Evans í harðneskjulegu prógrammi til að breyta sér í Captain America

Chris Evans, sem leikur Captain America í myndinni Captain America: The First Avenger, segist hafa þurft að leggja mjög hart að sér í ræktinni til að líta vel út í myndinni. Hann segist hafa verið tvo tíma á dag í líkamsræktinni í hörku prógrammi, ásamt því sem mataræðið var tekið í gegn samhliða. Evans segir að þetta undirbúningsprógramm hafi verið „harðneskjulegt“ en það hafi verið þess virði.

„Það er sama hvað þú leggur á þig, meðal annars margs konar erfiði, en hið jákvæða við starfið er hinu neikvæða alltaf yfirsterkara,“ segir Evans. „Lítum á þetta eins og þetta er: ég geri kvikmyndir. Ég fer í viðtöl, ég held á skildi, og ég fæ fullt af peningum fyrir að hlaupa um og láta þetta allt líta vel út.“

Eitt af því sem vakið hefur athygli í sýnishornum úr myndinni er tæknibrellur sem notaðar eru til að láta Evans líta veimiltítulega út, til að leika Steve Rogers, áður en hann breytist í Captain America. Leikarinn segir að það hafi verið auðvelt fyrir sig að vera pervisinn Steve.

„Það var ýmislegt sem gekk á þegar ég var að alast upp. Ég var mjög lítill og horaður. Ég lék í leikhúsi, ég fór á leiklistarnámskeið,“ segir Evans. „Ég hef eytt hálfri ævinni í sokkabuxum og í steppdansskóm.“

Þrátt fyrir reynslu sína af því að leika í söngleikjum, þá sagði Evans framleiðendum Captain America, að hann væri ánægður með að hafa ekki þurft að dansa og syngja í einu atriði í myndinni sem er tónlistaratriði.

Kvikmyndir.is forsýnir Captain America: The First Avenger nk. mánudag kl. 10 á Powersýningu í Laugarásbíói!