Sambíóin frumsýna kvikmyndina Bad Grandpa á föstudaginn næsta, þann 25. október í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík, Akureyri, Bíóhöllinni Akranesi, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói og Króksbíói.
Bad Grandpa er nýjasta myndin frá Jack Ass og Johnny Knoxville, en um er að ræða heimsfrumsýningu á myndinni. Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að hér sé á ferðinni sprenghlægileg gamanmynd sem aðdáendur Jack Ass ættu ekki að láta fram hjá sér fara.
„Nýjasta myndin sem kennd er við Jackass-gengið er sprenghlægileg blanda af leiknum atriðum, skipulögðum fíflalátum og földum myndavélum.“
Myndin heitir Bad Grandpa og er mitt á milli þess að vera bíómynd og bjánaskapur þar sem venjulegu, grunlausu fólki er fléttað inn í grínið í alls kyns óvæntum uppákomum.
Johnny Knoxville, Jackass-maður númer eitt, leikur hinn 86 ára gamla Irving Zisman sem tekur að sér að koma átta ára sonarsyni sínum Billy (Jackson Nicoll) til föður síns sem býr í öðru fylki. Þeir kumpánar leggja í hann og á leiðinni veldur sá gamli ýmsum óskunda sem er sennilega ekki til eftirbreytni fyrir ungdóminn en stórskemmtilegur fyrir áhorfendur enda ganga flest uppátækin út á að koma grunlausum samborgurum á óvart og hneyksla þá í mörgum tilfellum upp úr skónum.
Stiklan hér að ofan, úr myndinni, er bráðfyndin ein og sér og í henni má sjá brot af nokkrum þeirra hrekkja sem afinn smekklausi og sonarsonur hans standa fyrir, sem aftur gefur góða vísbendingu um það sem koma skal í myndinni sjálfri.
Aðalhlutverk: Johnny Knoxville, Jackson Nicoll, Spike Jonze, Georgina Cates og Blythe Barrington-Hughes ásamt grunlausum vegfarendum
Leikstjórn: Jeff Tremaine
Bíó: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík, Akureyri, Bíóhöllin Akranesi, Ísafjarðarbíó, Selfossbíó og Króksbíóvík
Aldurstakmark: 12 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
• Leikstjóri myndarinnar, Jeff Tremaine, hefur verið með Jackass-genginu frá upphafi og er reyndar einn af stofnendum þess ásamt Johnny Knoxville og Spike Jonze. Hann leikstýrði flestum hinum Jackass-myndunum og sjónvarpsþáttunum þannig að óhætt er að fullyrða að hann sé vel með á nótunum.