Engin Mulan í mars – Stefnir í lokun kvikmyndahúsa á Íslandi?

Skömmu eftir að framleiðendur nýjustu James Bond-kvikmyndarinnar, No Time to Die, ákváðu að fresta útgáfu um sjö mánuði í kjölfar veirufaraldursins alræmda, fóru önnur kvikmyndaver að íhuga sambærilegar breytingar.

Í gær fór hvert kvikmyndaverið á eftir öðru að tilkynna frestun á komandi stórmyndum. Fast & Furious 9 hefur verið færð um ellefu mánuði, A Quiet Place: Part II hefur verið sett á bið í ótilgreindan tíma og nú hefur Disney ákveðið að setja bæði Mulan og spennutryllirinn The New Mutants hefur einnig verið sett á ís. Og ekki í fyrsta og ekki í þriðja sinn.

Í byrjun mars gaf Disney út þá tilkynningu um að Mulan yrði ekki frumsýnd í Kína í mánuðinum vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Að svo stöddu er ljóst að úrvalið í kvikmyndahúsum verði fátæklegt í tengslum við stórmyndir á næstu vikum. Þykir ekki ólíklegt að seinkun Mulan, sem sögð er kosta yfir 200 milljónir Bandaríkjadala, hafi töluverð áhrif á fjárhag Disney-samsteypunnar, en víða um heim hafa kvikmyndahúsakeðjur neyðst til að stöðva rekstur í óákveðinn tíma, þar á meðal í Kína, í Ítalíu og Japan.

Kvikmyndir.is hefur ekki enn fengið staðfest svör um hvenær eða hvort standi til að loka íslenskum kvikmyndahúsum. Reikna má fastlega með því að slíkt verði að veruleika á komandi vikum, ekki síður vegna samkomubanns sem tekur gildi á mánudaginn.

Vel tekið í útkomuna

Á dögunum var haldin frumsýning á Mulan í Bandaríkjunum fyrir aðstandendur og fjölmiðlafólk. Viðtökur dreifðust hratt um veraldarvefinn og voru flestir gagnrýnendur hæstánægðir af ýmsum tístum að dæma. Virðast rétt um bil allir vera sammála um að þarna sé um að ræða bestu leiknu endurgerðina á Disney-teiknimynd til þessa. Sjá má nokkur dæmi að neðan.

Hvað The New Mutants varðar átti upphaflega að frumsýna myndina í apríl 2018. Þá var hún færð til febrúarmánaðar 2019, síðan ágúst á því sama ári. Í kjölfarið á því þegar Disney keypti kvikmyndaverið 20th Century Fox á síðasta ári var myndin geymd til aprílmánaðar 2020… en í ljósi veirunnar er nú frumsýningardagur óstaðfestur.