Frumsýning: The Numbers Station

Sena frumsýnir spennumyndina The Numbers Station í dag, föstudag, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri sem og á VOD-leigum Símans og Vodafone.

Í tilkynningu frá Senu segir að hér sé á ferðinni spennutryllir af bestu gerð með meistara John Cusack og Malin Akerman í aðalhlutverkum.

Myndin fjallar um leigumorðingja sem fær það verkefni að vernda unga konu gegn öflum sem vilja hana dauða, hvað sem það kostar.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

The Numbers Station er eftir danska leikstjórann Kasper Barfoed og er fyrsta mynd hans á ensku. Kasper á að baki eina mest sóttu mynd síðasta áratugar í Danmörku, myndina Min søsters børn i Ægypten og gerði einnig spennumyndina Kandidaten árið 2008.

John Cusack leikur hér leigumorðingjann Emerson sem starfaði áður fyrir leynilega sveit sem hefur það verkefni með höndum að losa veröldina við óvini ríkisins. Emerson féll hins vegar í ónáð eftir að hann klúðraði einu verkefni sínu á sérlega klaufalegan hátt og í framhaldinu er hann sendur til Englands þar sem honum er falið að vernda unga konu, Katherine, en hún er talinn vera í lífshættu vegna starfs síns.

Undir venjulegum kringumstæðum ætti verkefnið ekki að flækjast fyrir Emerson, en hér er ekki allt sem sýnist. Þegar þau Katherine verða fyrir árás leita þau skjóls í rammgerðri herstöð sem er samt ekki svo traust að óvinir þeirra nái ekki í gegn að lokum …

 

Fróðleiksmolar til gamans: 

  • Myndin er tekin upp í Rendelsham herstöðinni í Suffolk í Englandi þar sem bandaríski flugherinn var með aðstöðu fyrr á árum. Staðurinn er einnig frægur fyrir að árið 1980 olli óskýrður ljósagangur því að í gang fóru sögur um að þar hefði lent geimfar og hefur staðurinn síðan verið kallaður „breska Roswell“, með vísun í svipaða atburði sem gerðust í Roswell í Bandaríkjunum árið 1947.
  • Þess má geta að íslendingurinn Óttar Guðnason er kvikmyndatökumaður myndarinnar en Óttar hefur unnið m.a. með Baltasari Kormáki á Little Trip to Heaven og Inhale.