Fimman: Bestu myndir ársins (hingað til)

Þá er það herrans ár 2012 rúmlega hálfnað og helstu fréttapennar síðunnar fengu það verkefni að líta til baka á síðustu circa sex mánuði og segja frá þeim kvikmyndum sem þeim þótti standa uppúr. Þetta er frekar sniðug leið til þess að gera árinu góð skil, því í janúar á næsta ári verða flestir örugglega búnir að gleyma slatta af þeim myndum sem hér komu til greina. Ekki þeim bestu samt.

Oftast fara Íslendingar eftir þeim reglum að miða við þær myndir sem eru frumsýndar á árinu, í stað þess að miða einungis við framleiðsluárið. Undirrituðum datt í hug að leyfa hverjum og einum að fara eftir eigin reglum.

Hér eru þær fimm myndir sem fréttamenn Kvikmyndir.is hafa hingað til haldið mest upp á:

 

Axel Birgir Gústavsson:
 

5. Cabin in the Woods
Efnistökin skilja eftir sig heilmikið fóður til meltingar og umhugsunar á svipaðan máta og önnur brillerandi afbyggingarræma hrollvekjuflokksins, Behind the Mask, nema á stærri skala og með meira fullnægjandi afrakstur í lokin. Verulega fyndin gjörsamlega óvænt.

4. Svartur á Leik
Myndin heldur frábærum ganghraða, er stútfull af krafti og tekst nánast allt sem hún ætlar sér. Þetta er einfaldlega kvikmynd þar sem allt smellur saman og er klárlega þess virði að sjá aftur og aftur. Nýja uppáhalds íslenska kvikmyndin mín og að mínu mati besta glæpamynd landsins hingað til.

3. The Raid: Redemption
Ef þú fílaðir Suður-Kóreska tryllirinn I Saw The Devil og vildir meira út úr The Expendalbes, þá er The Raid: Redemption málið! Sveitt, full af adrenalíni og linnulaus í skemmtunargildi sínu. Klárlega óvæntasta spennumynd ársins, hugsanlega sú besta í sínum geira af erlenda markaðinum í ár.

2. The Avengers
Stærsta afrek myndasögumynda hingað til og klárlega fjögurra ára biðinnar virði. Skörp, jöfn, vel strúktúruð, bráðfyndin, og full af sjarma(/shcwarma) og persónuleika- algjör stórsigur.

1. Moonrise Kingdom
Lítil en stórskemmtileg og hjartastór kvikmynd sem kætir frá A til Ö. Þetta er eins og að upplifa heiminn með barnsaugum á ný og sjá hversdagsfólkið í kringum sig verða persónuríkari (og fyndnari) fyrir vikið, auk þess að litríka og heimilislega útlitið blæs heilmiklu lífi í kvikmynd sem er nú þegar á fullu iði.

 

Birta Sæmundsdóttir:
 

Líklegt er að listinn minn sé að miklu leyti litaður af þeirri staðreynd að ég hef ekki getað stundað bíóhúsin jafnmikið og ég hefði viljað, engu að síður eru á mínum lista myndir sem ég er mjög sátt með frá fyrri helmingi þessa góða bíóárs.

5. Chronicle
Ég velti því fyrir mér hvort Chronicle hefði verið betri ef „found footage“ stílnum hefði verið hent út og hún verið tekin upp á hefðbundinn hátt. Kannski hefði hún tapað einhverju – ég vil segja trúverðugleikanum, en ég vil samt ekki að lesendur haldi að ég hafi trúað því að þetta væri raunveruleg saga. Þið skiljið kannski hvað ég á við. Annars var ég mjög ánægð með myndina og fannst jafnvel snilldarlega leyst vandamálið með myndavélarnar að nota alla snjallsímana sem helmingur jarðarbúa virðast eiga. Að auki leist mér vel á leikaravalið og sérstaklega að þarna var um að ræða tiltölulega óþekkta leikara.

4. Hugo
Hugo var bara svo ótrúlega krúttlegur að mig langaði að ættleiða þennan einmana strák sem vildi ekkert meira en leysa ráðgátu föður síns. Myndin var náttúrulega líka bara bilað flott og handritið skemmtilegt og ég var ansi hrifin af persónunum sem í boði voru.

3. The Avengers
Ég hef gaman af vel heppnuðum ofurhetjumyndum því þetta eru ofurhetjur og alla dreymir um að vera ofurhetja! Ef manni fannst Captain America, Thor og Iron Man (skildi Hulk eftir af ástæðu) góðar myndir þarf mikið að gerast til þess að finnast The Avengers leiðinleg. Meira að segja vondi kallinn er sjarmerandi djöfull!

2. The Hunger Games
Þrátt fyrir ofnotkunina á shaky-cam sem gerði mig ringlaða sökum þess hversu lélegum stað ég náði í yfirfullum bíósalnum fannst mér myndin afar góð, leikaravalið frábært (sérstaklega var ég hrifin af Woody Harrelson og hver hefði trúað því að Lenny Kravitz gæti leikið?) og sagan einstaklega áhugaverð, en ég var ein af þeim sem fóru inn í bíóið vitandi mjög lítið um Hunger Games. Í stuttu máli sagt: Fór beint og keypti mér bókina og ætla að vera búin með allar þrjár fyrir næstu mynd.

1. The Artist
Það var eiginlega einstök upplifun að fá að fara í bíó árið 2012 á þögla kvikmynd og það glænýja. Aldrei áður hefur maður verið í svo mikilli þögn í bíói að maður gat heyrt andardráttinn í manneskjunni við hliðina á sér. The Artist var frábær að mínu mati og þegar ég horfi til baka get ég ekki fundið neitt út á hana að setja. Hún er leikin af einlægni og mikilli innlifun – og þá er ég ekki bara að tala um hundinn!

 

Róbert Keshishzadeh:

5. Prometheus:
Þrátt fyrir að hálfgerði-forleikur Alien myndanna endaði sem gríðarleg vonbrigði, þá satt að segja fannst mér þetta vera frekar áhugaverð og gullfalleg sci-fi ræma sem Ridley spann handa okkur. Hann tók mörg feilspor, en swissneski osturinn sem eftir situr er svo sannarlega betri en meirihluti kvikmynda ársins hingað til.

4. The Raid: Redemption
Sannkölluð hasarbomba sem bætir upp fyrir ansi horaða sögu og marga pappakassakaraktera með mögnuðu andrúmslofti og minnistæðum atriðum. Svo skaðar ekki að hafa frábæra tónlist og hrottalega grafíska bardaga.

3. Chronicle
Josh Trank kom sá og sigraði með ofurhetju mini-epíkinni sinni sem hristi af sér gruggugar tæknibrellur við og við og skapaði athyglisverðar persónur, dularfullan heim og stórbrotið drama. Hann laumaði einnig sniðugri kryfjun á eðli ofurhetja inn í myndina.

2. The Avengers
Auðveldlega ein af bestu ofurhetjumyndum 21. aldarinnar og auðveldlega einn af bestu samansettu leikhópum allra tíma. Síðan sementsber leikstjórinn þetta allt saman með þéttu og skemmtilegu handriti sem skilur fræðina bakvið góða liðsheild.

1. Svartur á leik
Örugglega ekki besta mynd ársins, en vonandi sú besta hingað til. Svartur á leik reyndist vera grípandi glæpadrama með ótrúlega vel völdum leikurum og þó svo að frumleikinn var ekki í fararbroddi, þá lifnaði myndin við og kom sér endanlega í sérstakan sess í íslenska kvikmyndaiðnaðinum. Íslenskar myndir verða hreinlega ekki mikið betri en þetta.

 

Sigurjón Ingi Hilmarsson:

 

 

 

 

 

 

 

5. The Hunger Games

Hungurleikarnir virtust hafa verið voðalega mikið love/hate umræðuefni þegar myndin kom. Margir voru mjög sáttir með niðurstöðuna á meðan að aðrir héldu því fram að þetta væri bara endurgerð af Battle Royale/Running Man/Lord of The Flies/Death Race/Gamer (án djóks þessi listi er nánast endalaus). Þrátt fyrir það að vera með svipað concept og margar myndir (sem voru með svipað concept og margar aðrar myndir) þá eru Hungurleikarnir sín eigin mynd og stendur sig alveg frábærlega. Síðan sýnir Hunger Games okkur auðvitað að það er snilldar hugmynd að láta alkahólista þjálfa krakka fyrir mikilvægasta augnablik lífs þeirra.

4. 21 Jump Street
Hverjum hefði dottið í hug að kvikmynduð útgáfa af Johnny Depp þáttunum 21 Jump Street yrði alveg RUGL fyndin grínmynd? 21 Jump Street er án efa fyndnasta mynd sem hefur komið út í mjög langan tíma. American Pie var fyndin, en þessi er heilu skrefi á undan. Jonah Hill og Channing Tatum er yndislega súrt grínpar og trippið þeirra algjör háppunktur myndarinnar. Mjög ólíklegt að ég muni hlæja jafn mikið í kvikmyndahúsi þetta árið. Síðan má ekki gleyma því að hinn mikli Ron Swanson er í litlu, en frábæru, hlutverki.

3. Svartur á Leik
Brüno er karakter ársins (hingað til) og fær Svartur á Leik glæsilegt 3. Sæti hjá mér. Ótrúlegt að þetta skuli vera fyrsta mynd Óskars í fullri lengd. Myndin er fáranlega vel leikin, skrifuð og útfærð. Hún er aldrei með þennan „íslenska fýling“ sem maður tekur svo oft eftir. Það er ekki hægt að telja eftirminnanlegu atriðin á einni hendi, þau eru svo mörg. Allt frá flottu byrjunar atriði yfir í hræðilega nauðgun og í risa orgíu. Besta kvikmynd sem hefur verið framleidd á mínum lista er orðin Svartur á Leik. Kvikmyndagerð Íslands á leik núna, toppið þetta.

2. The Avengers
Já Hefnendurnir (frábær titill) fá annað sæti hjá mér, ekki fyrsta! Hrisstið hausinn yfir vitleysunni í mér eins mikið og þið viljið. Avengers er ótrúlega vel útfærð kvikmynd á alla vegu. Hún er ekki bara ofurhetjumynd, þetta er risastór kvikmynda veisla fyrir alla áhorfendur.  Joss Wheadon stekkur yfir nánast allar ofurhetjumyndir hingað til, og hlær að þeim í leiðinni (náði samt ekki yfir Dökka Riddaranum)

1. Moonrise Kingdom
Anderson býr til annan gullmola, þessi maður er snillingur. Hér býr hann til ástarsögu með 13-14 ára-ish krakka í aðalhlutverki. Hann tekur vandræðalegu krakka ástina og gerir hana að yndislegu ævintýri. En auðvitað, í klassískum Wes stíl, er myndin troðfull af óeðlilegum karakterum í mjög óeðlilegum aðstæðum. Ekki má svo gleyma því að þetta er fyrsta myndin sem Bruce Willis sýnir alvöru leiktakta í mjög langan tíma (án djóks, skoðið imdb’ið hans, þetta er sorglegt). Moonrise er vandræðaleg, krúttleg, fyndin, algjörlega út í hött og frábær í nánast alla staði.

Runner-Ups : The Raid, American Pie, Bernie, Rock Of Ages.

Og já, Prometheus, skammastu þín. Vonbrigði 2012.
 

Þorsteinn Valdimarsson:
 

5. John Carter
Er ekki bara að skella henni á listann sem uppfyllingarefni (sjáið runner-ups listann!). Hún var alls ekkert fullkomin, en átti samt svo miklu betra skilið en hún fékk. Andrew Stanton tókst að glæða nýju lífi í antík vísindaskáldsögu Edgar Rice Burroughs og skapa gerimverumenningu sem jafnaðist nánast á við sjónarspilið í Avatar. Örlítið óreiðukennda frásögn (höfum samt séð það miklu verra) bættu áhugaverðar persónur upp. Myndin skyldi mann eftir að vonast eftir framhaldi, sem við munum því miður líklega aldrei sjá.

4. Svartur á leik
Ég hafði miklar væntingar fyrir þessari mynd, og hún uppfyllti þær… næstum því alveg. Leikararnir standa sig prýðilega í vel sagðri sögu, sumir meira sannfærandi en aðrir. Ef eitthvað hefði hún samt getað verið aðeins meira spennandi. Vel tókst að staðsetja myndina árið 1999, sem kryddaði skemmtilega frásögn. Stefán Máni er einn áhugaverðasti glæpasagnahöfundur þjóðarinnar, og vona ég að þetta verði fyrsta kvikmyndun bóka hans af mörgum.

3. Stríðsyfirlýsing – La guerre est déclarée
Á tiltölulega stuttum tíma á 3 myndir frá þrem löndum (þessa, 50/50 og Halt auf freier Strecke) sem fjölluðu um fólk með alvarlegt krabbamein. Allar höfðu þær mikinn áhrifamátt, en þessi sat lengst eftir. Myndin segir frá ungu pari sem uppgötvar að ungabarn þeirra er með alvarlegt heila-krabbamein, og fylgir eftir áralangri meðferð barnsins, frá sjónarholi foreldranna. Þetta hljómar kannski eins og eintómt táraflóð en myndin jafn full af lífsgleði og hún er nístandi heiðarleg. Þrátt fyrir allt að því súrrealísk augnablik skín í gegn hve raunveruleg sagan er, en fyrrverandi hjónin Valérie Donzelli og Jérémie Elkaïm sem skrifuðu handritið og leika aðhlutverkin (Donzelli leikstýrir) byggja myndina á reynslu sinni.

2. The Avengers
Ófrumlegast í heimi, en já, þessi mynd var geðveik. Ég geri ráð fyrir að hún sé ofarlega á öllum hinum listunum, þannig að hverju á ég að bæta við? Þrátt fyrir rosalega óeftirminnilegar geimverur, útúrsnúninginn á norrænu goðafræðinni, og…. kannski einhverja aðra galla sem ég er búinn að gleyma, sannaði Joss Whedon að hægt væri að gera frábæra myndasögumynd sem sameinaði persónur úr fjórum öðrum kvikmyndaseríum. Þó það væri augljóst frá upphafi að hún myndi græða tonn af pening, var nefninlega alls ekki sjálfsagt að þessi mynd yrði góð.

1. The Artist
Þetta er sú mynd sem hefur hlýjað mér mest um hjartaræturnar það sem af er ári. Það má benda á einhverja galla í henni, og vissulega er söguþráðurinn eins formúlukenndur og hægt er, en í mínu tilviki – og flestra held ég – náðu töfrarnir einfaldlega að hrífa. Það sem vantar í söguþráðinn bætir myndin meir en upp með frábærri útfærslu, húmor sem hittir í mark og óaðfinnanlegum leikhóp. Jean Dujardin er eins og klipptur út úr þriðja ártugnum og ber myndina uppi í aðalhlutverki sjarmörsins George Valentin.

Runner-ups: The Muppets,  The Descendants, Jane Eyre, Shame, A Dangerous Method,  Un homme qui crie, The Woman in Black … og já, Men in Black 3!

Mestu vonbrigðin… það ættu allir að geta giskað á þau (byrja á P)

Óvæntasta myndin: Chronicle
Bjóst ekki við miklu af en einni found-footage ræmunni, þó að ofurkröftum yrði blandað í málið. Þar hafði ég sannarlega rangt fyrir mér, allt frá orkumiklum fyrrihlutanum að epískum endanum hélt myndin góðri spennu, og byggði upp eitt samúðarmesta illmenni sem sést hefur í lengri tíma.

 

Þráinn H. Halldórsson:
 

Þetta er í raun hálfslakt  kvikmyndaár það sem af er að mínu mati og því finnst mér aðeins fjórar myndir eiga skilið að komast á einhvers konar míní-topplista. Ég hef ekki séð Cabin In the Woods sem myndi hugsanlega komast á listann og þið getið gleymt því að ruslið Chronicle komist nálægt einhverju öðru en botnlista fyrir þetta ár.

4. Svartur á leik
Glæsileg spennumynd sem gefur frábæra innsýn í íslenska undirheima – og ekki skemma júllurnar á Maríu Birtu fyrir.

3.The Avengers
Ég hugsaði mikið um að setja Avengers í toppsætið áður en ég áttaði mig á því að hún heillaði mig ekki jafn mikið upp úr skónum og hún gerði við aðra. Þetta er ofurpökkuð og stórskemmtileg ofurhetjumynd en það er akkúrat það sem hún er og ekkert meir! The Avengers er ofurpökkuð af öllu án þess að gera eitthvað af því betur en forverar sínir.

2. Moonrise Kingdom
Mér finnst eins og allar myndirnar hans Wes Anderson hafi í raun verið upphitun fyrir þessa. Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi hans en hér hittir hann algjörlega í mark. Moonrise Kingdom er ekki aðeins rúnkefni fyrir hipstera heldur er hún rúnkefni fyrir Anderson aðdáendur. Myndin heldur í léttleikann þrátt fyrir að tækla alvarlegt málefni og það kæmi mér ekkert á óvart að henni tækist að stela toppsætinu hjá af Intouchables eftir nokkur áhorf í viðbót.

1. Intouchables
Venjulega er ég ansi harður á „2011 reglunni“ sem segir að ef mynd er gefin út á árinu 2011 þá telst hún til ársins 2011. Hér ætla ég þó, í fyrsta sinn, að gera undantekningu á þeirri reglu og velja Intouchables sem bestu mynd ársins hingað til. Þó svo að hún sé formúlukennd í drasl þá er þetta einfaldlega svo ótrúlega góð formúla að myndin gengur upp í einu og öllu. Hún er frábær, skemmtileg, niðurdrepandi, vel leikin, vel skrifuð, vel leikstýrð og allt þar á milli – manni líður einfaldlega betur í sálinni eftir að hafa séð hana.

 

Hvað segja notendur? Hvernig myndi þín fimma líta út?