Náðu í appið
Gagnrýni eftir:The Simpsons Movie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyrir um 20 árum síðan komu fram á sjónarsviðið teiknimyndapersónur sem áttu eftir að verða mjög þekktar og vinsælar. Þetta voru persónur sem áttu það sameiginlegt að búa í bænum Springfield í Bandaríkjunum. Aðaláherslan var á eina fjölskyldu, Simpsons fjölskylduna sem allir ættu nú að vera farnir að þekkja. Búið er að framleiða nokkur hundruð þætti. Síðustu seríur um þessa fjölskyldu hafa verið frekar slappar og þessi sjónvarpsvinir okkar hafa því misst fjölmarga aðdáendur. Framleiðendur Simpsons þáttana sáu sér þá leik á borði og ákváðu að framleiða kvikmynd um þessa fjölskyldu til að hleypa nýju lífi í þennan myndaflokk. Því miður tókst það ekki því kvikmyndin er frekar lík síðustu seríum af Simpsons þar sem sögurþráðurinn er teygður og togaður í allar áttir.

Í myndinni koma helstu aðalpersónurnar í Springfield fram (saknaði þó að Skinner skólastjóri var lítið sem ekkert í myndinni). Myndin gengur út á það að Springfield hefur verið lýst mengaðasta borg í heimi og yfir hana er sett glerhjúpur þannig að enginn kemst út og enginn kemst inn. Simpsons fjölskyldan finnur fljótlega leið út og ákveður að bjarga málunum.

Það er mikil áhersla á umhverfismál og fjölskyldumál í þessari mynd og í sjálfu sér er það af hinu góða. Það var samt þannig að þessi mál skyggja of mikið á brandarana sem eiga að vera allsráðandi. Þettir gerir það að verkum að margir brandarar hitta ekki í mark. Sumir gera það, en allt of fáir.

Myndin er óaðfinnanleg útlitslega séð og grafíkin hefur verið bætt þannig að þessar persónur eru meira lifandi.

Heilt yfir er þetta ágætis skemmtun en skilur sáralítið eftir sig. Ég hefði frekar átt að bíða eftir myndinni á DVD því þetta er í sjálfu sér eins og langur Simpsons þáttur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Planet Terror
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Perluvinirnir Robert Rodriguez og Quentin Tarantino heiðra minningu b-mynda 8. og 9. áratugarins með því að gera Death Proof (Tarantino) og Planet Terror (Rodriguez). Ég hef ekki séð Death Proof og því snýst þessi umfjöllun eingöngu um Planet Terror.

Í stuttu máli fjallar myndin um eiturefnaslys hjá hernum. Þessi eiturefni gera það að verkum að þeir sem komast í snertingu við þau breytast í einhverskonar uppvakninga eða hálfgerð skrímsli. Fjölmargir komast í snertingu við þessi eiturefni og þeir sem sleppa við það þurfa að passa sig á því að verða ekki fyrir þessum uppvakningum því þeir eiga það til að éta fólk, nú eða bíta frá sér og þá breytist sá sem var bitinn í svona uppvakning.

Það er nóg af blóði í þessari mynd og því er rétt að benda viðkæmum á að fara á eitthvað annað í bíó. Stíll myndarinnar er í anda b-myndanna. Myndin er oft óskýr, hljóð og klippingar eru meingallaðar. En það er markmiðið, þ.e.a.s. að fanga stemmninguna eins og hún var í b-myndum 8. og 9. áratugarins þar sem markmiðið var ekki að gera góða mynd heldur að gera mynd sem tók ekki langan tíma að framleiða og hafa nógu mikið af hasar, blóði og kynlífi svo að fólk borgaði sig inn á myndina.

Þó það sé nóg af hasar og blóði og öllu því þá er myndin einfaldlega ekki nógu góð. Húmorinn er ekki nógu beittur og þessar endurtekningar voru orðnar helst til of þreyttar. Handritsgerð hefur aldrei verið sterkasta hlið Rodriguez og það sést klárlega í þessari mynd.

Leikararnir standa sig þokkalega. Nafn Bruce Willis er á plakatinu en hann er í aukahlutverki í þessari mynd.

Heilt yfir er Planet Terror þokkaleg en auðgleymd skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Miss Potter
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Miss Potter lítil og sæt mynd sem hverfur í skuggann á stóru DVD-myndunum á vídeóleigunum (kannski ekki rétt að segja vídeóleigunum þar sem það er hætt að gefa út vídeóspólur...). En það er vel þess virði að gefa sér tíma til að horfa á þessa mynd því hún er mjög góð.

Miss Potter er sannsöguleg mynd um barnabókarithöfundinn Beatrix Potter (Renée Zellweger). Hún teiknar myndir af dýrum og semur sögur um dýrin. Hún lifir og hrærist í þessum ímyndaða heimi sínum þar sem þessi dýr eru einu vinir hennar. Hún kynnist bókaútgefandanum Norman Warne (Ewan McGregor). Hann vill gefa út verk Beatrix Potter. Þau falla fyrir hvort öðru en það líkar foreldrum Beatrix ekki þar sem þau eru vel stæð og þeim finnst Norman ekki vera af nógu góðum ættum. En þau láta hjartað ráða för.

Leikstjórn Chris Noonans (Babe) er traust. Hann nær að fanga andrúmsloftið í upphafi 20. aldar. Leikararnir standa sig allir mjög vel.

Miss Potter er þægileg og róleg mynd. Umgjörð myndarinnar er mjög vönduð. Helsti galli myndarinnar er kannski að hún er of stutt. Ekki nema rétt tæpar 90 mínútur. Það gerir það að verkum að það verða nokkrir lausir endar. En heilt yfir er Miss Potter góð mynd fyrir vandláta kvikmyndaunnendur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Butterfly Effect
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar ég var að horfa á The Butterfly Effect minnti myndin mig mikið á myndin Bedazzled sem Brendan Fraiser lék í. Sú mynd fjallaði á gamansaman hátt um það að ef hægt væri að breyta einhverju, hvernig yrðu þá aðstæðurnar hjá manni. Sú mynd var alveg ágæt en það sama verður ekki sagt um The Butterfly Effect. Myndin byggir á svonefndri Caos theory eða óreiðukenningunni, þ.e. allt hefur afleiðingar, hversu smár sem atburðurinn er þá hefur hann afleiðingar. Kvikmyndin Sound of Thunder sem kemur út á næsta ári byggir að einhverju leyti á þessari kenningu. Evan Treborn (Aston Kutcher) verður fyrir minnisglöppum í æsku sem gerir það að verkum að hann útilokar slæma hluti. Faðir hans er haldinn sama kvilla. Móðir hans ráðleggur honum að halda dagbók til að skrá hjá sér dagana til að hann eigi betur með að muna. Þegar Evan er 20 ára fer hann að glugga í þessar dagbækur til að halda uppá að hann hefur ekki fengið svona minnisgloppur í 7 ár. En þegar hann fer að lesa áttar hann sig á því að hann er þeim eiginleikum gæddur að hann getur breytt fortíðinni. Hann les um liðna atburði og fer til baka í huganum og breytir einu atriði. En með því að breyta því breytast aðstæður hans í núinu. En það er ekki hægt að sjá fyrir öllu, þó að eitt breytist til batnaðar er margt sem hefði breytist líka. Því er Evan kominn í ákveðinn vítahring sem erfitt er að losna úr. Myndin er full af endurtekningum og við fylgjumst með aðstæðum Evans breytast eftir því sem hann fer til baka í fortíðina. Það verður bara svo leiðingjarnt og myndin virkaði á mig eins og allt of langur þáttur af Twilight Zone. Hugmyndin er góð en það er illa farið með hana í þessari mynd. Aston Kutcher á ágæta spretti en myndin er hvorki fugl né fiskur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
AVP: Alien vs. Predator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alien myndirnar hafa allar slegið í gegn og geimverurnar löngu orðnar klassískar. Predator átti sína spretti, sérstaklega í fyrstu predator myndinni en seinni myndin var mjög slæm. Báðar þessar geimverur eiga það sameiginlegt að vera mjög vinsælar en jafnframt mjög ólíkar. Því var gefin út tölvuleikur sem byggði á baráttu milli þessara tveggja geimvera. Um leið og það var gert var hægt að segja sér að það hlýtur að vera gerð bíómynd þar sem þessar tvær geimverur eru saman. Paul W.S. Anderson var fenginn til að stýra þessu verkefni. Paul er ansi mistækur leikstjóri og hefur gert stórgróðar myndir eins og Event Horizon og Resident Evil en líka skelfilegar myndir eins og Soldier og Mortal Kombat. Alien vs. Predator fellur því miður í flokk hans verstu mynda. Kannski má færa rök fyrir því að það ætti ekki að vera setja út á söguþráð svona myndar þar sem hann er hvort eð er með ólíkindum. En málið er bara að Alien myndirnar og fyrsta Predator myndin voru byggð á traustri og trúverðugri sögu en það vantar algjörlega í þessari mynd. Milljarðarmæringurinn Charles Bishop Weyland sendir hóp manna til Suðurskautslandsins til að grafa niður á hlut sem virðist vera pýramídi. En þegar hópurinn kemur niður að pýramídanum komast þau að því að þau eru aðeins peð í tafli á milli tveggja óvætta og reyna hvað þau geta til að koma sér út. En óvættarnir hafa ætlað þeim annað hlutverk. Í raun er myndin svo fáránleg að það þýðir varla að tíunda það hér í þessari stuttu gagnrýni. Það eru eitt og eitt flott atriði sem ná að halda athygli manns í smá stund en í heild var maður afskaplega svekktur út í Paul W.S. Anderson að hafa farið svona illa með tvær goðsagnir úr kvikmyndasögunni. Það er vonandi að einhver geri Alien 5 og Predator 3 til að bjarga því sem bjargað verður. Alien vs. Predator er hallærisleg tilraun til að koma þessum óvættum aftur á hvíta tjaldið, tilraun sem misheppnaðist algjörlega. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spartan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Spartan er spennumynd af gamla skólanum, þ.e. myndin stendur og fellur með handritinu og leiknum. Það er ekki stólað á innantómar brellur og aulahúmor til að bjarga gloppum í handriti. Myndin fjallar um leyniþjónustumanninn Scott (Val Kilmer). Hann er harður í horn að taka og hlýðir skipunum án þess að hugsa sig um. Scott er mikill einfari og hleypur mönnum ekki of nálægt. Þegar dóttur valdamikils manns í Bandaríkjunum er rænt er Scott settur í málið. Rannsókn hans leiðir hann til æðstu manna í bandarísku stjórnkerfi. Spurningin er bara hvort einhver trúir honum. Eins og ég sagði stendur Spartan og fellur með handritinu. Til að byrja með er handritið skothelt en um miðja mynd hrapar myndin niður í meðalmennskuna og atburðarrásin verður gloppótt og oft á tíðum ótrúverðug. Val Kilmer stendur sig vel og William H. Macy er góður í litlu aukahluverki. Spartan er ágæt mynd en skilur lítið eftir sig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
EuroTrip
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Æi, enn ein þunna unglingagamanmyndin frá Bandaríkjunum. Mynd sem hefði átt að fara beint á myndband og í hillu sem engin nennir að skoða. Þegar ég var að horfa á þessa mynd margspurði ég sjálfan mig: Hef ég ekki séð þetta allt áður? Fyllerísbrandarar, gáfaða stelpan sem verður svo sæt, par sem er að reyna að vera saman, fyndni vinurinn, ofnotkun á beru fólki og svona mætti lengi telja. Í stuttu máli fjallar myndin um útskriftarnemann Scott. Kærastan hans sagði honum upp og því ætlar hann að fara til Þýskalands að finna pennavin sinn sem vill svo skemmtilega til að er falleg stelpa. Vinur hans fer með og saman lenda þeir í ýmsum hremmingum í Evrópu. Í Frakklandi hitta þeir systkini frá Bandaríkjunum og þau fylgja þeim á leiðarenda. Ferðalag þeirra tekur ótal u-beygjur og þau kynnast misgáfulegu fólki á leið sinni. Myndin er ekkert nema klisja og afskaplega fyrirsjáanleg. Hún er alveg laus við það að vera fyndin. Svo er slæmur áróður í myndinni. Hann birtist þannig að félagarnir lenda í austur-Evrópu og hún er sýnd í algjörri niðurnýslu þar sem eymdin ein ríkir. En við vitum öll að svo er nú ekki. Sennilega skilaboð kapítalistanna um að kommúnistarnir séu að fara með allt til andskotans. Eurotrip er langt í frá að vera góð mynd. Hægt er að segja að hún sé afskaplega leiðinleg á köflum. Myndin nær sér aðeins á flug, ekki mikið, þegar félagarnir eru í London, en hún hrapar við það sama niður aftur. Forðist þessa.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Day After Tomorrow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Síðustu ár hefur tæknibrellum í kvikmyndum fleygt fram. Fyrir nokkrum árum treystu framleiðendur kvikmynda á tæknibrellurnar til að fela meingölluð handrit og annars flokks leikara. Í dag gengur þetta einfaldlega ekki upp. Tæknibrellur eru það sjálfsagðar að áhorfandinn kallar á gott handrit til að halda sér við efnið. The Day After Tomorrow byggir á meingölluðu handriti og því hefur verið ætlunin að fela það með tæknibrellum en það tekst bara ekki. Myndin verður vandræðanleg og langdregin þegar líður á. Sá ádeilubroddur sem markmiðið var að hafa í þessari mynd fýkur út í veður og vind í orðsins fyllstu merkingu og eftir stendur mynd sem er oft á tíðum hundleiðinleg og þreytandi. Klisjurnar ráða ferðinni frá upphafi til enda. Myndin fjallar einfaldlega um það þegar móðir náttúra er búin að fá nóg af mengun mannsins og því skella á hamfarir sem engin maður hefur orðið vitni af. Veðurfræðingurinn Jack Hall (Dennis Quaid) spáði fyrir um þessar hamfarir og því er hann miðjan í allri ákvarðanatöku fyrir hönd Bandaríkjastjórnar. Sonur hans, Sam Hall (Jake Gyllenhaal) er í New York þegar ósköpin dynja yfir. Jack leggur því í ferð til að bjarga syni sínum. Hamfaraleikstjórinn Roland Emmerich er við sama heygarðshornið í þessari mynd. Hann má samt eiga það að hin bandaríska þjóðerniskennd er á undanhaldi. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
21 Grams
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

21 Grams er ein af þeim kvikmyndum sem skilur áhorfandann eftir agndofa. Myndin slær frá sér og það fast að áhorfandinn getur varla hreyft sig þegar hún er búinn. 21 Grams er virkilega átakaleg og stórkostleg kvikmynd, kvikmyndaafrak sem seint verður leikið eftir. Í myndinni fylgjumst við með þremr ólíkum persónum sem tengjast ekki neitt en skelfilegt slys verður þó til að tengja persónurnar saman. Við fylgjumst með afbrotamanninum Jack Jordan (Benicio Del Toro) sem er að reyna að koma lífi sínu á réttan kjöl á nýjan leik en það gengur ekki sem skildi. Við kynnumst Christinu Peck (Naomi Watts) sem er kona af efri stéttum en er að sökkva í eirurlyfjafenið og einnig kynnums við hinum dauðvona háskólaprófessor Paul Rivers (Sean Penn). Örlögin leiða þessar persónur saman og framundan er óumflýjanlegt uppgjör. Myndin er afrek út af fyrir sig og í raun listaverk. Það er flakkað fram og til bara í sögunni en samt verður sagan aldrei ruglingsleg. Leikararnir eru stórkostlegir. Myndin er hrá og klippingar eru hraðar. 21 Grams er mynd sem situr lengi í manni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Secret Window
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Secret Window er gerð eftir sögunni Four Past Midnight: Secret Window, Secret Garden eftir Stephen King. Gerðar hafa verið margar kvikmyndir eftir sögum Stephen King. Margar eru frábærar eins og Green Mile, The Shining, Misery og Shawshank Redemption en margar eru hreint og klárt rusl eins og Sometimes they come back, Thinner og Graveyard Shift . Kvikmyndin Secret Window rétt nær í hælana á þeim toppmyndum sem gerðar hafa verið eftir sögum meistarans. Í stuttu máli fjallar myndin um rithöfundinn Mort Rainey (Johnny Depp). Hann hefur einangrað sig eftir erfið sambandsslit við fyrrverandi konuna sína, Amy Rainey (Maria Bello). Hann á erfitt með að skrifa og nýtur dagana til svefns og drykkju. Einn morguninn er bankað á dyrnar hjá honum og fyrir utan stendur maður að nafni John Shooter. John sakar Mort um ritstuld og krefst þess að hann leiðrétti það hið fyrsta. Mort álítur þennan mann eitthvað ruglaðan og hunsar hann að mestu leyti. En síðar gerir Mort sér grein fyrir því að þessi maður veit mun meira um hann en Mort hafði gert sér grein fyrir. Secret Window leikur sér með þekkt minni úr sögum Kings, rithöfundur í ákveðinni tilvistarkreppu. Myndin er vel leikin og handritið nokkuð gott. Það er góður stígandi í myndinni og er hún mjög spennandi á köflum. Secret Window er vel gerð spennumynd með óvæntri fléttu. Mæli með þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Duplex
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Danny DeVito leikstýrir kvikmyndinni Duplex og skilar af sér miðlungsgamanmynd. Maður hefði búist við mun meiru en því miður varð það ekki raunin. Duplex fjallar um parið Alex Rose (Ben Stiller) og Nancy Kendricks (Drew Barrymore). Alex er rithöfundur og Drew vinnur hjá stóru tímariti. Þau finna draumaíbúðina og flytja inn. Íbúðin er tvíhæða en á efri hæðinni býr Mrs. Connelly (Eileen Essel), gömul og afskapleg indæl kona, eða það er hún allavega til að byrja með. Mrs. Connelly leigir efri hæðina og leigusamningurinn kveður á um að Alex og Nancy mega ekki hreyfa við gömlu konunni. Ekki líður á löngu þar til sú gamla er farin að gera hinu hamingjusama pari lífið leitt, þau geta ekki sofið, þau fá ekki frið, lögreglan er daglegur gestur o.s.frv. Að lokum gefast þau upp og snúa vörn í sókn með skelfilegum afleiðingum. Duplex byrjar mjög vel og húmorinn hittir í mark en eftir því sem líður á verður myndin langdregin og endurtekningarsöm. Sömu brandararnir eru margnotaðir og verða því afskaplega þreyttir. Duplex er eins og allt of langur gamanþáttur sem byrjar mjög vel en missir svo flugið og brotlendir allillilega í lokin. Duplex er miðlungsmynd sem rétt nær að halda sér í miðjumoðinu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
In America
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumar myndir eru einfaldlega svo góðar að það er varla hægt að gefa þeim stjörnur. Fjórar stjörnur eru einfaldlega of lítið því þessi mynd sprengir þann stjörnuskala sem ég hef stuðst við. In America er kvikmynd þar sem hver einasti rammi nýtur sín til fullnustu. Myndin er svo frábær í einfaldleika sínum og sýnir manni lífið eins og það er og er ekkert að skafa utan af því. Myndin fjallar um írska fjölskyldu sem flyst ólöglega til Bandaríkjanna til að upplifa ameríska drauminn. Fjölskyldufaðirinn Johnny ætlar sér að slá í gegn sem leikari en kemst að því að það er hægara sagt en gert. Sarah er heima með dætur þeirra, Ariel og Ghristy. Fjölskyldan kynnist einkennilegum manni sem býr í húsinu og með þeim takast sérstök vinnáttubönd. En draugar fortíðar elta fjölskylduna uppi. In America er ótrúleg kvikmynd. Leikararnir eru frábærir og þá sérstaklega litlu stúlkurnar sem leika systurnar Ariel og Christy. Með allra bestu kvikmyndum sem undirritaður hefur séð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monster
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Monster fer með áhorfandann allan tilfinningaskalann og snýr honum í marga hringi. Monster er stórkostleg kvikmynd sem skilur mikið eftir sig og sýnir manni mannlegan breiskleika á ógleymanlegan hátt. Myndin fjallar um vændiskonuna Aileen (Charlize Theron) sem hefur ekki átt sjö dagana sæla í gegnum ævina. Hún er komin á fremsta hlunn í lífinu og er að því komin að binda endi á þetta allt saman þegar hún kynnist Selby (Christina Ricci). Selby er lítil dekurstelpa og með Aileen getur hún sýnt foreldrum sínum að hún má sko hvað sem er. Samband Aileen og Selbyar þróast út ástarsamband og það er alltaf spurning um hver er að nota hvern. Aileen treystir ekki karlmönnum og tekur uppá því að drepa kúnnana og hirða peninginn. Það á eftir að draga dilk á eftir sér. Monster er ógleymanleg mynd sem allir kvikmyndaunnendur verða að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dawn of the Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndir eins og Dawn of the Dead gefa sig ekki út fyrir að vera neitt annað en þær eru, þ.e. skemmtun frá upphafi til enda. Myndin tekur sig aldrei alvarlega og það er klárt mál að leikararnir hafa skemmt sér vel við gerð þessarar myndar. Í stuttu máli fjallar myndin um nokkra einstaklinga sem hafa lifað af vírus sem breytir fólki í lifandi/dauða einstaklinga - uppvakninga. Þessir einstaklingar leita skjóls í verslunarmiðstöð og geta ekki gert neitt annað en beðið þess sem verða vill. Uppvakningarnir umkringja húsið og það er bara tímaspursmál hvenær þeir komast inn. Við kynnumst hörkutólinu Kenneth (Ving Rhames), Önu (Sarah Polley), Michael (Jake Weber) og fleiri hræddum og umkomulausum einstaklingum. Spennan magnast með hverjum deginum. Dawn of the Dead inniheldur allt sem prýða þarf góða hryllingsmynd - spennu, hasar, húmor og nóg af blóði. Myndatakan og tónlistin er frábær og leikararnir standa sig með prýði. Dawn of the Dead er svalasta myndin sem er í kvikmyndahúsum í dag. Pottþétt skemmtun, fyrir þá sem eru fyrir myndar af þessu tagi. Góða skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cabin Fever
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

æ,æ,æ,æ, hvað er í gangi? Leikstjórinn og handritshöfundurinn Eli Roth sendir hér frá sér hrollvekjuna Cabin Fever. Hún er markaðssett sem hrollvekja af gamla skólanum en það verður að segjast að hún er hvorki af gamla skólanum né nýja skólanum því hún er einfaldlega hundleiðinleg. Í stuttu máli fjallar myndin um nokkur ungmenni sem eru að fagna próflokum sem því að leigja lítinn kofa úti í skógi. Þegar þangað er komið fara undarlegir hlutir að gerast. Einhver einkennilegur vírus virðist taka sér bólfestu í þeim eitt af öðru sem gerir það að verkum að skinnið fer af þeim. Smám saman snúast þau gegn hvort öðru og engin virðist vera óhultur. Roth ætlaði að feta einhverja nýja leið en því miður mistekst það. Myndin er einhvers konar sambland af Bad Taste og Friday th´13. Þessi mynd er ekki spennadi, ekki fyndin og ekkert óhugguleg. Þessi mynd fellur í flokk allra lélegustu kvikmynda sem undirtiaður hefur séð. Forðist þetta, í guðanna bænum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Master and Commander
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumar myndir eru einfaldlega stórkostlegar og skilja mikið eftir sig. Master and Commander er ein þessara mynda. Leikstjórinn Peter Weir (The Truman Show, Dead Poets Society) hefur með þessari mynd náð að skapa andrúmsloft sem seint verður leikið eftir. Myndin hreinlega togar mann inn í sig og áhorfandinn verður þátttakandi í söguþræðinum. Myndin gerist í upphafi 19.aldar, á tímum Napóleons. Stirðleiki var á milli stórveldanna Frakklands og Bretlans og segir myndin frá áhöfn breska skipsins Surprise. Skipstjórinn, Jack Aubry (Russel Crowe), kallar ekki allt ömmu sína og þekkir skipið út og inn og veit hvað það þolir. Hann hefur fengið fyrirmæli um að stöðva för franska skipsins Acheron með öllum ráðum. Vandinn er hins vegar sá að það skip er mun stærra og betra en Surprise. Þegar Acheron kemur Surprise á óvörum og skilur það eftir stórlaskað ákveður Jack Aubry að elta skipið uppi. Nú hefst eltingarleikur sem í upphafi virðist nokkuð ójafn en Jack Aubry lumar á nokkrum trompum sem hann telur duga, eða hvað? Master and Commander er frábærlega vel gerð kvikmynd. Jafnhliða því að sýna mikilfenglegar orrustur sýnir hún lífið um borð í skipinu sem er oft á tíðum mjög erfitt. Einangrunin fer illa í menn. Leikurinn er skotheldur enda handritið frábærlega skrifað. Kvikmynd sem óhætt er að mæla með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Stuck on You
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nýjasta kvikmynd þeirra Farrelly bræðra (There is something about Mary, Dumb and dumberer) nefnist Stuck on You. Þeir bræður hafa verið þekktir fyrir jaðarhúmor sem á það til að fara fyrir brjóstið á mörgum. Þeir taka þá fyrir sem minna mega sín í þjóðfélaginu og gera svolítið grín að þeim. Stuck on You fer aðrar leiðir og sýnir aðra hlið á þeim bræðrum. Húmorinn og söguþráðurinn nær meiri dýpt og myndin sýnir mannlegt eðli og hvað það er í rauninni skammt á milli hláturs og gráturs. Stuck on You fjallar um bræðurna Bob (Matt Damon) og Walt (Greg Kinnear). Þeir búa í litlu sveitarþorpi í Bandaríkjunum og hafa það bara stórfínt. Það eina sem hrjáir þá að þeir eru fastir saman á mjöðminni. Aðgerð er erfið því annar þeirra hefur stærri hlutann af lifrinni og því ákváðu þeir að vera bara svona. Þeir bræður eru mjög ólíkir. Walt er framsækinn og vill verða leikari en Bob er til baka og nægjusamur. Bob felst þó á að fara með Walt til Hollywood að freista gæfunnar. Þar byrjar ævintýrið fyrir alvöru og hjólin fara að snúast. Stuck on You fer hárfína línu á milli þess að vera dramamynd og gamanmynd. Farrelly bræður sýna sínu alvarlegu hlið og ferst það vel úr hendi. Stuck on You er um sigur mannsandans og sýnir okkur að það er hægt að ná langt þrátt fyrir að lífið sé ekki alltaf dans á rósum. Vel heppnuð mynd sem fær mann til að hugsa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
All or Nothing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stundum eru gerðar myndir sem skilja áhorfandann eftir agndofa. All or Nothing er lítill gullmoli sem leynist í hillum myndbandaleiga. Þvílík gæðamynd hefur undirritaður ekki séð í háa herrans tíð. All or Nothing sameinar sögu nokkurra mjög svo mismunandi fjölskyldna sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa ekki mikið af peningum á milli handanna. Þessar fjölskyldur búa í sömu verkamannablokkinni í London. Við fylgjumst með þeirra hversdagslega lífi og hreinlega förum nánast inn í stofu til þeirra. Hræðilegur atburður verður svo kveikjan að ákveðnu uppgjöri innan þessara fjölskyldna. All or Nothing er svo sannarlega ekki Hollywood mynd, í þessari mynd eru alvöru samtöl á milli alvöru persóna, persóna sem við þekkjum. Leikstjórinn Mike Leigh nær fram því besta úr leikurum á borð við Timothy Spall (The Last Samurai, Still Crazy) og Lesley Manville. Ég er nánast orðlaus af hrifningu. Leigh hefur náð að búa til lítið listaverk. Hann hefur endurskapað kvikmyndina sem list. Þvílík mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Brother Bear
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Brother Bear er afskaplega falleg og þægileg mynd fyrir alla fjölskylduna. Það er vinsælt hjá Disney að sækja í dýraríkið og Brother Bear ratar einmitt þá leið. Í stuttu máli fjallar myndin um ungan pilt að nafni Kenai. Hann lifir hjá ættbálknum sínum og unir hag sínum mjög vel. Kenai vill sanna sig fyrir ættbálknum og lítur á manninn sem æðri öllum dýrum. Þegar hann hyggst elta uppi björn sem hefur stolið frá þeim fiski verður voðinn vís. Bræður hans elta Kenai og koma að honum þar sem hann er að berjast við björninn. Þessi bardagi endar með skelfilegum afleiðingum. Kenai mun kynnast heimi dýranna mun betur. Brother Bear er mynf með fallegan og þarfan boðskap. Myndin hefur góðan stíganda. Brandararnir hitta í mark. Góð tónlist gefur myndinni aukið vægi. En því miður fer að halla undan fæti í blálokin en þá er eins og handritshöfundar hafi lent í blindgötu og bjargað sér fyrir horn með afskaplega hallærislegum endi. Þrátt fyrir það er Brother Bear fyrirtaks skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Along Came Polly
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Along Came Polly er ein af þessum feel good myndum sem koma stundum í bíó og ganga út á það að skemmta áhorfandanum og taka sig engan vegin allt of alvarlega. Myndin fjallar um Reuben Feffer (Ben Stiller) sem starfar við áhættugreiningu. Vegna starfsins er Feffar afskaplega varkár og gerir ekkert án þess að plana það fyrir fram. Hann lifir lífinu í ótta um það hvað getur gerst. Hann giftist Lisu Kramer (Debra Messing) en í brúðkaupsferðinni heldur hún framhjá honum. Vinur Feffers, Sandy Lyle (Philip Seymour Hoffman), stappar í hann stálinu og hvetur hann til að halda áfram. Þá kemur Polly Prince (Jennifer Aniston) til sögunnar. Hún er algjör andstaða Feffers og nýtur þess að lifa lífinu til fulls. Þau dragast hvort að öðru og úr verður hið skrautlegasta ástarsamband. En ekki líður á löngu þar til Feffer þarf að taka afar mikilvæga ákvörðun. Along Came Polly er hugljúf og fyndin mynd sem heldur manni við efnið. Hún er uppfull af hnitmiðuðum og góðum bröndurum. Frábærir aukaleikarar eins og Alec Baldwin og Hank Azaria krydda myndina. Virkilega þægileg mynd sem kemur skemmtilega á óvart.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gothika
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Geðlæknirinn Miranda Grey (Halle Berry) er góð í sínu fagi. Hún vinnur á geðspítala við ummönnun sjúklinga sem eru mikið veikir. Maðurinn hennar, Douglas Grey (Charles S. Dutton, er yfirmaður geðspítalans. Kvöld eitt er hún á leið heim til sín og lendir í bílsysi og þegar hún vaknar er hún stödd á geðspítalanum, ekki sem læknirinn Miranda Grey, heldur sem sjúklingurinn Miranda Grey. Hún man lítið hvað gerðist en smátt og smátt fer það að rifjast upp en hver trúir geðsjúkum einstaklingi? Læknirinn Peter Graham (Robert Downey Jr.) reynir að hjálpa henni en trúir henni mátulega. Miranda þarf að sanna fyrir læknunum og lögreglunni að hún sé heil á geði en það reynist þrautin þyngri, sérstaklega þar sem ung stúlka gerir henni það erfitt en þessi unga stúlka er dáin.....

Gothika byrjar mjög vel en dettur því miður í gryfju endurtekninga. Söguþráðurinn er afskaplega götóttur og leikstjórinn þvælir efninu fram og tilbaka. Myndin nær ekki að verða drungaleg eða óhugguleg. Myndin átti gott start en hrapaði þegar leið á. Halle Berry stendur sig nokkuð vel og bjargar því sem bjargað verður.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
American Wedding
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1999 sló myndin American Pie óvænt í gegn í kvikmyndahúsum. Í kjölfarið kom svo afarslappt framhald og nú er komin þriðja myndin, American Wedding. Í þessari mynd er komið að brúðkaupi Jims (Jason Biggs) og Michelle (Alyson Hannigan). Þau eru að vonast eftir draumbrúðkaupinu og allt gengur eins og í sögu þar til Steve Stifler (Sean William Scott) skýtur upp kollinum og er ekki sáttur við að það átti ekki að bjóða honum. Hann fer óumbeðin að skipuleggja steggjarpartý því fyrir honum snýst brúðkaup um djamm og stelpur. Hvert óhappið rekur annað og svo virðist sem allt sé á móti því að þau giftast. Inn í atburðarrásina fléttast svo foreldrar Jims og Michelle, vinir þeirra, ömmur, systur, gæludýr og fleira. Það verður að segjast eins og er að þessi mynd er samtíningur af órökréttum og lélegum bröndurum. Það er búið að margtyggja þessa brandara svo að úr verður léleg klisja. Ofleikur Sean Williams er hreint hroðalegur. Maðurinn getur einfaldlega ekki leikið. Neðanbeltishúmorinn er allsráðandi. Handritið er fáránlegt og söguþráðurinn fer um víðan völl. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bad Boys II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1995 senda draumaframleiðandinn Jerry Bruckheimer frá sér kvikmyndina Bad Boys. Hann fékk Michael Bay til að leikstýra og Martin Lawrence og Will Smith til að leika aðalhlutverkin. Þessi grautur er ávísun á sumarsmell með miklum hasar. Árið 2003 endurtók Bruckheimer leikin með sömu aðilum innanborðs nema í þetta skiptið var ekkert hugsað um lítilræði eins og handrit. Eingöngu var byggt á heiladauðum hasar og endalausum fimmaura bröndurum. Einnig var brugðið á það ráð að lengja myndina í á þriðja tíma. Útkoman er óttalegt miðjumoð. Þreytt mynd sem nær aldrei þeim hæðum sem fyrri myndin náði. Fíkniefnalögreglumennirnir Marcus Burnett (Martin Lawrenece) og Mike Lowery (Will Smith) eiga nú í höggi við vægðarlausa glæpamenn sem svífast einskins til að koma eiturlyfjunum yfir landamærin. Inn í atburðarrásina blandast systir Marcusar, Syd (Gabrielle Union). Mike fellur fyrir henni og það líkar Marcus ekki. Söguþráðurinn er ekki merkilegri en þetta og myndin er keyrð áfram af miklum krafti en það er bara ekki nóg. Bad Boys 2 er misheppnuð mynd, alltof löng og tilgangslaus.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Lost in Translation
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Losti In Translation er alvöru mynd um alvöru persónur. Áhorfandinn á mjög auðvelt með að skynja gleði og sorgir persónanna og er það skotheldu handriti Sofiu Coppola að þakka. Bob Harris (Bill Murray) er gamalreyndur Hollywoodleikari sem byggir á gamalli frægð. Hann fer til Japans að kynna viskí og taka þátt í spjallþáttum í sjónvarpi. Hann á mjög erfitt með að aðlagast lífinu í Japan. Þegar hann kynnist Charlotte (Scarlett Johannsson) fara hjólin að snúast. Með þeim tekst eitt athygliverðasta samband kvikmyndasögunnar. Það er ekki ástarsamband og ekki beint vináttusamband, heldur einhversstaðar þarna á milli. Saman fara þau út á lífið og sjá Japan í allt öðru ljósi. Lost In Translation er kvikmynd sem byggir á firnasterku handriti. Brandararnir hitta rakleitt í mark og leikrarnir standa sig fantavel. Bill Murray fer á kostum og Scarlett Johannsson gefur honum lítið eftir. Lost in Translation er kvikmynd fyrir þá sem eru orðnir leiðir á þessari hefðbundu Hollywoodframleiðslu. Góða skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Holes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumar myndir koma manni virkilega á óvart. Kvikmyndin Holes er ein af þessum myndum. Í stuttu máli fjallar myndin um unglingin Stanley Yelnats (Shia LaBeouf) og vandræði hans. Svo virðist sem bölvun hvíli á fjölskyldu hans, eða allt frá því að langaafi hans gleymdi að uppfylla óskir sígaunakonu. Fyrir misskilning er Stanley handtekinn og sendur í búðir fyrir vandræðaunglinga. Forstöðumaðurinn þar (Sigourney Weaver) lætur unglingana grafa holur allan daginn og þeir vita ekki til hvers. Astoðarmenn hennar (Jon Voight og Tim Blake Nelson) sjá til þess að unglingarnir vinni. Stanley er litinn hornauga í búðunum en hann kynnist fljótt Zero (Khleo Thomas) og með þeim tekst vinskapur. Holes er vel skrifuð og þrælskemmtileg fjölskyldukvikmynd. Leikstjóranum Andrew Davis (Collateral Damage) tekst að sneiða hjá öllum klisjunum. Leikararnir standa sig allir mjög vel. Jon Voight og Khleo Thomas bera samt af. Tónlistinni er flétta listavel saman við söguna. Holes er kvikmynd sem ég mæli hiklaust með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dreamcatcher
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Lawrence Kasdan tók að sér það vandasama verkefni að leikstýra kvikmyndinni Dauðagildran eftir samnefndri bók Stephen King. Því miður tekst það ekki betur en svo að myndin verður óttalegt miðjumoð. Í stuttu máli fjallar myndin um vinina Henry (Thomas Jane), Joe (Jason Lee), Gary (Damian Lewis) og Pete (Timothy Olyphant). Þeir hafa verið vinir frá því þeir muna eftir sér. Í æsku urðu þeir fyrir yfirnáttúrulegri upplifun sem gerði það að verkum að þeir urðu næmnari fyrir umhverfi sínu. Sá sem átti mestan þátt í þessari upplifun var þroskaheftur drengur að nafni Duddits. Duddits hefur sótt á þá æ síðan.Á hverju ári hafa vinirnir farið saman í veiðiferð. Veiðiferðin þetta árið tekur óvænta stefnu þegar vont veður skellur á og villtur maður fær að hvíla sig hjá þeim í kofanum. Ekki er allt sem sýnist við þennan mann og fljótlega fara að gerast hlutir sem eru klárlega ekki af þessum heimi. Herinn kemur á staðinn með Abraham Curtis (Morgan Freeman) fremstan í flokki. Dreamcatcher byrjar mjög vel. Drungalegt andrúmsloftið nær tökum á manni og kvikmyndatakan og umhverfið á sinn þátt í að skapa magnrþungið andrúmsloft. Þetta á samt bara við fyrsta þriðjung myndarinnar því svo leysist hún upp í vitleysu og verður leiðinleg á að horfa. Persónurnar eru óskýrar og ná ekki til manns. Handritið er skothelt til að byrja með en þynnist svo út í óendalega vitleysu þegar líður á. Dreamcatcher rétt slefar í miðlungsmynd sem er hvorki góð né slæm, bara svona meðal.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The League of Extraordinary Gentlemen
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sennilega er þessi mynd vonbrigði ársins 2003, því miður því Sean Connery á nú betra skilið. Myndin gerist í lok 19. aldar og segir frá nýrri ógn sem steðjar að heiminum. Brjálæðingur sem gengur undir nafninu The Fantom ætlar að ná heimsyfirráðum með því að etja þjóðum saman í stríð. Á meðan þjóðir heims berjast við hvor aðra er hann að koma sér upp ósigrandi her. Til að hafa hendur í hári hans þarf að kalla til úrvalssveit einstaklinga sem búa yfir eiginleikum sem eru í senn blssun og bölvun. Allir eiga þessir einstaklingar það sameiginlegt að koma úr ævintýrabókum. Til eru kallaðir menn eins og Captein Nemo, Dr.Henry Jekyll/Edward Hyde, Dorian Gray, Tom Sawyer, Rodney Skinner (Ósýnilegi maðurinn), Mina Harker og að lokum sá sem fer fyrir hópnum, Allan Quatermain (Sean Connery). Saman leggja þessari einstaklingar af stað og eftirförin ber þá víða um heim. LXG hefði getað orðið mun betri ef handritið hefði verið heilsteyptara. Myndin líður stefnulaust áfram. Persónusköpunin er afleit fyrir utan Dr.Jekyll. Áhorfandinn kennir til með honum hans persóna er hvað skýrust. Tæknibrellurnar ná ekki að bjarga því sem bjargað verður. LXG er slöpp ævintýramynd sem ég get engan vegin mælt með, nema kannski þegar maður hefur nákvæmlega ekkert að gera.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Last Samurai
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Tveir ólíkir menningarheimar rekast á í nýjustu kvikmynd leikstjórans Edwards Zwick (The Siege, Courage under Fire). Kvikmyndin The Last Samurai fjallar um tvo mjög svo óilíka menningarheima á erfiðum tímum í sögu Japans. Myndin gerist í lok 19.aldar þegar Japan er að færast nær vestrænum gildum og siðum. Höfuðsmaðurinn Nathan Algren (Tom Cruise) er falið það hlutverk að fara til Japans til að kenna her keisarans að aðlagast nýjugunum í hernaði. Fyrrverandi hermenn keisarans, Samúræjar, gerðu uppreisn gagnvart þessum breyttu siðum og hafa komið sér fyrir í litlum fjallaþorpum fjarri þessum breytingum. Foringi Samúræjanna,Katsumoto (Ken Watanabe), er samt hliðhollur keisaranum en neitar að aðlagast þessum nýju siðum. Algren leiðir her hræddra japanskra hermanna gegn Samúræjunum en tapar þeirri orustu og er tekin til fanga. Í þeirri vist kynnist hann menningu og siðum Samúræjanna og heillast af því sem hann sér. En á meðan er japanski herinn að eflast og uppgjör er óumflýjanlegt. The Last Samurai er með eindæmum fallega tekin og áhrifamikil mynd. Þetta er langt frá því að vera eingöngu bardagamynd. Það er unun að horfa á margar senurnar, sérstaklega þegar Algren er að upplifa þennan nýja heim. The Last Samurai er veisla fyrir augað. Cruise og Watanabe slá ekki feilnótu í sínum leik. Magnað meistaraverk.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
View from the Top
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumar myndir eru einfaldlega lélegar og leiðinlegar, illa leiknar og tilgangslausar. View from the top er ein af þessum myndum. Myndin fjallar um smábæjarstelpuna Donnu Jensen (Gwyneth Paltrow) sem dreymir um að komast burt bænum og upplifa ameríska drauminn. Hún ákveður að gerast flugfreyja og ræður sig á lítið og ómerkilegt flugfélag. En hugurinn stefnir hærra og Donna vill komast til stærri flugfélaga og vinna í millilandaflugi. En til þess þarf hún að komast í skóla og skráir sig í flugfreyjuskóla Royal flugfélagsins. Með henni fara vinkonur hennar Christine (Christina Applegate) og Sherry (Kerry Preston). Þessi mynd er afspyrnu leiðinleg. Hún er í raun ekki um neitt. Samtölin eru hallærisleg og hver persónan á fætur annarri er ómerkilegri. View from the top er mynd sem ber að varast.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Tears of the Sun
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það mætti halda að ríkisstjórn Bandaríkjanna, með George Bush og Colin Powell fremsta í flokki, sé farin að skrifa handrit að kvikmyndum og selja til Hollywood. Tears of The Sun er eins og sniðin fyrir áróðursherferð fyrir bandaríska herinn þar sem herinn ræðst inn í land og bjargar því sem bjargað verður. Í stuttu máli fjallar myndin um liðþjálfann A.K.Waters (Bruce Willis) sem fer fyrir hópi hermanna sem fá það verkefni að fara inn í Nígeríu og sækja lækninn Lenu Fiore Kendricks (Monica Belucci). Í Nígeríu ríkir óöld þar sem uppreisnarmenn hafa hrifsað til sín völdin. Hermennirnir finna Lenu en hún neitar að fara nema að samstarfsmenn sínir og sjúklingar fá að fara með. Waters samþykkir það og hefst þá ganga í gegnum frumskóginn þar sem uppreisnarmenn sitja um þau. Þessi mynd er hraðsoðin harðhausamynd með engum söguþærði. Leikararnir eru afleitir og er Willis afarslæmur, hann virkar eins og vélmenni. Leikstjórinn Antoine Fuqua (Training Day) vill sennilega gleyma þessari mynd sem fyrst. Tears of The Sun er afskaplega leiðinleg kvikmynd þar sem lélegt handrit og afarslappur leikur sameinast. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
28 Days Later...
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

28 days later er ein af þessum einföldu spennumyndum sem heldur manni við efnið allan tímann. Leikstjórinn Danny Boyle (Trainspotting) færir okkur dimma og oft á tíðum óþægilega mynd sem ég mæli hiklaust með. Jim (Cillian Murphy) vaknar úr dái á sjúkrahúsi. Það er engin á sjúkrastofunni, það er engin í sjúkrahúsinu og það sem meira er það virðist ekki vera nokkur einasta manneskja í allri Lundúnarborg. En annað á nú eftir að koma á daginn. Hann rekst á nokkra einstaklinga sem eru vægast sagt skuggalegir, minna helst á dýr í hegðun. Jim kemst undan þeim með hjálp Selenu (Naomie Harris). Hún segir honum upp og ofan af því sem hafði gerst í þær fjórar vikur sem Jim var í dái. Saman halda þau af stað í von um að finna einstaklinga sem ekki eru sýktir. En það eru ekki bara þessir sýktu einstaklingar sem þau þurfa að varast. 28 days er mynd sem byggir á þrúgandi adrúmslofti og eymd. Það er ekki verið að eltast við ,,bregðuatriði eða tæknibrellur. 28 days er mynd sem stendur og fellur með frábæru handriti og góðum leikurum. Danny Boyle nær fram því besta í leikurunum og örugg leikstjórn hans skín í gegn. Góð mynd sem óhætt er að mæla með í skammdeginu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bulletproof Monk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nei, nei og aftur nei. Hvaða hörmung er þetta? Bulletproof Monk er afskaplega vonlaus kvikmynd sem tekur sjálfan sig allt of hátíðlega og er ekki í neinu sambandi við það sem kallast röklegt samhengi því þessi endemis vitleysa gengur engan vegin upp. Myndin fjalla um munk (Yun-Fat Chow) sem falið er að gæta handrits sem felur það í sér að hver sem kemst yfir það og les það getur öðlast heimsyfirráð. Hver ,,gæslumaður þarf að gæta handritsins í 60 ár. Munkurinn er kominn til Bandaríkjanna og þar sem 60 ár eru liðin þarf hann að finna sinn arftaka. Hann rekst á vandræðapiltinn Kar (Seann William Scott) og sér strax að hann er verðugur arftaki handritsins. Munkurinn þarf að kenna Kar ýmislegt og á vegi þeirra verða svo vondu kallarnir sem vilja handritið. Þessi mynd er hvorki fugl né fiskur. Handritið er svo götótt að það er hlægilegt, hugmyndin er út í hött, leikararnir eru skelfilegir og svona mætti lengi telja. Þessi mynd er vond í alla staði. Forðist þessa.

P.s. hvers vegna var þetta handrit ekki bara brennt til að forðast þetta bölvaða vesen?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Irreversible
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er margt í þessum heimi sem ég skil ekki, þar á meðal hvers vegna svona kvikmyndir eru gerðar. Irreverisble er kvikmynd sem gerir út á það að ganga fram af áhorfandanum. Ég spyr, til hvers? Ég tók þessa mynd út af forvitni, langaði að vita um hvað allir væru að tala en ég hefði betur sleppt því. Irreverisble fjallar um Marcus (Vincent Cassel) sem er frávita af heift út í þann sem misþyrmdi kærustunni sinni, Alex (Monica Belucci). Hann leitar ætlar sér að hefna hennar og leit hans ber hann niður í dimmasta veruleika borgarinnar. Við fylgjumst með atburðarrásinni í öfugri tímaröð, svipað og í Memento en í þeirri mynd var farið vel með efnið. Það er ekki gert í Irreverisble. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þessa mynd, hún er skelfileg.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Irreversible
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hættið nú alveg. Sumar myndir ganga út á það eitt að ganga fram af fólki og má þá nefna myndir á borð við Ríddu mér, Cannibal Holocaust og Bad Taste. Irréversible fellur svo sannarlega í þann flokk mynda sem ganga út á það að sjokkera fólk en hefur ekkert annað fram að færa. Myndin er einfaldlega leiðinleg svo einfalt er það nú. Myndin fjallar um Marcus (Vincent Cassel - Elisabeth, Crimsin Rivers) sem er að leita að þeim sem misþyrmdi kærustunni hans (Monica Belucci - Tears of The Sun, Matrix Reloaded). Leit hans ber hann niður í skítinn og við kynnumst þeim óþverra í þessari mynd. Irréversible er tilgangslaus mynd sem skilur áhorfandann eftir agndofa af klíju og viðbjóði. Kannski var það markmið leikstjórans Gaspar Noé að ögra áhorfandanum. Ég vara fólk eindregið við þessari mynd, ekki einu sinni taka hana af forvitni eins og ég gerði, þið sjáið eftir því.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
How to Lose a Guy in 10 Days
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

How to Lose a Guy in 10 Days er ein af þessum sem maður gleymir um leið. Leikstjórinn Donald Petrie fer afskaplega illa með klisjurnar og fellur í þá gryfju að endurtaka sig sí og æ í myndinni. Oft á tíðum var eins og maður væri að horfa á sama atriðið í örlítið öðruvísi útgáfu. Í stuttu máli fjallar myndin um dálkahöfundinn Andie Anderson (Kate Hudson - Alex and Emma, Almost Famous) sem er orðin frekar þreytt á að skrifa formúlukenndar greinar í þekkt kvennablað. Óvart fær hún þá hugmyn að skrifa um það hvernig maður losar sig við stráka á innan við 10 dögum. Ritstjóranum lýst vel á það og sendir hana út af örkinni til að finna heppilegt ,,fórnarlamb. Andie rekst á Benjamin Barry (Matthew McConaughey - A time to Kill, Reign of Fire) sem starfar í auglýsingabransanum. Hann er að reyna að komast yfir stóran viðskiptasamning en til þess þarf hann að sanna fyrir yfirmanni sínum að hann geti látið hvaða konu sem er verða ástfangna af sér. Benjamin og Andie telja sig bæði hafa komist í feitt þegar þau kynnast en annað á nú eftir að koma á daginn því þau átta sig í raun ekki á hver er að spila með hvern? Samleikur Hudson og McConaughey er með ágætum en myndin er bara það illa skrifuð að það neistar aldrei á milli þeirra. Húmorinn í myndinni missir alveg marks og hvert atriðið af fætur öðru er eins og uppfylling. Aukaleikararnir eru lítt sýnilegir. How to Lose a Guy in 10 Days er einfaldlega margtuggin mynd sem gleymist mjög fljótt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Love Actually
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mikið rosalegt er gaman að fá svona gamanmynd rétt fyrir jólin. Love Actually hefur allt sem prýða þarf góða gamanmynd, skothelt handrit, óaðfinnanlega leikara, góða leiksjórn, góða tónlist og svona mætti lengi telja. Love Actually fjallar um ástina út frá öllum hliðum. Við kynnumst fólki sem er að verða ástfangið, við kynnumst fólki sem er búið að vera ástfangið er ástin er að kulna, við kynnumst fólki sem hefur misst ástvin, við kynnumst fólki sem hefur ekki fundið ástina, við kynnumst fólki sem er að flýja ástina og svona gæti ég haldið áfram. Love Actually fléttar sögum þessa fólks saman í eina heild á frábæran hátt. Allar persónurnar hafa sína dýpt og engin verður útundan. Leikstjórinn Richard Curtis tekst að halda heildinni saman og nær fram því besta úr leikurunum. Það er of langt að dásama alla leikaranna en ég verð þó að nefna Bill Nighy. Hann leikur útbrunna rokkstjörnu sem ætlar að tendra í glæðum horfinnar frægðar með laginu Christmas is All around. Bill fer á kostum í þeim atriðum sem hann kemur fram í. Það er samt villandi að Rowan Atkinson sé á auglýsingunni fyrir myndina. Hann kemur lítið við sögu og ef það væri ekki fyrir að fara vinskap leikstjórans og Rowans þá væri hann ekkert í þessari mynd enda er hans persóna hvað óskýrust og notuð til uppfyllingar. Engu að síður er hér á ferðinni gamanmynd sem kemur manni í gott jólaskap. Mæli með þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mystic River
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er hún komin, besta mynd ársins að mínu mati. Clint Eastwood sannar það enn og aftur að hann er einn albesti leikstjórinn í Hollywood. Mystic River byggir á skáldsögu Dennis Lehane og fjallar í raun um mannelgt eðli og hve lífið getur verið hverfult. Við kynnumst vinunum Jimmy, Sean og Dave. Þeir eru áhyggjulausir strákar sem leika sér á strætum borgarinnar og lífið virðist blasa við þeim. En þessi friður er rofinn og skelfilegur atburður markar líf þessarar stráka allar götur síðan. Þeir vaxa úr grasi og frá hvor öðrum. Jimmy Markum (Sean Penn)fetar braut glæpa en hefur ekki náðst og lifir með sinni konu og dætrum. Hann vinnur við eigin búðarrekstur. Dave Boyle (Tim Robbins) býr með sinni konu og syni en draugar fortíðar sækja grimmt á hann. Sean Devine (Kevin Bacon) er fráskilinn og á eina dóttur, hann vinnur sem rannsóknarlögregla. Æskuvinirnir vita af hvor öðrum en hafa lítið sem ekkert samband. Þegar dóttir Jimmys finnst myrt liggja leiðir þeirra saman á nýjan leik og fortíðin sækir þá alla heim. Þessir endurfundir leiða til óumflýjanlegt uppgjörs. Mystic River er gæðamynd, ein af þessum perlum sem koma alltof sjaldan frá Hollywood. Leikararnir standa sig frábærlega með Sean Penn fremstan í flokki. Þessi mynd situr lengi í manni. Sjáðu hana, NÚNA.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The In-Laws
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The In-Laws er afskaplega vel heppnuð gamanmynd af gamla skólanum. Hér er ekki stuðst við ódýra brandara og fáránlegar aðstæður heldur er stuðst við skothelt handrit með frábærum samtölum og uppákomum. Í stuttu máli fjallar myndin um tvo tengdafeður sem hittast skömmu fyrir brúðkaup barnanna sinna. Steve Tobias (Michael Douglas) er faðir brúðgumans og er vægast sagt óútreiknanlegur ofurhugi. Hann starfar á laun fyrir CIA og er að því kominn að leysa meiriháttar smyglmál. Jerry Peyser (Albert Brooks) er faðir brúðarinnar og starfar sem fótalæknir. Hann þolir enga spennu og vill helst bara vera heima og forðast óþarfa rask. Leiðir þeirra liggja saman og auðvitað dregst Jerry inn í heim Steves þar sem hættur eru við hvert fótmál. Saman þvælast þeir vítt og breitt og lenda í ýmsum ævintýrum. The In-Laws er léttleikandi gamanmynd sem ætti að koma öllum í gott skap. Samleikur Douglas og Brooks er frábær. Leikstjórinn Andrew Fleming (Threesome) nær fram því besta í leikurunum. Góða skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Man Apart
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sean Vetter (Vin Diesel) er eiturhörð fíkniefnalögga sem hefur verið að eltast við Memo Lucero, höfuðpaur mexíkónsku fíkniefnamafíunnar, síðust 7 ár. Loks hefur hann uppi á honum og kemur honum á bak við lás og slá. Það á eftir að hafa skelfilegar afleiðingar fyrir Vetter því nokkrum mánuðum seinna er ráðist inn á heimili hans. Í þessari árás særist Vetter en konan hans deyr. Hann einsetur sér að hafa uppi á þeim sem bera ábyrgð á þessu. Hefndin keyrir hann áfram og dregur hann inn í innsta hring fíkniefnaheimsins. A Man Apart er þokkaleg kvikmynd sem heldur áhorfandanum við efnið allan tímann. Vin Diesel er í burðarhlutverki og ferst það nokkuð vel úr hendi. Hann er svo sem ekkert sérstakur leikari en það er bara eitthvað við hann sem gerir hann afskaplega trúverðugan í hvaða hlutverki sem hann tekur sér fyrir hendur. A Man Apart er frekar þung spennumynd þar sem meira er horft á persónur heldur en hasar. Aukaleikararnir eru lítt sýnilegir þar sem ofurkapp er lagt á persónu Vin Diesels. En A Man Apart er þokkalegasta mynd sem óhætt er að mæla með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Daddy Day Care
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vinirnir Charlie (Eddie Murphy - Dr. Dolittle, Pluto Nash) og Phil (Jeff Garlin - Full Frontal) starfa í auglýsingaiðnaðinum. Allt virðist ganga nokkuð vel þar til einn daginn er ákveðið að loka deildinni sem þeir starfa við. Þeir missa vinnuna og reika um atvinnulausir í nokkrar vikur. Einn daginn þegar þeir eru að með syni sína á leikvellinum dettur þeim í hug sú snilldarhugmynd að opna daggæslu. Þeir fá Marvin (Steve Zahn - Joy Ride) með sér í lið og saman opna þeir daggæslu heima hjá Charlie. Allt virðist ganga nokkuð vel þar til Mrs. Gwyneth Harridan (Anjelica Huston - Royal Tenenbaums) fer að gera þeim lífið leitt. Hún rekur leikskóla í hverfinu og er ekki alls kostar ánægð með þessa samkeppni. Charlie, Phil og Marvin eiga nóg með börnin og máttu illa við þessu nýja vandamáli en þeir snúa vörn í sókn. Daddy Day Care er fínasta fjölskylduskemmtun sem flestir geta haft gaman af. Eddie Murphy hefur átt betri daga en það er Steve Zahn sem stelur senunni eins og svo oft áður. Fínasta afþreying.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Auto Focus
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Auto Focus gerist í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratug síðust aldar. Myndin segir frá útvarpsmanninum Bob Crane (Greg Kinnear - As Good as it gets). Hann stjórnar vinsælum útvarpsþætti en á sér þann draum að leika í kvikmyndum. Crane er einfaldur persónuleiki sem auðvelt er að spila með. Hann á þessa hefðbundnu vísitölufjölskyldu sem við fyrstu sýn virðist vera afskaplega hamingjusöm, en áhugamál Cranes skapar mikla spennu innan fjölskyldunnar. Þetta áhugamál er kynlíf og ljósmyndun. Þegar umboðsmaður Cranes kallar hann til sín og segir honum að hann hafi fengið aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Hetjur Hogans fara hjólin að snúast. Nú er Bob Crane ekki lengur bara rödd heldur þekkja hann allir. Hann kynnist John Carpendar (Willem Dafoe - Once upon a time in Mexico) sem verður einhversskonar samstarfsmaður Cranes í ljósmyndun og skemmtunum. Saman fara þeir að ljósmynda kynlíf og taka þátt í allskonar svalli. Í upphafi virðist þetta vera fullkomið og Crane nýtur sín til fulls. En seinna meir fer að halla undan fæti. Auto Focus tekur á erfiðu máli, þ.e. kynlífsfíkn. Leikstjóranum tekst að útfæra það ágætlega. En myndin dettur því miður í þá gryfju að einblína um of á kynlífsfíknina og þar af leiðandi verður atburðarrásin of einhæf. Aðalpersónurnar eru skýrar og vel leiknar. Það mæðir mikið á Kinnear og Dafoe og komast þeir vel frá sínu. Aftur á móti eru aukapersónurnar óskýrar hverfa í skuggann. Auto Focus er nokkuð áhugaverð kvikmynd sem er því miður of einsleit á köflum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dark Blue
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Dark Blue fjallar um rannsóknarlögreglumanninn Eldon Perry (Kurt Russel - Breakdown, 3000 Miles to Graceland). Hann lifir og hrærist í spillingunni innan lögreglunnar í Los Angeles. Hann kennir nýliðanum Bobby Keough (Scott Speedman - Underworld) hvernig á að bera sig að í heimi spillingarinnar. Þegar yfirmaður Eldons, Jack Van Meter (Brendan Gleeson - Gangs of New York, 28 days later), biður hann að rannsaka morð og rán í lítilli verslun telur Eldon sig vera að fá hefðbundið innbrotsmál sem farið hefur úr böndunum. En annað kemur á daginn. Þetta litla mál virðist teygja anga sína í efstu þrep lögreglunnar. Eldon þarf því að gera upp við sig hvort hann ætli að spila með í þessum spillingaleik eða segja sannleikann. Aðstoðarlögreglustjórinn Arthur Holland (Ving Rhames - Striptease,Bringing out the Dead) vill negla Van Meter og Eldon Perry fyrir spillingu og hjólin fara heldur betur að snúast þegar þessi togstreita gerir vart við sig hjá Eldon. Dark Blue er vel skrifuð sakamálamynd sem heldur áhorfandanum föstum frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. Leikstjórinn nær því besta út úr leikurunum og það hreinlega geislar af Kurt Russel í aðalhlutverkinu. Það eru kannski aðeins of margar hliðarsögur í söguþræðinum en það kemur ekki að sök. Mæli hiklaust með Dark Blue.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sweet Sixteen
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sweet sixteen er afskaplega mannleg mynd sem sýnir okkur hráan og hrörlegan hversdagsleikann. Myndin gerist í bæ í Skotlandi og segir frá ungum strák á sextánda ári sem er að bíða eftir að móður hans losnar úr fangelsi. Hún hafði sokkið djúpt í eiturlyfjaheiminn og sonur hennar vonast eftir að eftir að hún losnar geti þau hafið nýtt líf. Hann reynir að verða sér úti um peninga með því að selja sígarettur en það gefur ekki nógu mikið af sér. Hann stelur því eiturlyfjum frá kærasta mömmu hans og ætlar að selja þau. Þá fyrst byrja vandræðin fyrir alvöru. Sweet sixteen er átakleg og vönduð mynd. Persónurnar eru vel mótaðar og samtölin listilega vel skrifuð. Það eina sem mætti finna að henni er að hún hnýtir lausu endana ekki nógu vel, margt sem orkar pínu tvímælis. En hér er samt sem áður á ferðinni gæðamynd sem ég mæli hiklaust með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Love Liza
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Love Liza er enn ein gæðamyndin sem ratar beint á myndband hér á landi. Þessi kvikmynd hefur verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim og unnið þar til verðlauna. Love Liza fjallar um vefsíðuhönnuðinn Wilson Joel (Philip Seymour Hoffman). Konan hans fellur fyrir eigin hendi og Wilson er ekki alveg tilbúinn til að sætta sig við það. Hann lokar sig frá raunveruleikanum og treystir á vinskap vinnufélaga sinni og tengdamóður (Kathy Bates). Hann sækir í vímuefni til að flýja þá köldu staðreynd að konan hans er dáin. En raunveruleikinn sækir að honum úr öllum áttum og uppgjörið við raunveruleikann er óumflýjanlegt. Love Liza er mynd í hæsta gæðaflokki. Philip Seymour Hoffman (Happiness, Flawless, Red Dragon) sýnir stjörnuleik í þessari mynd. Aðrir leikarar standa sig vel og þá sérstaklega Kathy Bates. Leikstjórnin er þétt í höndum hins óreynda leikstjóra Todd Louiso. Handritið er skothelt. Love Liza er sannkallaður gullmoli sem ég mæli hiklaust með.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Core
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Heimsendamyndir eiga miklu fylgi að fagna í henni Hollywood. Það er eitthvað við þennan blessaða heimsendi sem er svo gott efni í kvikmynd, eða hvað? Þessar heimsendamyndir hafa mestmegnis tekið mið af einhverri utanaðkomandi ógn, þó helst utan úr geimnum. Kvikmyndin The Core tekur samt annan pól í hæðina. Nú er það kjarni jarðar sem jörðinni stendur ógn af (eða eins og segir í mjög svo klisjukenndu slagorði: The only way out, is in). Jarðabúar vakna við það einn daginn að segulsvið jarðar er ekki eins og það á að vera sem gerir það að verkum að fuglar tapa áttum, veður breytast og geimflaugar villast af leið svo eitthvað sé nefnt. Við þessu þarf að bregðast og herinn kallar á sinn fund jarðeðlisfræðingin Dr. Josh Keyes (Aaron Eckhart) og lífeðlisfræðingin Serge (Tchéky Karyo). Keyes leitar til vísindamannsins Zimsky (Stanley Tucci) og saman komast þeir að þeirri niðurstöðu að ytri kjarni jarðar er hættur að snúast sem gerir það að verkum að heimsendir er á næsta leyti. Það þarf því að grafa niður á mörg þúsund metra dýpi og sprengja þar kjarnorkusprengju til að koma kjarnanum af stað. Maður að nafni Brazzelton (Delroy Lindo) hefur hannað tæki sem kemst á mjög fljótum hraða niður í jörðina. Þeir major Beck (Hillary Swank) til að stýra ferlíkinu. Framundan er mikil óvissuför þar sem hvert óhappið rekur annað. Hugmyndin er ágæt en úrvinnslan er afleit. The Core er afskaplega illa skrifuð og fyrirsjáanleg mynd þar sem hetjuímyndin er nær hámarki. Hver klisjan rekur aðra og myndin er drifin áfram af röð atburða sem samrýmast engan vegin hvort öðru. Byrjunaratriði myndarinnar er gott en gefur því miður falsvonir. Stanley Tucci er ágætur en það dugar engan vegin til að halda uppi þessari mynd. The Core er meingölluð heimsendamynd sem sökk löngu áður en hún náði úr höfn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Intolerable Cruelty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Coenbræður(Man Who Wasn't There, O Brother, Where Art Thou?) fara ekki sömu braut og aðrir í Hollywood. Þeir gera öðruvísi myndir með alvöru persónum. Intolerable Cruelty er enn ein gæðamyndin frá þeim. Myndin segir frá hjúskaparlögfræðingnum Miles Massey (George Clooney). Hann er vellauðugur og gerir allt sem hann getur til að sigra. Smátt og smátt er hann þó að uppgvöta að hann er pínu einmana. Hann tekur að sér mál Rex Rexroth (Edward Herrmann). Rex hélt framhjá konunni sinni, Marylin Rexroth (Catherine Zeta-Jones), en fer samt fram á það að hún fái ekkert út úr skilnaðinum. Miles finnst þetta verkefni ögrandi og tekur það að sér. Það er samt ekki síðan hann sér Marlyn að hjólin fara að snúast því Miles fellur fyrir henni. Út frá þessu verður hinn skemmtilegasti farsi sem óvæntum endalokum. Coenbræður taka hér eina Hollywoodklisju og búa til eina albestu rómantísku gamanmynd sem undirritaður hefur séð. Samleikur Clooneys og Zetu - Jones er yndislegur. Clooney er frábær leikari sem sýnir það enn einu sinni að hann getur leikist nánast hvað sem er. Coenbræður ná því besta fram í honum (hver man ekki eftir O´brother where art thou?). Handritið er skothelt aukapersónurnar eru hverri annarri skrautlegri. Intolerable Cruelty er yndisleg gamanmynd sem ég mæli hiklaust með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Stella í framboði
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Á níunda áratugnum gerði Þórhildur Þorleifsdóttir kvikmyndina Stella í orlofi. Fantagóða gamanmynd sem hefur fest sig rækilega í sessi í íslenskri þjóðarvitund. Oft er vitnað í þá frasa sem voru viðhafðir í þeirri mynd (,,Frekar hætti ég að drekka heldur en að fara í meðferð). Árið 2002 sendir Guðný Halldórsdóttur frá sér framhald þeirrar myndar sem ber heitið Stella í framboði. Myndin kom á þeim tíma þegar kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningarnar var að hefjast. Hugmyndin er góð, auðvitað er tilvalið að gera framhald með hinni geysivinsælu Stellu Löve í broddi fylkingar. En skipið sökk áður en það lagði úr höfn. Þessi kvikmynd er afskaplega slöpp og nánast ófyndin. Söguþráðurinn er ruglingslegur og í raun samansafn atriða sem tengjast illa við hvort annað. Í stuttu máli fjallar myndin um það hvernig Stella flækist inn í framboð hjá Centrumlistanum. Á meðan Stella er að vasast í því er Salómon uppi í Hvalfirði að skoða landssvæði sem Anton flugstjóri hyggst kaupa. Inn í þetta blandast margar afskaplega óspennandi persónur. Í raun leit út eins og allir leikarar sem eru starfandi á Íslandi vildu fá að taka þátt í þessari mynd og þeim var holað niður hér og þar. Það var vandræðanlegt að horfa á myndina á köflum því leikararnir virtust flækjast fyrir hvor öðrum. Laddi á ágæta spretti á köflum en það dugar engan vegin til að halda uppi þessari mynd. Stella í framboði er því miður slöpp kvikmynd sem hefði átt að vinna miklu betur með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Underworld
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Leikstjórinn Len Wiseman er ekki þekkt nafn í bransanum en Underworld hefur svo sannarlega komið honum á kortið. Nú þegar það er verið að blanda saman persónum eins og Freddy og Jason og Alien og Predator, því ekki að blanda saman vampýrum og varúlfum? Það er gert í þessar kvikmynd og tekst bara mjög vel. Í stuttu máli fjallar myndin um vampýruna og varúlfabanann Selenu (Kate Beckinsale). Hún hefur harma að hefna gagnvart varúlfum og eltir þá eins og skugginn. En ný ógn stafar að vampýrunum sem engin virðist taka eftir nema Selena. Varúlfarnir (sem hafa þann eiginleika að geta breytt sér hvenær sem er) hafa fundið lykilinn að öflugu vopni og sá lykill er maðurinn Michael Corvin (Scott Speedman). Selena uppgvötar það og hefst nú æsilegur eltingarleikur þar sem Selena er að reyna að komast að því hvers vegna varúlfarnir þurfa Michael. Hún gerir sér grein fyrir því að þessi ógn er mun meiri en foringi vampýranna vill trúa og því vekur hún Viktor (Bill Nighy), sterkustu og öflugustu vampýruna. Og þá fyrst byrja vandræðin fyrir alvöru. Þessi kvikmynd er mikið fyrir augað og virkilega gaman að horfa á hana. Sagan er oft á tíðum sundurlaus en keyrslan og útlit myndarinnar kemur í veg fyrir að maður sé eitthvað að spá í söguna. Einnig þykir mér boðskapurinn góður, það er að það eru í raun allir jafnir. Underworld er fantagóð kvikmynd sem ég mæli hiklaust með. Góða skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Once Upon a Time in Mexico
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1995 gerði Robert Rodriguez kvikmyndina Desperado fyrir amerískan markað. Desperado var endurgerð kvikmyndarinnar El Mariachi sem Rodriguez gerði árið 1992. Þessi kvikmynd kom honum á kortið í Hollywood en eftir Desperado hefur frami hans verið fremur brokkgengur. Með kvikmyndinni Once upon a time in Mexico nær Rodriguez botninum. Myndin er hvorki fugl né fiskur, einhverskonar samsuða atriða sem nær engri átt. Í stuttu máli skiptist myndin í þrjár sögur. Í fyrsta lagi fylgjumst við með El Mariachi (Antonio Banderas). Hann er að leita uppi hershöfðingjann Marquez sem drap konu hans og dóttur. Í öðru lagi fylgjumst við með Sands (Johnny Depp) en hann er spilltur leyniþjónustumaður. Hann vill að Marguez drepi forseta Mexíkó og El Mariachi drepi Marguez eftir að hann er búinn að drepa forsetann. Þá kemst Sands yfir mikla peninga. Í þriðja lagi fylgjumst við með lögreglumanni á eftirlaunum sem vill drepa Barillo (Willem Dafoe) sem er umsvifamikill glæpamaður. Barillo drap félaga lögreglumannsins. Þessar þrjár sögur sameinast svo í afskaplega lélegu og illa gerðu lokaatriði. Once Upon a Time In Mexico er einfaldlega léleg mynd þar sem skelfilegt handrit, lélegur leikur, léleg leikstjórn, einkennileg kvikmyndataka og ofnotkun á leiðinlegri tónlist haldast í hendur. Eini ljósi punkturinn er Mickey Rourke, hann kemst vel frá sínu. Einnig er eins og Rodriguez hafi viljað hafa virkilega ógeðsleg atriði í myndinni því það eru nokkur slík, atriði sem eru ekki í neinu samhengi við myndina. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Punch-Drunk Love
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Punch-Drunk Love er ein af þessum myndum sem maður mun alltaf muna eftir og vitna í. Þessi mynd er stórkostleg í einu orði sagt. Það er varla hægt að fanga mannlegar tilfinningar betur en í þessari mynd. Leikstjórinn Paul Thomas Anderson (Magnolia, Boogie Nights) bætir hér enn einni rósinni í hnappagatið og sýnir það og sannar að hann er einn frambærilegasti leikstjórinn í heiminum í dag. Myndin fjallar um Barry Egan (Adam Sandler), einmana en nægjusaman mann sem er ekki fyrir neinum. Hann á sjö systur sem ráðskast með hann að vild. Þó Barry líti út fyrir að vera rólegur þá á hann það til að taka bræðisköst sem koma honum í vandræði. Barry á mjög erfitt með að kynnast konum en þegar ein systir hans kynnir hann fyrir Lenu Leonard (Emily Watson) fara hjólin að snúast. Barry og Lena fella hugi saman en það gengur ekki þrautalaust fyrir sig. Punch - Drunk Love er alvöru mynd sem fjallar um alvöru fólk. Það er ekkert verið að taka ástina neina silkihönskum í þessari mynd, hún sýnir okkur kaldan raunveruleikann. Það er allt frábært við þessa mynd, skothelt handrit, þétt leikstjórn, yndisleg kvikmyndataka og frábær tónlist. Rúsínan í pylsuendanum eru svo leikararnir. Þeir eru frábærir. Sandler og Watson fara á kostum. Þetta er mynd sem engin unnandi góðra kvikmynda má láta framhjá sér fara. Góða skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Recruit
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að baki kvikmyndinni The Recruit er úrvalsmannskapur. En það segir manni í raun að það er ekki endilega samasemmerki á milli þess að hafa stór nöfn og gæði myndarinnar. Myndin fjallar um nemann James Clayton (Colin Farell). Hann er að kynna lokaverkefni sitt í tölvufræðum og vekur þar með áhuga CIA. Leyniþjónustumaðurinn Walter Burke (Al Pacino) hefur samband við Clayton og vill fá hann í þjálfun hjá CIA. Clayton slær til og í þjálfuninni kynnist hann Laylu Moore (Bridget Moynahan) og á milli þeirra kviknar einhver ástarneisti. En ekki er allt sem sýnist. Fyrr en varir er Clayton kominn á kaf í CIA og þar leynast hættur við hvert fótmál því hann getur aldrei verið viss um hverjum hann á að treysta. Leikstjórinn Roger Donaldson (Thirteen Days) er engan vegin að valda þessari mynd. Klisjurnar og flækjurnar bera myndina ofurliði. Síðustu mínúturnar eru einfaldlega rugl. Myndin gengur ekki upp og hvert atriðið á fætur öðru er einfaldlega á skakk og skjön við atburðarrásina. Það er engin spenna í myndinni og maður veit nákvæmlega hvað gerist næst.The Recruit er einfaldlega slöpp kvikmynd sem ég er viss um að nýstirnið Colin Farell vill gleyma sem fyrst.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Narc
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Joe Carnahan sannar það með kvikmyndinni Narc að hann er kominn í fremstu röð í Hollywood. Narc er kvikmynd sem færir áhorfandann inní atburðarrásina og heldur honum þar. Það er gert m.a. með raunsæiskvikmyndatöku sem er að festa sig í sessi í Hollywood. Söguþráður myndarinnar er kannski kunnuglegur. Lögreglumaðurinn Nick Tellis (Jason Patric) fær það verkefni að finna morðingja ungs lögreglumanns sem var myrtur. Þessi ungi lögreglumaður var kominn í innsta hring fíkniefnaheimsins. Tellis þekkir til í fíkniefnaheiminum og þess vegna fékk hann þetta verkefni. Honum til halds og trausts er lögreglumaðurinn Henry R.Oak (Ray Liotta). Eftir því sem þeir kafa dýpra verða þeir æ meira ,,innvolveraðir í fíkniefnaheiminn og þeim mun ekki líka það sem þeir finna. Þessi söguþráður er þekktur en Carnahan fer ótroðnar slóðir og færir okkur ferskustu og óhugnalegustu lögreglumynd seinni ára. Patrik og Liotta eru í feiknaformi og sína báðir frábæran leik. Narc er fantagóð kvikmynd sem ég mæli hiklaus með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
National Security
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nei,nei, nei og aftur nei, er ekki komið nóg af þessum myndum. National Security er formúlumynd eins og þær gerast verstar. Tveir ólíkir einstaklingar eru neyddir til að vinna saman þó svo að þeir hata hvor annan og annar er svartur en hinn hvítur. Hversu mikil klisja er þetta. Þessi hugmynd gengur í myndum eins og Leathal Weapon en er hvorki fugl né fiskur í þessari mynd. Í örstuttu máli fjallar myndin um Earl Montgomery (Martin Lawrence) sem langar mjög mikið til að verða lögga en kemst ekki í gegnum skólann. Þess í stað er hann öryggisvörður. Fyrir misskilning lendir hann í vandræðum gagnvart löggunni Hank Rafferty (Steve Zahn). Út frá þessum vandræðum liggja leiðir þeirra saman og þeir þurfa að sameina krafta sína til að uppræta hættulega glæpasamtök. Þessi mynd er einfaldlega leiðinlega. Það er klisja ofan á klisju. Samtölin er hlægileg, atburðarrásin er vandræðanleg og leikararnir eru í sínu versta formi. Að vísu er Martin Lawrence alltaf í sínu versta formi enda getur maðurinn ekki leikið. En Steve Zahn er ágætis leikari og það er frekar dapurlegt að horfa á hann í þessum ófagnaði. Skelfileg mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Hunted
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

William Friedkin (Exorcist, Rules of Engagement)hefði betur mátt sleppa því að leikstýra The Hunted því þessi mynd er alls ekki til þess fallinn að auka hróður hans sem leikstjóra. The Hunted fjallar í stuttu máli um hermanninn Aaron Hallam (Benicio Del Toro) sem missti vitið í stríðinu í Kosovo. Nokkrum árum seinna hverfur hann sporlaust en þega illa útleikinn lík finnast í skóglendi beinast augun að honum. Eins og vaninn er í slæmum bíómyndum er aðeins EINN maður sem getur fundið hann og það er L.T. Bonham (Tommy Lee Jones). Hann þjálfaði Hallam fyrir Kosovostríðið. Myndin er eltingaleikur út í gegn með fáránlegri atburðarrás. Hallam er nánast eins og ofurhetja sem ekkert bítur á og bardaginn milli hans og Bohams er nánast hlægilegur. Allar tilraunir til að ná fram dýpt í persónurnar mistakast all illilega. Dramatíkin fer fyrir ofan garð og neðan. Tilraun er gerð til að vekja samúð með Hallam en það fer inn um annað eyrað og út um hitt. The Hunted er afskaplega slöpp hasarmynd sem er í raun ekki um neitt. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Daredevil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Matt Murdock (Ben Afleck) blindaðist sem ungur drengur en í kjölfarið urðu önnur skilningarvit mun betri. Hann átti gott samband við föður sinn en þegar faðir hans er myrtur ákveður hann að nota krafta sína í þágu góðs málefnis og verður Daredevil. Hann þarf að berjast við stórhættulegan glæpamann, the Kingpin (Michael Clarke Duncan), og útsendara hans, Bullseye (Colin Farell). Inn í atburðarrásina fléttast ung kona, Elektra (Jennifer Garner) og hún og Daredevil vinna saman að því að fletta ofan af Kingpin. Ég vissi ekkert um þessa ofurhetju og í raun vildi ég að ég hefði ekki álpast til að sjá þessa mynd því hún er hvorki fugl né fiskur. Persónusköpunin er léleg og maður finnur enga samkennd með persónunum. Sumar persónur eru léleg uppfylling eins og blaðamaður sem leikinn er af Joe Pantoliano, hann var í raun óþarfur og hans hlutverk afskaplega óljóst. Söguþráðurinn er eins og atriði sem tengjast ekki, eitt og eitt stakt atriði og í raun áttar maður sig aldrei á neinu samhengi. Ég hugsa að það komi önnur mynd um Daredevil og ég læt vera að sjá hana, Daredevil er afskaplega óspennandi ofurhetja. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spider
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

David Cronenberg (The Fly, Friday the 13'th)kemur hér með magnaða mynd sem skilur mikið eftir sig. Myndin fjallar um mann (snilldarlega leikinn af Ralph Fiennes)sem er nýkominn af geðveikrarhæli og flytur í athvarf fyrir geðfatlaða í London. Hann á erfitt með að sætta sig við atburð sem hann varð vitni af í æsku. Hann sá móður sína myrta. Móðir hans kallaði hann Spider vegna þess hversu flinkur hann var í höndunum. Faðir hans (vel leikinn af Gabriel Byrne) var ekki góður við hann og Spider óttaðist hann. Móðir hans var sú eina sem hann gat treyst. Hann fer á æskuslóðirnar og rifjar upp æsku sína. Myndin er mögnuð á að horfa. Leikararnir eru hverjum öðrum betri og margar spurningar vakna við að horfa á þessa mynd. Handritið er skothelt og Cronenberg blandar frábærlega saman fortíð og nútíð. Ralph Fiennes (Red Dragon, Schindler's List) er í burðarhlutverki og sínir það og sannar eina ferðina enn hversu magnaður leikari hann er. Spider er mynd fyrir vandláta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Below
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Below er sálfræðitryllir af bestu gerð. Þetta er ein af þeim myndum sem koma verulega á óvart og þarf að hafa stáltaugar til að horfa á. Myndin gerist í seinni heimstyrjöldinni og fjallar um áhöfnina á kafbátnum Tiger frá Bandaríkjunum. Þeir taka um 3 breska skipsbrotsmenn af spítalaskipi sem hefur orðið fyrir árás þýsks kafbáts. Áhöfnin reynir að búa í sátt og samlyndi í þröngum vistaverum kafbátsins og þegar skipsbrotsfólkið bætist í hópinn fara óhugnalegir atburðir að gerast. Gömul leyndarmál koma upp á yfirborðið. Óhugnaðurinn í Below byggir á frábærri kvikmyndatöku og hljóðvinnslu. Hljóðin magna upp myndina og oft á tíðum lækkaði ég í svjónvarpinu því ég var orðinn það smeykur. Ég gat ekki horft á myndina að kvöldi til og hélt því áfram með hana í birtingu næsta dag. Leikararnir standa sig mjög vel og mæðir mest á Bruce Greenwood í hlutverki skipstjórans. Below er gerð fyrir lítinn pening en það kemur ekki að sök, óhugnaðurinn er á skjánum frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Takið þess og verið hrædd. Ekki fyrir hjartveika.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hulk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ang Lee (Crouching Tiger, hidden dragon, Icestorm) bætir enn einni rós í hnappagagið með kvikmyndinni The Hulk. Myndin er byggð á ofurhetju sem Stan Lee teiknaði á 7.áratungum fyrir Marvel útgáfuna. Hulk sló í gegn og þykir enn þann dag í dag ein áhugaverðasta ofurhetja sem fram hefur komið. Sjálfsagt út af því að það er erfitt að skilgreina hvort hann er góður eða vondur. Ang Lee fylgir sögunni mjög vel og persónusköpunin er það góð að Hulk sjálfur verður eiginlega aukaatriði. Myndin fjallar um vísindamanninn Bruce Banner (leikinn af Eric Bana)sem vinnur við rannsóknarstörf fyrir ríkisstjórnina. Bruce er bældur og á erfitt með að taka á atburðum úr æsku þar sem ofbeldisfullur og brenglaður faðir kemur mikið við sögu. Hann bælir þessar tilfinningar niður. Þegar slys ber að höndum í rannsóknarstofunni verður Bruce fyrir mikilli geislun og stuttu seinna brýst jötuninn fram. Bruce áttar sig í raun ekki á því hvort hann vilji breytast eða ekki. Faðir hans leitar hann uppi (leikinn af Nick Nolte) en sú eina sem hann treystir er Betty Ross (leikin af Jennifer Connelly) fyrrverandi kærastan hans. Bruce þarf að glíma við sjálfan sig, umhverfið og herinn. Þessi mynd er listalega framsett af Ang Lee. Leikararnir eru frábærir og tæknilbrellurnar það góðar að jötuninn verður raunverulegur þó svo að hann sé tölvuteiknaður. Myndin er einkar áhugaverð fyrir þær sakir hversu vel hún nær til manns. Auðvelt að finna til með persónunum og þá sérstaklega jötninum sjálfum. Klippingar og myndataka er veisla fyrir augu og eyru. Hulk er vönduð kvikmyd sem er sennilega best lýst sem ofurhetjumynd fyrir vandláta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
I Spy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin I Spy fjallar um njósnarann Alex Scott (Owen Wilson). Hann er að rannsaka stuld á mjög þróaðri orustuþotu sem hefur þann eiginleika að vera ósýnileg. Rannsóknin leiðir hann til Ungverjalands en hann hefur komist að því að þar á salan á þotunni að fara fram. Eina leiðin til að koma í veg furir söluna er að fá aðstoð hjá óbreyttum borgara og fyrir valinu verður Kelly Robinson (Eddie Murphy). Hann er atvinnuboxari sem á að fara að keppa í Ungverjalandi. I Spy er ein af þessum myndum sem kemur þægilega á óvart. Hún rennur mjög vel og húmorinn og hasarinn er til staðar og vel það. Samleikur Owens Wilsons og Eddie Murphy er með ágætum. Hér er um að ræða fínustu poppkornsmynd sem gengur mjög vel þegar maður hefur ekkert að gera.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
City by the Sea
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

City by the sea fjallar um lögreglumanninn Vincent LaMara (leikinn af Robert DeNiro). Vincent er lögreglumaður í New York. Hann er hálfgerður einfari, býr einn en á í ástarsambandi við nágranna sinn (leikin af Frances McDormand). Vincent starfar í morðdeildinni og þegar inn á borð hans kemur morðmál sem bendlar son hans (sem hann hefur ekki séð eða heyrt í mörg ár) við það fara hjólin að snúast. Michael Caton -Jones leikstýrir þessari mynd og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann og Robert DeNiro vinna saman. Þeir gerðu myndina This boys Life fyrir nokkrum árum og tókst þá mun betur upp. City by the Sea er ein af þessum myndum sem hefur alla burði til að vera gæðamynd en það er handritið sem dregur hana niður. Hún verður of langdregin og of margir lausir endar. Samt sem áður er City by the Sea ágætis afþreying.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Charlie's Angels: Full Throttle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er hún komin, mynd númer 2 um englana hans Kalla og það verður að segjast eins og er að hún stendur fyrri myndinni langt að baki. Söguþráður þessarar myndar er í raun mjög óljós. Það er aldrei almennilega á hreinu hverju englarnir eru að bjarga og af hverju. Englarnir eiga í höggi við fyrrverandi engil, Madison Lee sem komist hefur yfir lista með nöfnum fanga og ætlar að nota hann til að selja glæpaklíkum, einhverra hluta vegna. Söguþráður myndarinnar er einfaldlega svo þunnur að það tekur ekki að eyða orðum á hann. Myndin er í raun eins og mjög langt tónlistarmyndband þar sem búið er að troða saman mörgum lögum og búa til einhvern hasar í kringum þau. Inn í vitleysuna flækjast svo frábærir leikarar á borð við John Cleese og það er í raun óskiljanlegt hvers vegna hann er að láta hafa sig út í þessa vitleysu. Aukaleikarar myndarinnar eru í raun uppfylling á milli laga og hasaratriða. Rómantíkin sem látin er byggjast upp er hlægileg og vandræðanleg.Svo er reynt að byggja upp einhverja persónusköpun, sérstaklega í kringum persónu Drew Barrymore en það verður pínlegt á að horfa. Þessi mynd er hvorki fugl né fiskur og eftir myndina stóð ég mig að því að spyrja: TIL HVERS? Myndin er troðfull af hasar, það vantar ekki en það er engan vegin nóg til að halda uppi heilli bíómynd. Leikararnir stóðu sig skelfilega og Cameron Diaz, Lucy Liu og Drew Barrymore voru eins og viðvaningar. Þessi mynd er eins og langt og þreytandi tónlistarmyndband, ofhlaðið hasar og fáklæddu fólki. Fyrri myndin var góð og framleiðendurnir hefðu átt að láta þar við sitja.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Crush
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Crush fjallar um þrjár vinkonur á fimmtugsaldri sem hittast allavega einu sinni í viku til að fara yfir stöðuna í karlamálum. Þær eru einhleypar og sárvantar karlmann í líf sitt. Allar gegna þær virðingarstöðu í því samfélagi sem þær lifa í. Ein er skólastjóri, önnur er læknir og sú þriðja er lögreglukona. Skólastjórinn fer í jarðaför og hittir þar gamlan nemenda sinn. Hann er rétt skriðinn yfir 20 árin og þau elskast þarna í jarðaförinni. Upp úr því verður til ástarsamband sem vinkonur hennar eru ekki ánægðar með og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að þetta samband gangi lengra. Það endar með skelfilegum afleiðingum. Crush er ein af þeim myndum sem koma þægilega á óvart með skemmtilegum leik og góðu handriti. Myndin er afskaplega ljúfsár og fyndin á köflum. Mæli með þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Tuxedo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Tuxedo fjallar um leigubílstjórann Jimmy Tong sem þekktur er fyrir að keyra of hratt. Það vekur athygli njósnarans Clarks Devlin og hann fær Tong til að vera einkabílsjóri sinn. Devlin er alltaf mjög fínn í tauinu og töffari af guðs náð en Tong er misheppnaður og einkar óheppinn. Tong lítur því upp til Devlins. Devlin lendir í slysi og Jimmy Tong prófar að máta smókingin hans og þá er voðinn vís því þessi smókingur býr yfir þeim mætti að geta breytt þeim sem klæðist hann í nokkurskonar ofurhetju. Jimmy Tong þvælist inn í heim alþjóðanjósa og þarf að redda málunum. Þessi mynd er hvorki fugl né fiskur. Hún er með eindæmum vitlaus. Handritshöfundur hefur ekki vitað hvort hann ætlaði að gera spennumynd, gamanmynd, ævintýramynd eða ástarmynd, því hann blandar þessu öllu saman með fáránlegri útkomu. Leikararnir eru hverjum öðrum leiðinlegri og þá sérstaklega Jackie Chan. Hvers vegna er maðurinn að leika? Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Once Upon a Time in the Midlands
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Once upon a time in th Midlands fjallar um Dek (leikinn af Rhys Ifans) sem er yfir sig ástfanginn af Shirley og elskar líka 12 ára gamla dóttur hennar, Marlene, út af lífinu. Hann er svo ánægður með sig og öruggur með sig að hann ákveður að koma Shirley á óvart með því að biðja hana að giftast sér í beinni sjónvarpsútsendingu. Einn áhorfandi af þessu er Jimmy (leikinn af Robert Carlyle), fyrrverandi maður Shirley og pabbi Marlene. Hann er smákrimmi sem yfirgaf þær fyrir löngu síðan og hefur ekkert látið í sér heyra. Jimmy kemur í bæinn til að vinna mæðgurnar á sitt band aftur en reiknaði ekki með mótstöðu frá Dek. Once upon a time in the Midlands er þokkaleg kvikmynd sem hefði verið mun betri með traustara handriti. Leikararnir eru oft á tíðum vandræðanlegir og samtölin snubbótt. Tónlistin er líka illa notuð. Leikararnir standa sig þolanlega en Rhys Ifans ber af. Gæðaleikari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kangaroo Jack
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jerry Bruckheimer er einn af þeim framleiðendum í Hollywood sem sendir frá sér svokallaða sumarsmelli. Hann er maðurinn á bak við myndir eins og Top Gun, Armageddon, Pearl Harbor og fl. Kangaroo Jack er ein af þeim myndum sem Bruckheimer framleiðir. Hún fjallar um tvo vini sem lenda í því að misstíga sig illilega í sendiför fyrir mafíuósa og eru því sendir í refsingarskyni til Ástralíu til að afhenda pakka. Þeir leigja sér bíl og halda út í óbyggðir Ástralíu þar sem þeir keyra á kengúru og einhverra hluta vegna klæða þeir hana í jakkann af öðrum. Hún rankar við sér og skoppar í burtu, með peningana. Upphefst nú mikill eltingarleikur. Myndin er afskaplega þreytandi og fyrirsjáanleg. Brandararnir þunnir og ofnotaðir. Klisja ofan á klisju einkennir þessa mynd og ég var sí og æ að bíða eftir að hún var búin. Þetta var eins og of langur sjónvarpsþáttur með prumpbröndurum. Myndin er ein af þessum myndum sem maður sér eftir að hafa farið á, eitt tíma og peningum í svona vitleysu. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Man Without a Past
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The man without a past fjallar um mann sem ráðist er á og hann skilinn eftir í blóði sínu. Þegar hann rankar við sér er hann algjörlega minnislaus og man ekki hver hann er, hvað hann gerir, hvaðan hann er o.s.frv. Hann kemst inn í samfélag umrenninga og finnur ástina í hjálpræðishernum. The man wihout a past er einstaklega ljúfsár og kómísk mynd. Myndin sýnir okkur hráan hversdagsleikan í Finnlandi. Handritið er listavel skrifað og samtölin kostuleg og áhugaverð. Leikararnir eru það frábærir að það er unun á að horfa. Myndatakan er einstaklega góð og notkun á hinum og þessum litum gefa myndinni sérstakt yfirbragð. The Man without a past sýnir okkur að það þarf ekki mikið fjármagn til að gera gæðakvikmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Good Girl
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Good Girl er ein af þessum kvikmyndaperlum sem stoppa því miður allt of stutt í kvikmyndahúsum. Þessi kvikmynd var sýnd á kvikmyndahátíð í Regnboganum á dögunum en því miður var ekki haldið áfram að sýna hana eftir hátíðina og því ratar hún nánast beint á myndband. The Good Girl er ein af þeim myndum sem sýna manni hin ofurvenjulega hversdagsleika með hinum ofurvenjulegu persónum. Jennifer Aniston leikur hina þrítugu Justine sem vinnur við einhæfa og leiðinlega vinnu, á einfaldan eiginmann (sem John C. Reiley leikur) sem reykir hass öll kvöld með vita vonlausum vini sínum, Bubba (leikin af Tim Blake). Justine er að gefast upp á þessu öllu saman þegar hún fellur fyrir ungum vinnufélaga sínum og saman eiga þau í stuttu ástarsambandi sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir Justine og unga piltinn. The Good Girl er ein af þessum myndum sem vekur mann til umhugsunar um lífið og tilveruna og hvað það er í raun stutt á milli hláturs og gráturs. Handrit myndarinnar er skothelt og leikararnir hverjum öðrum betri. The Good Girl er perla sem allir kvikmyndaáhugamenn ættu að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Identity er ein af þessum myndum sem fer ekki mikið fyrir en hún kemur skemmtilega á óvart með góðri fléttu, mikilli spennu og frábærum leikurum. Myndin gerist á einni óveðursnótt í miðri Nevada eyðimörkinni. Forlögin haga því þannig að 10 einstaklingar lenda saman á vegamóteli. Þessi einstaklingar eru mjög ólíkir en eiga það þó sameiginlegt að tengjast á einn eða annan hátt. Óveðrið hefur gert það að verkum að það er símasambandslaust og vegir eru farnir í sundur. Þegar líður á nóttinni fara þessi 10 gestir að tína tölunni einn af öðrum með mjög svo dularfullum hætti. Leikstjórinn James Mangold heldur vel utan um söguna og skilar henni feykivel til áhorfandans. Spennan er mikil og heldur áhorfandanum við efnið. Söguþráðurinn er óhefðbunbdin, allavega á Hollywood mælikvarða. John Cusack og Ray Liotta fara fyrir hópi úrvalsleikara sem gera þessa mynd að fyrirtaksskemmtun.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Lilja 4-ever
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumar myndir skilja mann eftir agndofa þegar þeim er lokið. Lilya 4-ever er ein af þeim myndum sem slá mann utanundir oft og mörgum sinnum. Myndin hefur notið verðskuldaðar athygli og verið verðlaunuð í bak og fyrir. Myndin fjallar í stuttu máli um hina 16 ára gömlu Liliyu sem elst upp í fátækrahverfi í Rússlandi. Mamma hennar yfirgefur hana og stingur af til Bandaríkjanna. Lilya lendir nánast á götunni og þarf að afla sér tekna með því að selja sig. Hún kynnist ungum strák og þau láta sig dreyma um bjartari framtíð. Þegar hún kynnist draumaprinsinum Andrei svífur hún um á rósrauðu skýi, en martröðin er rétt að byrja. Lilya 4-ever er átaklega saga ungrar stúlku sem villtist af leið. Myndin er raunveruleikinn eins og hann gerist verstur. Myndin er hrá á að horfa og tónlistin spilar stóran og áhrifamikinn þátt. Gæðamynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Maid in Manhattan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Maid in Manhattan er ein af þessum myndum sem maður er búinn að gleyma um leið og maður gengur út úr bíóinu. Þessi mynd fjallar um þernuna Marisu Ventura sem vinnur á hóteli og líkar ekki alveg nógu vel í vinnunni. Hún vill fá stjórnunarstarf, stefna hærra í metorðastiganum. Henni verður það á að máta föt sem gestur hótelsins á (veit ekki hvers vegna í ósköpunum) og í því kemur maður sem er að bjóða sig fram til þings. Hann fellur fyrir henni og hún honum en hún villir á sér heimildir og úr verður klisjukenndur farsi. Inn í þetta spilast vinkonur þernunnar, sonur hennar og aðstoðamaður þingmannsins (sá fyndni). Myndin er hvorki fugl né fiskur og afskaplega bandarísk. Myndin se sambland af Pretty Woman og Þyrnirós. Ralph Finnes finnur sig engan veginn og Jennifer Lopez er engin leikkona. Ljósi punktur myndarinnar er Stanley Tucci sem leikur aðstoðarmann þingmannsins. Myndin hentar samt vel fyrir pör sem fara saman í bíó til að vera með hvort öðru, og þá er myndin aukaatriði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Apt Pupil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í kjölfar X-MEN 2 fara menn að velta fyrir sér myndum sem Bryan Singer hefur gert. Hann hefur gert myndir eins og X-MEN, Usual Suspects og þessa, Apt Pupil. Apt Pupil fjallar um ungan dreng sem hefur brennandi áhuga á öllu því sem viðkemur seinni heimstyrjöldinni. Þessi áhugi er í raun þráhyggja og hann lifir sig hættulega mikið inn í þenna tíma. Dag einn rekst hann á kunnuglegan mann (snilldarlega leikinn af Ian McKellen) og þegar hann fer að athuga málið kemst hann að því að þessi maður er gamall og eftirlýstur nasistaforingi. Strákurinn fer að kúga manninn með skelfilegum afleiðingum. Apt Pupil er feykilega vel skrifuð og vönduð kvikmynd. Leikararnir eru frábærir en það er klárlega Ian McKellen sem stelur senunni. Apt Pupil ætti að fást á öllum betri myndbandaleigum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
X-Men 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 2000 kom kvikmyndin X-MEN í kvikmyndahús og sló eftirminnilega í gegn. Leikstjóri þeirra myndar var Bryan Singer (Apt pupil, Usual Suspects). Singer snýr aftur með framhald þeirrar myndar, X-MEN 2, og hún stendur fyrirrennara sínum töluvert að baki.Myndin er nánast í beinu framhaldi fyrri myndarinnar og þeir sem ætla að sjá þessa og eru ekki búnir að sjá fyrri myndina ættu í raun að leigja hana fyrst.Á meðan fyrri myndin byggði á skemmtilegum siðferðilegum og heimspekilegum pælingum byggir þessi á heiladauðum hasar.Söguþráðurinn er ekki flókin, vondir menn vilja drepa hina stökkbreyttu og hinir stökkbreyttu berja frá sér. Hinir vondu stökkbreyttu vilja drepa mennina en hinir góðu stökkbreyttu vilja það ekki o.s.frv. Leikararnir standa sig þokkalega þrátt fyrir meingallað handrit. Ian McKellen er frábær sem Magneto, Halle Berry fer ágætlega með Storm, Hugh Jackman er traustur sem Wolverine, Patric Stewart hafði ekki úr miklu að moða sem professor X og aðrir leikarar standa sig þolanlega. Myndin er keyrð áfram af miklum krafti en því miður er handritið of götótt. Myndin er allt of löng og var orðin frekar einhæf og endurtektarsöm í lokin. X-MEN 2 er þokkalegasta afþreying og ágætist opnun á (að því virðist) miklu hasarmyndasumarvertíð (HULK, Matrix, Bad boys 2 og fl.).


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Quiet American
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The quiet American gerist í Saigon í Víenam í miðju stríði á milli Frakka og kómmúnista árið 1952. Myndin fjallar um blaðamanninn Robert Fowler (sem er snilldarlega leikinn af Michael Caine). Hann vinnur fyrir London Times og flytur fréttir af stríðinu. Í Saigon á hann sér ástkonu sem hann er ástfanginn af. Ungur Bandaríkjamaður (leikinn af Brendan Fraiser) stingur upp kollinum og virðist vera þessi hægláti maður. Hann verður ástfanginn af ástkonu Fowlers og úr verður einn sérstæðasti ástarþríhyrningur sem sést hefur í kvikmynd.En þessi hægláti Bandaríkjamaður er ekki allur þar sem hann er séður. The quiet American er gæðakvikmynd og ein besta mynd sem ég hef séð lengi. Handritið er í einu orði sagt frábært og kvikmyndatakan er frábært. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur að sjá þessa mynd (það voru allt of fáir á frumsýningunni). Mynd fyrir vandláta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
High Crimes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Veröld lögfræðingsins Claire Kubik, sem leikin er af Ashley Judd, hrynur til grunna þegar FBI ákærir Tom, eiginmann hennar, sem leikinn er af Jim Caviezel, fyrir morð á saklausum borgurum í leyniaðgerð á vegum hersins 15 árum áður. Hún fær sér til hjálpar snjallan lögmann sem leikinn er af Morgan Freeman sem áður starfaði á vegum hersins og einsetur sér að hreinsa nafn Toms. Þau komast hins vegar á snoðir um viðamikið leynimakk stjórnvalda og nú er starfsferill hernnar í húfi og jafnvel hún sjálf er í bráðri lífshættu. High Crimes er fyrirtaksspennumynd með góðu og óvæntu handriti. Leikararnir standa sig mjög vel, meira að segja Ashley Judd. Fléttan í myndinni í góð og kemur áhorfandum á óvart. Ég mæli hiklaust með þessari mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Enough
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enough fjallar um gengilbeinuna Slim sem finnur draumaprinsinn og giftist honum. Allt gengur vel og þau eignast dóttur. Eftir það fer að halla undir fæti. Maðurinn sem hún elskar breytist úr umhyggjusömum eiginmanni í villidýr sem lemur hana og heldur framhjá henni. Hún flýr með dóttur sína en skuggi eiginmannsins fylgir henni. Loks fær hún nóg og snýst til varnar. Hér er á ferðinni afskaplega þunn spennumynd með götuóttu handriti. Myndin er fyrirsjáanleg frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Leikararnir hafa ekki úr miklu að moða og verða vandræðanlegir fyrir vikið. Sumar persónurnar eru óþarfar og skrifaðar til uppfyllingar. Hér er á ferðinni slöpp spennumynd sem minnir of mikið á kvikmyndina Sleeping with the enemy með Juliu Roberts, en sú mynd hafði allt það sem þessi mynd hefur ekki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Johnny English
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Johnny English fjallar um misheppnaðan leyniþjónustumann sem fær erfitt verkefni eftir að allir leyniþjónustumenn Englands eru drepnir. Verkefnið er að komast að því hver stal hinum konunglegu djásnum Bretlands. Johnny lendir í ýmsum fáránlegum aðstæðum og eins og gefur að skilja er ekki heil brú í gerðum þessa leyniþjónustumanns. Því kemur það í hlut sérlegs aðstoðarmanns hans að vera heilinn á bak við aðgerðirnar. Söguþráður myndarinnar er það vitlaus að það er pínlegt á að horfa. Flestir brandaranir missa marks og eru einhæfir og þreyttir. Rowan Atkinson er ekki svipur hjá sjón og oft á tíðum er hann hreinlega leiðinlegur. Handritið er götótt og brandararnir áttu að fylla uppí götin en því miður missir það marks. Leikararnir reyna sitt besta en allt kemur fyrir ekki. Það er skelfilegt að horfa á John Malkovich í sínu hlutverki, þessi frábæri leikari stígur feilspor með því að taka þátt í þessari mynd. Það er einn og einn brandari sem hægt er að hlæja að en það er hægt að telja þá á fingrum annarrar handar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
About Schmidt
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jack Nicholson er einn albesti leikarinn í heimunum í dag. Síðast sá ég hann í The Pledge og fór hann þar í kostum. Hann er ekki síðri í About Schmidt. Í þessari mynd leikur hann Warren Schmidt, 66 ára gamlan mann sem er komin á eftirlaun. Myndin fjallar um sjálfsskoðun þessa manns og vangaveltur hans um lífið. Hann er nýbúin að missa konuna sína og dóttir hans er að fara að giftast vitavonlausum vatnsrúmssala. Myndin fjallar um mannlegan breyskleika og raunveruleikann í sinni eðlilegustu mynd. About Schmidt er hágæðamynd sem enginn kvikmyndaunnandi ætti að láta framhjá sér fara. Nicholson fær óskarinn, ég er viss um það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Catch Me If You Can
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru alltaf tíðindi þegar Steven Spielberg sendir frá sér nýja mynd. Með Catch me if you can sýnir Spielberg á sér nýja hlið. Myndin fjallar um einn frægasta svindlara Bandaríkjanna sem var uppi á árunum 1963 - 1970. Hann var einungis 16 ára þegar hann tók upp á því að skrifa innihaldslausar ávísanir og þykjast vera annar en hann var (kennari, flugmaður, læknir o.s.frv.). Hann komst upp með þetta, allavega í nokkur ár. Dicaprio og Hanks eru traustir í aðalhlutverkunum. Umgjörð myndarinnar er frábær en hún verður á köflum full langdregin. Ég stóð mig oft að því að líta á klukkuna.Catch me if you can er fínasta skemmtun sem verður full langdregin á köflum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Life as a House
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Life As a House kom ekki í kvikmyndahús hér á landi og það er algjör synd því hér er á ferðinni hágæðadrama sem að enginn kvikmyndaunnandi ætti að láta framhjá sér fara. Í stutta máli fjallar myndin um fráskilin miðaldra mann sem leikin er af Kevin Klein. Hann fær þær fréttir að hann eigi einungins 4 mánuði eftir ólifaða og ætlar sér að nota þann tíma til að byggja sér fallegt hús við sjávarsíðuna. Einnig ætlar hann að freista þess að ná betra sambandi við 16 ára sinn sem er snilldarlega leikin af Hayden Christiansen. Hann nær í son sinn og saman ganga þeir feðgar í gegnum súrt og sætt við byggingu hússins. Ef þið eruð að leita að fallegri og vandaðri mynd, þá mæli ég hiklaust með Life As a House.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Eight Legged Freaks
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eight legged Freaks er spennu-gamanmynd í anda Independence Day í þeim skilningi að áður óþekktar verur ráðast á varnarlaust mannfólkið. Í Eight Legged Freaks eru þessar verur risavaxnar köngulær sem komist hafa í snertingu við eiturúrgang. Myndin gerist í litlu þorpi í Arizona og aðalpersónan (fyrir utan köngulærnar) er maður að nafni Chris McCormick sem leikinn er af David Arquette. Hann snýr aftur í gamla heimabæinn sinn og ekki líður á löngu þar til köngulórnar fara að gera ursla og bæjarbúarnir fara að tína tölunni einn af öðrum. Kosturinn við myndina er að hún tekur sjálfan sig aldrei of hátíðlega og gerir góðlátlegt grín af skrímslamyndum fyrri ára. Það er fullt af skemmtilegum atriðum og köngulórnar eru oft gerðar mannlegar í þeim skilningi að þær hnerra, meiða sig, spýta út úr sér ef þeim mislíkar eitthvað o.s.frv. Myndin er samt langt í frá að vera gallalaus. Leikurinn er slæmur og það er allt of mikið af lausum endum. Ellory Elkayem er að leikstýra sinni fyrstu kvikmynd og gerir það ágætlegar. Tæknibrellurnar eru óaðfinnanlegar. Hér er sem sagt á ferðinni fyrirtaks þrjúbíó, heilalaus rússíbanaferð sem léttir manni lundina svona þegar daginn fer að lengja.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
American Outlaws
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

American Outlaws er alveg ágætis vestri sem fjallar um nokkra unga bændur sem taka höndum saman þegar spilltur lestarjöfur hefur náð bóndabæjunum þeirra á sitt vald með ólöglegum aðferðum. Þeir leggja upp í mikla hefndarför og verða að alræmdustu útlögum í sögu Vestursins og foringi þeirra er engin annar en goðsögnin Jesse James. Les Mayfield leikstýrir hér hópi ungra leikara og það verður að segjast að gallinn við þessa mynd er einmitt leikurinn. Colin Farrell leikur Jesse og er í raun hlægilegur. Það var pínlegt að horfa á hann reyna að vera bæði þessi harði kúreki og mjúkur kvennamaður. Það má samt vel hafa gaman af þessari mynd, hún er hröð og það er mikið um skotbardaga. Samt er þessi mynd bara í meðallagi því leikurinn er slæmur og handritið gloppótt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Men in Black II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Barry Sonnenfeld sem hefur gert myndir eins og Men in Black, Get Shorty og Big trouble sendir hér frá sér Men in Black 2. Fyrri myndin hafði yfir að búa vissum ferskleika og skemmtilegum húmor, MIB2 hefur ekkert við fyrri myndina að bæta. Það vantar allan ferskleika. Þegar myndin var búin yppti maður öxlum og hugsaði sem svo, jú þetta var kvikmynd en ekkert meira en það. Í stuttu máli sagt fjallar myndin um það að J (Will Smith) þarf að hafa uppi á K (Tommy Lee Jones) og planta minninu í hann aftur. K hefur að geyma upplýsingar um hvar LJÓSIÐ, sem ill geimverudrottning þarf á að halda, er niðurkomið. Upphefst því mikið kapphlaup milli Mannanna í svörtu og geimverudrottningarinnar. Myndin er samt ekki alslæm, tæknibrellurnar eru frábærar, fínn húmor og aukapersónurnar eru margar hverjar mjög góðar. Sá sem stelur senunni er hundurinn Frank og það kemur mér svo sem ekkert á óvart að það verði gerð bíómynd um hann (svipað og gerðist með Scorpion King í Mummy Returns). Hér er sem sagt á ferðinni fínt 3 - bíó.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jeepers Creepers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef alltaf verið svoldið veikur fyrir hrollvekjum og ég verð að segja að ég var pínu spenntur fyrir þessari mynd. Í fyrsta lagi vegna þess að hún fór á toppinn í Bandaríkjunum og í öðru lagi vegna þess að Clive Baker sagði að þetta væri besta hryllingsmynd sem hann hafði séð. Sennilega hefur Clive sofið yfir þessari mynd eða þá að honum hefur verið mútað því þetta er einfaldlega léleg mynd, alveg laus við spennu og óhugnað. Í stuttu máli sagt fjallar myndin um systkini sem eru á leið heim í frí.Það er engin á ferli á þessum vegi sem þau eru á en þau rekast á trukk sem reynir að þröngva þeim út af veginum. Stuttu síðar sjá þau svo hvar maðurinn í trukknum er að henda einhverju sem líkist líki niður um rör, og auðvitað þurfa þau að fara að athuga málið og þá byrjar ballið. Framvinda myndarinnar er í einu orði sagt hlægileg og ég skil ekki hvernig ég náði að klára þessa mynd. Leikararnir eru skelfilegar, handritið hefur sennilega verið samið á fylleríi og tónlistin passar engan veginn við. Hér er á ferðinni afskaplega ómerkileg hrollvekja og ég er viss um að aðstandendur þessarar myndar vilja helst gleyma henni sem fyrst.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Storytelling
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Todd Solondz er einhver athyglisverðasti leikstjóri samtímans.Hann hefur gert myndir eins og Happiness og In the Dollhouse, báðar alveg frábærar. Nýjasta myndin hans heitir Storytelling og er í raun tvær sögur. Fyrri sagan fjallar um unga stúlku sem er í bókmenntafræði og lýsir á átaklegan hátt samskiptum hennar við kennarann sinn sem og aðra bekkjarfélaga. Seinni sagan segir okkur frá manni sem er að gera heimildarmynd um strák sem er að fara í háskóla. Í stuttu máli sagt er hér á ferðinni frábær kvikmynd sem skilur mikið eftir sig. Það sem einkennir myndirnar hans Solondz er að hann sýnir okkur hráan raunveruleikann á mjög svo átaklegan hátt. Hann nær svo miklu út úr leikurunum enda er handritið svo þétt. Myndin er snilld og oft á tíðum er erfitt að horfa. Óborgarleg mynd með frábærum leikurum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Deep End
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Deep End hefur fengið fína dóma erlendis og því hafði ég ákveðnar væntingar til þessarar myndar. Því miður varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Myndin fjallar í stuttu máli um konu (sem er mjög vel leikin af Tildu Swinton) sem hylmir yfir dauðsfalli til að hindra að sonur hennar sem er á unglingsaldri sé bendlaður við málið. En einhver veit af því. Þær upplýsingar eru hátt verðlagðar en þögnin þó enn hærra. Í hvert skipti sem hún reynir að breiða yfir vísbendingar eykst hættan sem hún býr sjálfri sér og sínum nánustu. Gallinn við þessa spennumynd er að hún er bara akkúrar ekkert spennandi. Húin líður bara áfram og þegar hún var búin yppti maður bara öxlum. Jú,jú þetta var kvikmynd en ekkert meira en það. Tilda Swinton er mjög góð og hér er greinilega á ferðinni frábær leikkona en því miður hefur hún ekki úr miklu að moða því handritið er götótt eins og gatasigti.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gemsar
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gemsar er virðingarverð tilraun til að gera öðruvísi mynd en því miður mistekst það. Af hverju? Jú, hún á að draga upp raunsæja mynd af lífi unglinga en það bara tekst ekki. Í staðinn verður þetta allt saman einn hrærigrautur. Myndin fjallar um hóp unglinga og fylgjumst við með þeim í einn sólarhring. Ekki er hægt að taka út neina eina aðalpersónu, allir virðast hafa svipað vægi.Mikael Torfason virðist gera ráð fyrir því að það eina sem unglingar hugsa um er kynlíf, áfengi og dóp. Það er bara ekki svoleiðis. Leikararnir standa sig samt með ágætum. Eini ljósi punkturinn við þessa mynd eru samskipti foreldra og unglinganna. Það er nokkuð vel útfært. Mikael Torfason hefur sjálfsagt haft kvikmyndina KIDS í huga þegar hann gerði þessa mynd. Sú mynd var afar vel heppnuð en er bara ekki að virka hér.

P.s. fyrir hvern er þessi mynd eiginlega? Hún er bönnuð fyrir 16 ára og yngri og mér fannst hún ætti að höfða til 14 - 16 ára unglinga.Kannski er ég bara svona gamaldags en allavega þá er þetta ekki áhugaverð kvikmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Reign of Fire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar þessi mynd var búin spurði ég sessunaut minn: ,,Til hvers?. Kvikmyndin Reign of Fire er hvorki fugl né fiskur. Hún gerist í Englandi og byrjar á okkar tíma og sýnir okkur þegar hópur verkamanni vekja dreka sem hefur sofið neðanjarðar í þúsundir ára. 10 árum seinna er ráða drekar jörðinni en örfáar manneskjur hafa leytað skjóls í köstulum og neðanjarðarbyrgjum og hugsa um það eitt að lifa af. Í einum slíkum kastala ræður Quinn ríkjum (leikinn af Christian Bale). Líf þeirra tekur stakkaskiptum þegar drekabani, Van Zan (leikinn af Matthew McConaughey) og hans flokkur leitar skjóls í kastalanum og uppgjörið við drekana er á næsta leyti. Það er varla hægt að fara rétt með þennan blessaða söguþráð því hann nær ekki nokkurri átt. Það er vandræðanlegt að fylgjast með leikurunum því það eru svo margar gloppur í handritinu. Ég stóð mig oft af því að hlæja af því hvesru hálvitalegt og vandræðanlegt þetta var allt saman. Það var ekki einu sinni hægt að hafa gaman af tæknibrellunum því maður hefur jú séð þetta allt saman áður.Hér er sem sagt á ferðinni afburðaslöpp sumarmynd sem hefði mátt brenna daginn eftir frumsýningu. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Italiensk for begyndere
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumar myndir koma manni í frábært skap og danska dogmamyndin Italiensk for begyndere er ein af þeim. Myndin segir okkur sögu 6 einstaklinga sem virðast eiga það eitt sameiginlegt að sækja námskeið í ítölsku einu sinni í viku. En eftir því sem þau kynnast nánar á ýmislegt eftir að koma skemmtilega á óvart. Italiensk for begyndere er virkilega mannleg mynd og segir okkur sögu sem gæti allt eins verið sönn. Persónusköpunin er frábær og allar persónurnar eru áhugaverðar. Virkilega góð mynd sem skilur mikið eftir sig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Crocodile Dundee in Los Angeles
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég sá fyrstu Crocodile Dundee myndina á sínum tíma og hún er mjög góð í minningunni. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert allt of spenntur að sjá þessa mynd en ákvað að kíkja á hana eitt sunnudagskvöldið þegar ég hafði ekkert að gera. Éeg vil byrja á því að segja að hér er á ferðinni mjög vond kvikmynd. Ekki var þessi mynd það come back sem Paul Hogan hafði vonast eftir enda féll þessi mynd í miðasölu. Í stuttu máli sagt fjallar þessi mynd um að Dundee flyst til L.A. þar sem konan hans er að taka við ritsjórn á dagblaði. Dundee flækist inn í Hollywood og auðvitað inn í miðjan smyglhring á málverkum. Dundee tekur svo málin í sínar hendur. Stærsti gallinn við myndina er að hún er nákvæmlega ekkert fyndin, handritið er ein gloppa út í gegn og það er klisja ofan á klisju. Þessa einu stjörnu fær samt Paul Hogan en hann er alltaf nokkuð svalur. Forðist hana þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Resident Evil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndir byggðar á tölvuleikjum verða æ vinsælli. Myndir eins og Final Fantasy og Tomb Raider vegnaði ágætlega í bíó en þær eru einminn gerðar eftir tölvuleikjum. Nýjasta myndin sem byggð er á tölvuleik er kvikmyndin Resident Evil. Ég hef lítið spilað tölvuleiki og veit því ekki hvort að myndin fylgir þessum tiltekna tölvuleik í einu og öllu. Að mínu mati skiptir það engu máli því hér er á ferðinni hörkuhasarmynd. Í stuttu máli gerist myndin í rannsóknarstöð sem staðsett er neðanjarðar. Veira (svokölluð T-veira) hefur komist í loftræstikerfið og smitað allt kvikt. Hópur fólks fer niður til að komast að því hvað gerst hefur og í vegi þeirra verða starfsmenn fyrirtækisins sem hafa vægast sagt tekið miklum breytinum við þessa sýkingu sem T - veiran hafði í för með sér. Myndin byrjar með látum og endar með látum, rússíbanaferð frá upphafi til enda. Það fer ekki mikið fyrir leikurum enda hraðinn og spennan í fyrirrúmi. Umgjörð og tæknibrellur eru frábærar. Paul Anderson (Event Horizon) hefur sent frá sér mynd sem að heldur áhorfandanum á sætisbrúninni frá upphafi til enda. p.s. myndin er ekki fyrir viðkvæma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spider-Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það kannast flestir við söguna af unglingsstráknum sem bitinn er af stökkbreyttri könguló. Þetta bit verður þess valdandi að hann fær ofurkrafta og er kallaður Köngulóarmaðurinn. Þessari fyrstu mynd um kappann (búið að gefa það út að þær verða allavega 3) leikstýrir Sam Raimi (The Gift og Simple Plan) og gerir það mjög vel. Hann hafði ekki úr miklu að moða þar sem handritið er frekar götótt en hasaratriðin bæta það upp. Í þessari mynd á Köngulóarmaðurinn (mjög vel leikinn af Toby Maguire) í höggi við Græna púkann (frábærlega leikinn af Willem Dafoe)og hasaratriðin með þeim tveimur er vægast sagt mögnuð.Myndin er rússíbanaferð frá upphafi til enda en dettu aðeins niður í væmni annars slagið. Það er eins og handritshöfundurinn hafi tekið mið af atburðunum 11.september og bætt inn í smá þjóðerniskennd. Það truflaði mig samt lítið. Spiderman er mjög góð byrjun á vonandi frábæru kvikmyndasumri. Fín skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jalla! Jalla!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jalla Jalla fjallar um vinina Roro og Máns sem starfa við þrif í almenningsgörðum í Stokkhólmi. Máns á við það vandamál að stríða að hann nær honum ekki upp - hvað sem hann reynir. Roro á hins vegar við ólík vandamál að stríða, hann er af líbönskum ættum og þ.a.l. á að hann að giftast stúlku sem er valin af foreldrum hans. Roro þekkir stúlkuna ekki neitt og hann þorir ekki að segja kærustunni frá þessu. Hins vegar ákveður hann ásamt ,,verðandi eiginkonu sinni að látast sem þau ætli að giftast til að fá frið fyrir ágengum ættingjum. Svona er söguþráður Jalla Jalla í stuttu máli. Hér er á ferðinni alveg frábær og bráðskemmtileg sænsk gamanmynd sem hefur farið sigurför um Norðurlöndin. Einhverja hluta vegna stoppaði hún stutt í bíó hér á landi. Mæli hiklaust með þessari mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Scorpion King
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frá sömu aðilum og færðu okkur Mummy myndirnar kemur The Scorpion King en því miður hefur hún ekki tærnar þar sem hinar myndirnar höfðu hælana. Það er kannski ósanngjarnt að bera þessar myndir saman en ósjálfrátt gerir maður það. The Scorpion King fjallar í stuttu máli um mann sem bíður einvaldi birginn. Söguþráður sem hljómar mjög kunnuglega og þannig er myndin, klisja ofan á klisju. The Rock er kannski flottur sem fjölbragðaglímukappi en er engan veginn að halda uppi heilli kvikmynd. Slæmur leikur og lélegt handrit urðu þess valdandi að mér hundleiddist á þessari mynd. Yngri kynslóðin hefur sennilega gaman að þessari mynd en aðrir ekki. Forðist þessa. p.s. að lokum vil ég benda þeim sem ætla að sjá hana að fylgjast með kvenfólkinu í myndinni, þær eru allar eins og klipptar úr Playboy, say no more.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jay and Silent Bob Strike Back
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er einn af þeim sem hef lítið sem ekkert fylgst með þessum köppum, Jay og Silent Bob og því ákvað ég að prófa þessa mynd og sjá það sem allir eru að tala um. Ég vil byrja á því að segja að mér finnst þetta ein leiðinlegasta mynd sem ég hef séð. Í stuttu máli sagt fjallar myndin um tvo félaga sem komast að því að það er verið að gera bíómynd sem er byggð á persónum þeirra. Þeir ákveða að fara til Hollyood og fá eitthvað fyrir sinn snúð. Ég ætla ekkert að vera tíunda meira um þessa mynd. Þeir sem hafa gaman af þessum vitleysingum hafa kannski einhverja skemmtun af þessari mynd en að mínu mati er þetta rusl.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Showtime
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Showtime er gífurlega vonbrigði. Klisja út í gegn. Myndin fjallar um harða löggu sem leikin er af DeNiro og aulalögguna sem leikin er af Eddie Murphy. DeNiro vinnur án félaga en auðvitað er honum skipað að vinna með Murphy og það sem meira er, kvikmyndatökuvél fylgir þeim hvert fótmál því þeir eru aðalstjörnurnar í nýjum raunverlueikasjónvarpsþætti. Inn í þetta fléttast vondi kallinn sem er að hanna nýjar og hættulegar byssur og auðvitað flækjast félagarnir inn í það. Myndin er fyrirsjáanleg klisja eins og þær gerast verstar. Alveg gatslitið handrit gerir það að verkum að manni hundleiðist. Ef það hefði ekki verið fyrir DeNiro og nokkra brandara hefði ég farið heim og horf á 48hours. Virkilega slöpp mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Man Who Wasn't There
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn og aftur koma Cohen bræðurnir með snilldarmynd. The Man Who Wasn´t There gerist stuttu eftir seinni heimsstyrjöld og segir okkur frá rakara (snilldarleikinn af Billy Bob Thorton) sem kemst að því að konan hans heldur framhjá honum. Hann ákveður að beita viðhald konu sinnar fjárkúgun með skelfilegum afleiðingum. Hér er á ferðinni besta mynd Cohen bræðra að mínu mati. Billy Bob sínir ótrúlega leikhæfileika í aðalhlutverkinu. Aukaleikarnir komast vel frá sínu. Þetta er gæðamynd en hún er að vísu ekki fyir alla, kannski eingöngu fyrir vandláta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pollock
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Pollock er í einu orði sagt stórkostleg mynd. Hún fjallar í stuttu máli um ævi listmálarans Jackson Pollock en frægðarsól hans reis hvað hæst um miðja 20.öldina. Hann var brautryðjandi í svokölluðum slettulistaverkum. Pollock var einfaldur persónuleiki og mjög drykkfelldur. Við fylgjumst með sigrum hans og sorgum í þessari gæðamynd. Ed Harris leikur Pollock (jafnframt því sem hann leikstýrir myndinni) óaðfinnanlega og kemur það mér á óvart að hann skyldi ekki hafa fengið óskarinn, þvílíkur snilldarleikur sem maðurinn sínir. Pollock er hágæðadrama sem engin kvikmyndaunnandi ætti að láta framhjá sér fara.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Heartbreakers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Heartbreakers fjallar um mæðgur sem stunda það að tæla ríka menn, giftast þeim og skilja svo við þá til að fá fullt af peningum. Allt virðist ganga eins og í sögu þar til þau hitta fyrir keðjureykjandi, gamlan ríkan mann (Geni Hackman) og þá fer nú að halla undan fæti.Byrja bara á því að segja að hér er á ferðinni leiðinleg gamanmynd. Mér stökk ekki bros á vör. Þar að auki er myndin 130 mínútur sem er allt of langt fyrir gamanmynd af þessu tagi. Hún er virkilega langdregin og ég stóð mig oft af því að líta á klukkuna. Gene Hackman fær þessa stjörnu en hann er alltaf góður. Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Brotherhood Of The Wolf
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég missti af þessari mynd í bíó og beið því spenntur eftir því að hún kæmi á leigurnar og því miður verð ég að segja að ég varð fyrir vonbrigðum. Myndin gerist á seinni hluta 18.aldar í Frakklandi og fjallar í stuttu máli um skepnu sem hefur drepið yfir hundrað konur og börn. 2 menn eru sendir að tilskipan konungs að finna og drepa skepnuna. Inn í þetta blandast pólitík og ástarsamband. Það er kannski stærsti galli myndarinnar, það er of flókin söguþráður. Leikstjórinn hefur ekki alveg vitað hvort hann ætlaði að gera sögulega, pólitíska, hollvekjandi eða spennandi mynd. Allt blandast saman í einkennilega samsuðu. Myndin er samt ágætlega leikin og frábærlega tekin. Umhvwerfið er líka allt hið glæsilegasta. Get samt ekki mælt með þessari mynd, hún er allavega ekki fyrir alla.p.s. myndin er að hluta byggð á sannsögulegum atburðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dracula 2001
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég fór ekki á þessa mynd í bíó því að mig grunaði að hér væri á ferðinni slöpp mynd. Ég hafði rangt fyrir mér. Það er of gott að segja að hér sé á ferðinni slöpp mynd því þetta er afspyrnu leiðileg mynd, algjört rusl. Söguþráðurinn er í stuttu máli um það að menn brjótast inn í hvelfingu (í banka eða gimsteinabúð eða hvað þetta var nú) og stela kistu, já og Drakúla er í henni. Auðvitað vaknar gamli maðurinn og þá er fjandinn laus, eða Drakúla réttara sagt. Þetta er án efa ein sú allra leiðilegast kvikmynd sem ég hef séð. Leikararnir eru hlægilegir, söguþráðurinn fáránlegur, umgjörðin alveg úr í hött. Sem sagt - ÖMURLEG mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei