 2012 fyrir þriðju myndina í Paradise Lost seríunni, Paradise Lost 3: Purgatory,  sem hann gerði með Bruce Sinofsky.

Fyrir þá sem þekkja Netflix þættina Making a Murderer, þá má segja að Paradise Lost hafi verið Making a Murderer þess tíma, en föngunum þremur sem serían fjallaði um, var sleppt úr fangelsi.

Aðrir helstu leikarar eru John Malkovich, Haley Joel Osment og Jim Parsons.

Kíktu á Instagram myndina hér fyrir neðan:

 

View this post on Instagram

 

Ready for Sundance! #extremelywickedshockinglyevilandvile

A post shared by Zac Efron (@zacefron) on