Foley og Rosewood saman á ný

Judge Reinhold, sem lék hinn réttsýna lögreglumann William „Billy“ Rosewood í Beverly Hills Cop gamanmyndaseríunni, á móti Eddie Murphy, hefur skrifað undir samning um að koma fram í gestahlutverki í prufuþætti ( Pilot ) fyrir Beverly Hills Cop sjónvarpsþáttaseríu á CBS sjónvarpsstöðinni bandarísku.

Eddie Murphy, sem er einn af framleiðendum þáttarins, mun einnig koma fram í þættinum, í sínu gamla góða hlutverki sem Axel Foley.

Frekari upplýsingar um hlutverk Reinhold í þættinum liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Það var vefmiðillinn The Wrap sem greindi frá þessu fyrr í kvöld.

Beverly Hills Cop þátturinn er runninn undan rifjum skapara The Shield sjónvarpsþáttanna, Shawn Ryan, og er framhald á fyrrnefndri bíómyndaseríu og mun fjalla um son Foleys, sem starfar á meðal fína og fræga fólksins í Beverly Hills í Los Angeles, eins og pabbinn gerði í myndunum.

Sony Television framleiðir þáttinn og meðal helstu leikara annarra eru Brandon T. Jackson og Kevin Pollak.