Filma eða stafræn upptaka. Hver er framtíðin?

Christopher Nolan og James Cameron eru meðal viðmælenda í nýrri heimildamynd um þróunina á kvikmyndatækni sem ber nafnið Side By Side. Framleiðandi og kynnir í myndinni er leikarinn Keanu Reeves. Eins og kvikmyndaáhugamenn vita hefur stafræn upptökutækni verið að hasla sér völl í draumaverksmiðjunni, á kostnað hinnar hefðbundnu 35mm filmu. Sumir ganga svo langt að spá því að árið 2015 verði nær allar myndir teknar upp stafrænt, en þó eru ekki allir tilbúnir til þess að skrifa upp á dauða filmunnar. Því má segja að heimildamyndin hitti á heitt málefni á réttum tíma. Á tékklistanum yfir þá sem birtast í myndinni eru líka ótrúlegur fjöldi áhugaverðra nafna, en auk þeirra Nolan og Cameron sjást í myndinni Steven Soderbergh, David Lynch, Richard Linklater, Martin Scorsese, Lana Wachowski, Andy Wachowski, Walter Pfister ASC, David Fincher, George Lucas, Robert Rodriguez, Lars von Trier, John Malkovich, Danny Boyle, Joel Schumacher, Barry Levinson og fjöldi kvikmyndatökumanna svo einhverjir séu nefndir.

Stiklan fyrir myndina var að detta inn og þessi mynd er klárlega kominn á áhorfslistann minn, þó ekki væri nema til þess að heyra gjörólík sjónarmið þeirra Nolans og Camerons á málinu:

Nolan: There is not yet a superior or even an equal imaging technology to film. But we’re being forced into a transition.

Cameron: You can’t shoot 3D on film. So film has been dead in my heart for ten years“

Wally Pfister (myndatökumaður Nolans): I hate 3D. I put on those glasses, I get sick to my stomach. The whole 3D phenomenon, it’s a marketing scheme, isn’t it?

Side by Side Official Trailer (2012) from Company Films on Vimeo.

Vissulega sterkar skoðanir þarna á ferð. Hvað segja lesendur?