Guy Ritchie finnur Gulleyjuna

Warner Bros. tilkynntu á dögunum að leikstjórinn Guy Ritchie hefði verið fenginn til þess að leikstýra nýrri kvikmynd byggðri á hinni klassísku bók Robert Louis Stevenson, Gulleyjunni. Eða Treasure Island á frummálinu. Verkefnið hefur legið í salti dágóðan tíma hjá fyrirtækinu, og menn eins og Paul Greengrass (Bourne Supremacy) komið og farið frá verkefninu. Þetta tilboð staðfestir þróun Ritchie í sannkallaðan stórmyndaleikstjóra eftir velgengni Sherlock Holmes myndanna, en hann tók einnig að sér spæjaramyndina The Man from U.N.C.L.E eftir að Steven Soderbergh beilaði á henni.

Hvað þetta þýðir fyrir þá mynd er óvíst, og að sama skapi er ekki víst hvaða mynd Ritchie einbeitir sér að næst, en ásamt þessum tveimur hefur hann einnig Sherlock Holmes 3 á dagskrá, og framhald af RockNRolla frá 2008 á tossalista hjá sér. Það lítur allavega ekki út fyrir að Ritchie muni að snúa sér aftur að hræódýrum sjálfstæðum glæpamyndum á borð við Lock, Stock & Two Smoking Barrels í bráð.

Hvort nokkur þörf sé á enn einni kvikmynd byggðri á Gulleyjunni er svo önnur saga. Barnabók Stevenson frá 1883 á sér langa sögu á stóra tjaldinu (og litla skjánum), nú síðast í breskri sjónvarpsmynd frá ITV þar sem grínistinn Eddie Izzard fór með hlutverk Long John Silver. Mín uppáhalds útgáfa verð ég að viðurkenna er held ég Muppet Treasure Island. Kannski að það sé merki um að það vanti almennilega aðlögun á sögunni. Sennilegra er þó að ég hafi bara ekki séð þær bestu.

Hvað segja lesendur, hver er ykkar eftirlætis kvikmyndaútgáfa af Gulleyjunni, og mynduð þið borga fyrir að sjá hana í bíó aftur?