Gömlu leikararnir snúa aftur í American Pie

Það hefur ekki verið skortur á myndum í American Pie-seríunni frá því allra fyrsta myndin sló í gegn árið 1999. Smátt og smátt fækkaði í leikarahópnum úr fyrstu myndinni hinsvegar, en framleiðendur myndanna vilja breyta því.

Samkvæmt The Hollywood Reporter hefur American Reunion verið hrint í framleiðslu, en markmið Universal Pictures er að fá alla upprunalegu leikarana til að birtast í þeirri mynd. Nú þegar hefur verið gengið frá samningnum við Jason Biggs, Seann William Scott og Eugene Levy, á meðan gengið er á eftir restinni af leikarahópnum.

Handritshöfundar Harold & Kumar Escape from Guantanamo Bay skrifuðu handritið að American Reunion og eru líklegir til að taka líka að sér að leikstýra myndinni, en American Reunion mun ekki vísa til American Pie-myndanna sem hafa komið beint á DVD.

– Bjarki Dagur