Gott sumar að baki í Hollywood

Kvikmyndaframleiðendur í Hollywood eru kátir þessa dagana enda hefur sumarið verið þeim einstaklega hagfellt. Fyrir tveimur árum leit út fyrir að kvikmyndaiðnaðurinn væri kominn í kreppu, færri komu í bíó og menn óttuðuðust að samkeppnin frá vídeói, tölvuleikjum og annarri afþreyingu væri farin að setja mark sitt allverulega á bransann. Nú er öldin hinsvegar önnur, aðsókn að kvikmyndahúsum í Bandaríkjum í sumar jókst um 3% frá síðasta sumri og seldir miðar í sumar voru 606 milljónir, sem þýðir alls um 4,15 milljarðar Bandaríkjadala í tekjur. Það er 8,5% hækkun tekna frá síðasta sumri, þar sem hækkun miðaverðs spilaði þar inn í. Ástæður aukinnar aðsóknar eru meðal annars vel heppnaðar stórmyndir sumarsins eins og Shrek the Third, Die Hard 4.0, og Fantastic Four: Rise of the Silver Surfer, svo fáeinar séu nefndar.