Expendables traustir á toppnum – McPhee floppar

Sylvester Stallone og félagar hans í The Expendables voru á toppnum á aðsóknarlista bíóanna í Bandaríkjunum um helgina, aðra helgina í röð. Myndin þénaði eina 16,5 milljónir Bandaríkjadala frá föstudegi til sunnudags í Bandaríkjunum og Kanada. Fimm glænýjar myndir sem frumsýndar voru um helgina voru engin ógn fyrir Stallone og félaga.
The Expendables hefur nú þénað 64,9 milljónir dala á tíu dögum, en myndin þénaði 34,8 milljónir dala um opnunarhelgina, sem var ein besta frumsýningarhelgi á mynd eftir Stallone. The Expendables kostaði 85 milljónir dala í framleiðslu.
Í Bretlandi tók myndin inn andvirði 5,8 milljóna Bandaríkjadala fyrstu fjóra dagana í sýningum þar í landi.
Besti nýliðinn þessa helgina var gamanmyndin Vampires Suck, en þar er gert grín að vampírumyndum eins og Twilight. Myndin lenti í öðru sæti á aðsóknarlistanum með 12,2 milljónir í aðgangseyri.
Flopp helgarinnar er framhald myndarinnar um Nanny McPhee,en einhverjir höfðu spá henni toppsætinu um helgina. Í staðinn þénaði hún aðeins 8,3 milljónir Bandaríkjadala og lenti í 7.sæti. Til samanburðar þá þénaði fyrsta myndin, sem frumsýnd var árið 2006, 14,5 milljónir dala á frumsýningarhelginni.
Aðrar myndir sem frumsýndar voru um helgina voru Lottery Ticket með rapparanum Bow Wow, sem lenti í 4.sæti með 11,1 milljón dala í aðgangseyri, Piranha 3D, sem lenti í sjötta sæti með 10 milljónir dala, og mynd Jennifer Aniston, The Switch, sem lenti í 8. sætinu með 8,1 milljón dala í aðgangseyri. Þessi útkoma The Swithch var þó í línu við hóflegar væntingar sem gerðar voru til myndarinnar. Í fyrra opnaði Love Happens, síðasta mynd Aniston, á svipuðum nótum,en endaði með að taka inn 23 milljónir dala í aðgangseyri í bíó.