Getraun: Black Swan (DVD)

Hin óviðjafnanlega Black Swan kemur loksins í verslanir á morgun eftir langa og erfiða bið (myndin var frumsýnd í byrjun febrúar á þessu ári) og myndum við hjá Kvikmyndir.is ekki taka það til greina að gefa ekki nokkur eintök af svona einstakri kvikmynd úr smiðju leikstjórans Darren Aronofsky (Requiem for a Dream, The Wrestler). Fyrir þá sem ekki vita þá er þetta myndin sem Natalie Portman fékk Óskarinn fyrir, en enginn sem sá myndina lét það koma sér á óvart þar sem leikkonan er hreint út sagt geðveik í myndinni, í báðum merkingum.

Myndin segir frá Ninu, sem er ungur og metnaðarfullur ballettdansmær í New York. Líf hennar snýst allt um ballettdans og ekkert annað. Hún býr með stjórnsamri móður sinni, Ericu, sem er fyrrum ballerína. Þegar listræni stjórnandinn Thomas Leroy ákveður að skipta út aðalballerínunni Beth MacIntyre í opnunarstykki vetrarins, Svanavatninu, þá er Nina fyrsti kostur í hlutverkið. En nýr dansari veitir henni harða samkeppni, Lily. Svanavatnið þarf dansara sem getur túlkað hvíta svaninn með reisn og sakleysi, en einnig svarta svaninn, sem stendur fyrir slægð og munúð. Nina passar fullkomlega í hlutverk hvíta svansins en Lilly er fullkomin í hlutverk svarta svansins. Ballerínurnar þróa með sér vinskap, þrátt fyrir samkeppnina, og Nina fer að þróa með sér dekkri hlilð sem gæti reynst henni dýrkeypt.

Hérna er eitthvað af því sem Kvikmyndir.is notendur hafa um myndina að segja:

„Black Swan er algjört meistaraverk, hún er frumleg, vel skrifuð og er frammistaða Natalie Portman óskarsverðlaunahæf. Myndin er þó ekki gallalaus eftir að hafa séð myndina er ekki búið að svara öllum spurningum manns um söguþráðinn. Það gerir að vísu þessa mynd mjög áhugaverða að ræða um því allir virðast vera með mismunandi kenningar um hana.“ – Sæunn Gísladóttir

„Aronofsky kemur hér með sýna best leikstýrðu mynd, ekki bara af því að myndin er vel leikin, heldur líka út af ótrúlega öflugu andrúmslofti og smáatriðum. Af öllum þeim hryllingsmyndum sem ég hef séð (sem eru reyndar ekki margar) er þetta ein af þeim öflugustu, bæði út af því sem aðalkarakterinn gengur í gegnum og sér, sem er á köflum mjög óhugnandi, heldur líka hversu falleg hún er.“ – Jónas Hauksson

„Ég datt strax inn í söguna og hélt áhugann út alla myndina, auðveldlega! Myndin er mjög vel unnin, sérstaklega tæknilega. Mjög góð mynd, áhugaverðar persónur og góðir leikarar, flottar danssenur. Ein besta lessusena allra tíma!“ – Heimir Bjarnason

„Handritið sjálft var rosalega gott, maður hélt sig alvarlega við efnið og ég var sjúklega spenntur frá byrjun til enda. Ég vill ekki mæla með þessari mynd því að ég held að hún er ekki fyrir alla. En ég mæli með henni fyrir artí-faggana og kvikmyndafíkla (tveir mjög ólíkir hópar) því að hún er mjög listræn á sinn hátt og kvikmyndafíklar sem hafa heirt nafnið Darren Aronofsky, þá hljóta þeir að fíla myndirnar hans. Eina sem ég veit að hún er tussu-titt-fokking góð.“ – Sölvi Siguður


Ef þú hefur einhvern áhuga á því að vinna þér inn DVD eintak þá þarftu ekki annað en að svara nokkrum spurningum hér að neðan. Svörin sendast sem fyrr á netfangið tommi@kvikmyndir.is. Þið hafið út allan föstudaginn til að svara og senda inn. Í kringum laugardagsmorguninn mun ég draga út vinningshafa og senda þeim tölvupóst tilbaka.

Hérna eru spurningarnar:

1. Hvað heitir þessi gullfallega leikkona?

2. Hvað hét fyrsta mynd leikstjórans Darren Aronofsky?

3. Hversu mörg Óskarsverðlaun vann myndin The Wrestler?

Gangi ykkur vel!