Fyrsta stiklan úr Jurassic World

jurassic_worldFyrsta stiklan úr Jurassic World var opinberuð í dag. Myndin gerist 22 árum á eftir atburðunum í fyrstu Jurassic Park-myndinni. Þetta verður fjórða myndin í seríunni og verður hún frumsýnd á næsta ári, þegar einmitt 22 ár verða liðin síðan fyrsta myndin kom út árið 1993.

Jurassic World gerist á eyjunni Isla Nublar, þar sem um 20.000 manns heimsækja garðinn á degi hverjum. Fólki er siglt frá Costa Rica og á eyjunni er hótel, golfvöllur, safarí-ferðir, veitingastaðir og auðvitað risaeðlur. Gestir garðsins geta skoðað risaeðlurnar í návígi. Garðurinn breytist í martröð þegar ný tegund af risaeðlu gengur berserksgang um garðinn og eyðileggur allt sem á vegi hennar verður.

Colin Trevorrow leikstýrir myndinni, en það kom nokkrum á óvart því Trevorrow er nokkuð óreyndur og hefur aðeins leikstýrt einni mynd, Safety Not Guaranteed sem kom út árið 2012.

Með helstu hlutverk í myndinni fara m.a. Chris Pratt, Omar Sy, Idris Elba, Bryce Dallas Howard, Vincent D’Onofrio, Jake Johnson og Irrfan Khan.