Gaurinn er BARA skemmtilegur

Í Disneyteiknimyndinni Vaiana 2, sem kemur í bíó miðvikudaginn 27. nóvember nk., koma þau aftur saman þremur árum eftir atburði fyrri myndarinnar þau Vaiana, sem Auli‘i Cravalho talar fyrir og Maui, sem Dwayne Johnson talar fyrir. Og aftur er ævintýri í vændum. Áhöfnin er litrík, samansett af ólíkum en bráðskemmtilegum einstaklingum.

Vaiana leggur af stað til ystu marka úthafsins og inn á hættulegt löngu týnt svæði. Við tekur ævintýri sem er stærra en nokkuð sem hún hefur lent í áður.

Leitaði að sjálfri sér

„Fyrsta myndin var um leit Vaiana að sjálfri sér,“ segir handritshöfundur myndarinnar Jared Bush sem einnig skrifaði handrit Vaiana 1. „Þetta er ferðalag sem á sér engan endi og Vaiana á mikið ólært um sig sjálfa. Ef fyrsta myndin var um tengslamyndun og fortíðina þá er þessi mynd um Vaiana og framtíð þjóðar hennar,“ bætir Bush við.

Samkvæmt aðstoðarleikstjóranum Dana Ledoux Miller, sem skrifaði handritið með Bush, þá kom innblásturinn að sögunni í Vaiana 2 frá samfélögunum á Kyrrahafseyjunum sjálfum. „Það eru til gamlar sögur um stað í Kyrrahafinu þar sem sjófarendur frá ólíkum eyjum hittust. Við sækjum innblástur frá hugmyndinni um að fólk hafi ferðast yfir hafið til að koma saman – við ímyndum okkur að fyrir mörgum kynslóðum síðan hafi margar leiðir legið að þessarar eyju, sem gaf fólki frá ólíkum stöðum í Kyrrahafinu tækifæri til að læra af hverju öðru í gegnum sögur, ævintýri og upplifanir hvers og eins.

Bannfærði eyjuna

En löngu áður en okkar saga hefst þá var til guð sem vildi ekki að mennirnir hittust og tengdust með þessum hætti. Hann ákvað því að sökkva eyjunni niður á hafsbotn. Hann bannfærði þar með þennan samkomustað og lét alla slóða að honum hverfa,“ segir leikstjórinn David G. Derrick Jr. og bætir við:
„Það skiptir engu máli á hvaða öld við lifum á eða á hvaða stað við erum á í lífinu við erum alltaf að vaxa og breytast.“

Vaiana 2 (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7
Rotten tomatoes einkunn 61%

Eftir óvænt spjall við forfeður sína leggur Vaiana af stað út á hafið og inn á hættulegt og löngu týnt svæði og lendir í stórbrotnum ævintýrum ásamt hálfguðinum Maui og litríkri áhöfn....

Hann segir að eyja Vaiana, Motunui, blómstri og fólkinu líði vel. „En Vaiana veit að þau eiga meira inni. Það hljóti að vera fólk þarna hinum megin við sjóndeildarhringinn – og þegar hún finnur sönnunargögn þar um verður hún að fara af stað og sigla lengra en nokkur forfaðir hennar hefur gert, til að fá svör við spurningum sínum.“

Hafið tengir okkur saman

Jason Hand, aðstoðarleikstjóri, segir að hafið sé mikilvægt. „Það tengir okkur saman,“ segir Hand, en hann, rétt eins og Derrick, vann að fyrstu kvikmyndinni. „Hvert sem farið er á þessum slóðum þá talar fólk um sögusvið myndarinnar okkar, innblásturinn að henni og náttúrulega fegurð Kyrrahafsins – þetta er sannarlega töfrandi staður. Við höfum kynnst svo mörgum Kyrrahafseyjum við gerð myndarinnar og hvarvetna ríkir djúp virðing fyrir náttúrunni og staðnum þar sem þau búa. Þessi staðarvitund og djúp virðing fyrir samfélaginu var grunninnblásturinn sem mótaði söguna í myndinni.“

Ledoux Miller segir að oft sé tekið þannig til orða á Kyrrahafinu að hafið skilji fólkið ekki að heldur tengi það saman.

Í byrjun myndarinnar skilur Vaiana, sem núna er leiðtogi þjóðar sinnar, ekki afhverju þau hafa ekki hitt annað fólk á siglingu um höfin. „Vaiana sér sýn og er heimsótt af einum af upprunalegu landkönnuðum Motunui, Tautai Vasa, sem segir henni frá eyjunni löngu týndu Motufetū,” segir Bush. „Vaiana þarf að leggja allt undir til að takast á við Nalo, stormguðinn, til að finna þessa löngu týndu eyju sem sameinaði þjóðirnar í Kyrrahafinu. Þetta er ólíkt öllu öðru og til að ná takmarkinu, sem hún sá í sýninni, þá þarf hún góða áhöfn með sér.“

Bæta hvor aðra upp

Og áhöfnin samanstendur af kjúklingnum Heihei, sem Alan Tudyk talar fyrir, svíninu Pua og hálfguðinum Maui. „Það er ekki hægt að segja sögu Vaiana án Maui,“ segir Derrick. „Það er geggjað að hafa þessar tvær persónur saman. Þær ýta á hvora aðra – og bæta hvort annað upp. Og það er alltaf fjör þegar þessi tvö eru saman.“

Maui gegnir mikilvægu hlutverki í ferðinni. „Það að brjóta álögin er flóknara en nokkur gat ímyndað sér,“ segir Ledoux Miller. „Vaiana þarf að fá Maui til að hjálpa sér að komast í gegnum ýmsar flóknar áskoranir – hún á margt ólært um til hvers er ætlast af henni og hvað hún er tilbúin að gera til að finna Motufetū, brjóta álögin og opna leiðirnar að eyjunni.“

Holdgerir Vaiana

Auli‘i Cravalho endurtekur nú leikinn sem Vaiana. „Hún virkilega holdgerir Vaiana,“ segir Jason Hand aðstoðarleikstjóri. „Hún kemur með einstaka eiginleika inn í persónuna —Auli‘i er leiðtogi, hún er vingjarnleg, fyndin og henni þykir virkilega vænt um persónuna. Og vá maður – getur hún sungið,“ bætir menningarráðgjafi myndarinnar Kalikolehua Hurley, við. „Auli‘i er náttúruafl – hún er ekki ólík persónunni sem hún talar fyrir. Hún fer fyrir sínu fólki. Við lítum öll upp til hennar, sama hve ung eða gömul við erum. Hún vildi virkilega tryggja að hún næði réttum tökum á persónunni – tengdist ekki aðeins menningarlegum rótum hennar, sem hún náði vel, heldur næði djúpri tengingu við ævintýraþrána, ferðalögin, og hvað það þýðir fyrir fólkið í Kyrrahafinu að geta farið út á sjó og ferðast um langan veg.“

Framþróun og vöxtur er stór hluti myndarinnar segir Cravalhol „Vaiana finnur mikla togstreytu innra með sér þegar hún fær skilaboðin fá forfeðrunum um að fara í ferðalag , en á sama tíma vill fjölskylda hennar og samfélagið allt að hún verði áfram heima,“ segir hún.

Verða betri vinir

„Og svo verða þau Maui enn betri vinir en í fyrstu myndinni. En hann vill oft taka ákvarðanir fyrir Vaiana – til að hún sé örugg. Það er ekki alltaf það besta fyrir áhöfnina og alla.“

Dwayne Johnson segir um Maui að persónan sé opin bók. „Hann er galopinn með allt og hann er ekkert að fela tilfinningar sínar. Ég segi alltaf að það sterkasta sem við getum verið í lífinu sé við sjálf. En jú, það er meira en að segja það að gera það. Það tók mig langan tíma að ná því, en ég reyni sjálfur að vera eins sannur og ég get. Og til viðbótar, það sem ég elska við Maui er að gaurinn er BARA skemmtilegur,“ segir Johnson. „Hann er hörkuflottur hálfguð – hástemmdur og sjálfselskur. Og jafn fyrirferðarmikill og hann er, þá er hann einnig mikil tilfinningavera,“ segir segir Dwayne Johnson að lokum.