Frumlegir og sjúkt fyndnir geðsjúklingar!

Mér finnst ég alltaf fá einhverja svona aukaánægju út úr því þegar ég horfi á vel heppnaðar kvikmyndir sem eru skrifaðar og leikstýrt af sama manninum (eða mönnunum, þegar fleirtalan á við). Munurinn er ekkert stjarnfræðilegur en maður finnur samt fyrir honum í gegnum ákveðna umhyggju. Það er allt önnur tenging við myndarammana og senurnar þegar leikstjórinn er að festa sína eigin sköpun á filmu, sín eigin samtöl og sínar eigin persónur, frekar en handrit sem hann eignar sér. Martin McDonagh, sem hittir núna í mark með annarri mynd sinni í fullri lengd, er einn af fáeinum upprennandi snillingum sem sinnir báðum störfum ánægjulega vel. Það er erfitt að útskýra nákvæmlega hvernig, en mér finnst það vera nokkuð auðséð að Seven Psychopaths er mynd sem er leikstýrt af skörpum handritshöfundi. Handritshöfundi sem er greinilega kvikmyndaunnandi.

McDonagh dýrkar leikarana sína og þessi áþreifanlega dýrkun hefur greinilega byrjað á blaði og endað á skjánum. Myndin er annars útkrotuð í miklum persónuleika og það lekur haf henni hnyttni, sjálfsvísandi „meta“ stælar og óvissa. Samstundis gerir þetta hana ómótstæðilega, sérstaklega þegar hún er séð sem einn stór leikvöllur fyrir meiriháttar leikara til að koma saman á til að sýna sínar bestu hliðar. Eitt af því skemmtilegasta við myndina er samt hversu gagnrýnendavarin hún er, því reglulega er hún í rauninni að gagnrýna sig sjálfa inn og út. Helst vil ég ekki útskýra of ítarlega hvernig hún gerir það, en handritið fjallar í hnotskurn um að skrifa handrit að bíómynd, sem í rauninni er myndin sem við erum að horfa á … með smá tvisti. Mikið er spilað með klisjur, stefnur og væntingar áhorfandans. McDonagh er fyrstur til að viðurkenna stærstu gallanna í handritinu sínu og gerir óspart grín að þeim. Það er allt gert nema að rjúfa fjórða vegginn, en það er hættulega stutt í það.

Þetta er pottþétt einn af athyglisverðari og frumlegri bræðingum ársins. Svona létt blanda af Adaptation og Quentin Tarantino, saltað með Cohen-bræðra kryddi. Afraksturinn er alls ekki meistaraverk en myndin er engu að síður hress, hugrökk og þrælskemmtileg. Samsetningin er í sjálfu sér nokkuð mögnuð. Myndin er úthugsuð en hún rúllar samt eins og atburðarásin sé endalaust spunnin hvert skref fyrir sig. McDonagh er annars mest hrifinn af leikurum sínum og samræðunum. Myndirnar hans eiga það líklegast mest sameiginlegt við Tarantino, fyrir utan það að vera ferskar, kómískar og ofbeldisfullar, að vera mjög samtalsdrifnar þar sem samtölin stýra skrautlegum aðstæðum en ekki öfugt. Þess vegna er hægt að gera fastlega ráð fyrir því að þeir sem kunna að meta In Bruges, fyrri mynd McDonaghs, eiga eftir að fá mikið út úr þessari. Nokkuð ólíkar myndir en samt eru þær báðar svo ruglaðar og farsakenndar, án þess að stíga of hátt frá jörðu, en líka svo ljótar og ekki lausar við tilfinningalegan kjarna ef leitað er eftir honum.

Tónninn er ekki eins brothættur og mátti finna fyrir í In Bruges en Seven Psychopaths er metnaðarfyllri, aðeins fyndnari og virkar sömuleiðis einbeittari. Hér keppast líka miklu fleiri leikarar um athyglina. Þeir sem dýrka Colin Farrell, Woody Harrelson, Sam Rockwell og Christopher Walken verða alls ekki fyrir vonbrigðum. Þessir meistarar eru augljóslega að skemmta sér í gegnum þetta allt og fjörið smitast beint yfir á mann sjálfan. Tom Waits á einnig sterka innkomu en Rockwell og Walken stela sviðsljósinu alveg, eins og aðeins þeim er lagið. Einu leikararnir sem eru illa nýttir eru þeir sem eru kvenkyns (t.d. Abbie Cornish og Olga Kurylenko), en myndin er heldur ekkert að fela það því það er partur af gríninu að hafa þær til staðar sem „illa skrifaðar kvenpersónur sem gera varla neitt í sögunni“. Fyndinn djókur að vísu, en að afsaka gallann þýðir ekki endilega alltaf að hægt sé að hunsa hann. Í þessu eina tilfelli hefði McDonagh mátt snúa aðeins út úr gríninu og finna meira fyrir þær að gera, frekar en að afskrifa þær beint. Eftir stendur þetta léttgeggjaða pulsupartí, en með þessa snillinga á skjánum er erfitt að láta sér leiðast í því partíi.

Seven Psychopaths heldur ekki alltaf frábærum dampi en hún drollar aldrei meira en í nokkrar mínútur eða svo. Hún er reyndar viðbjóðslega hégómafull, en á góðan hátt, og hræðist það aldrei að taka áhættu. Það sem skiptir aðallega máli er að þetta er óútreiknanlega flippuð, fyndin og snjöll glæpamynd. Hún er alfarið í höndum leikaranna góðu, sem spila æðislega hver með öðrum í hlutverki litríkra karaktera. Svo er hún augljóslega gerð fyrir kvikmyndaunnendur með húmor og þorsta fyrir temmilegri villimennsku. Getur nokkuð smekkmaður sagt að þetta hljómi annað en vel?


   (8/10)