Leikarinn og leikstjórinn Mel Gibson hefur undanfarinn áratug verið úti í kuldanum í Hollywood. Eftir að hann var handtekinn ölvaður undir stýri í júlí 2006 þar sem hann úthúðaði gyðingum voru peningamennirnir í kvikmyndaborginni fljótir að snúa við honum baki.
Ari Emanuel, yfirmaður fyrirtækisins William Morris Endeavor (WME), skrifaði opið bréf þar sem hann sagði að iðnaðurinn megi ekki „leyfa Mel Gibson að komast upp með svona hræðilega særandi ummæli“, samkvæmt frétt The Hollywood Reporter.
Síðar sagði Emanuel Gibson upp sem kúnna fyrirtæksins, sem annast meðal annars umboðsmennsku fyrir stjörnurnar
Efttir tíu ár í „leikstjóra-fangelsi“ er Gibson að komast aftur á beinu brautina. Nýjasta myndin hans Hacksaw Ridge, hefur fengið góðar viðtökur og hafa menn orðað hana við Óskarsverðlaunin.
„Ég hef þekkt Mel í mörg ár og hæfileikar hans sem kvikmyndagerðarmaður eru óumdeildir,“ sagði Sue Kroll, yfirmaður markaðsdeildar og dreifingar hjá Warner Bros. „Hann er hæfileikaríkur sögumaður og hefur búið til margar frábærar myndir.“
Gibson hafði einnig uppi niðrandi ummæli um samkynhneigða árið 1991 en baðst fljótt afsökunar á þeim. Þess vegna kom það mörgum á óvart þegar framleiðandinn David Permut, sem er bæði samkynhneigður og gyðingur, ákvað að starfa með Gibson við Hacksaw Ridge.
Permut hafði uppi efasamdir um samstarfið við Gibson en þurfti ekki að hafa áhyggjur því honum þótti frábært að starfa með honum. Sagði hann Gibson ekki vera þann mann sem margir telja hann vera.
Gibson verður sífellt eftirsóttari í Hollywood. Hann er núna staddur á Írlandi að leika í myndinni The Professor and the Madman á móti Sean Penn. Hann er einnig í viðræðum um að leika njósnara í Every Other Weekend.
Tvær umboðsskrifstofur, CAA og UTA, eru jafnframt á að berjast um að fá Gibson í sínar raðir. Ekki er ljóst hvort WME ætli að taka þátt í kapphlaupinu.
„Ég held að Mel hafi verið misskilinn af fólki sem þekkir hann ekki en enginn getur tekið hæfileika hans í burtu,“ sagði Permut. „Þegar allt kemur til alls held ég að tíminn lækni sárin.“