Hasarhetjan Chan nær drukknaður á vatnaketti

Eins og flestir kvikmyndaunnendur ættu að vita þá leikur hasarhetjan Jackie Chan, gjarnan sjálfur í áhættuatriðum í myndum sínum. Og oft hefur munað mjóu að illa færi. Chan var hætt kominn nú nýlega þegar hann var að taka upp kvikmyndina Vanguard, nýjustu mynd sína, en þá var hann nærri drukknaður.

Harður nagli.

Chan, sem orðinn er 65 ára gamall, sagði frá atvikinu þar sem hann var að kynna myndina á blaðamannafundi í Beijing í Kína.

Eins og sagt er frá í kínverska vefmiðlinum China.org.cn þá stóðu yfir tökur úti á sjó, á vatnaketti ( e. Jet Ski ).

Þannig fór að Chan endaði á því að festast undir steini, og gat ekki losað sig. Hann hefði getað drukknað, en sagði kínverskum blaðamönnum að hann hafi einbeitt sér að því að halda ró sinni og missa ekki stjórn á sér.

Að lokum var Chan bjargað af tökuliði sínu.

Atvikið fékk svo mjög á leikstjórann Stanley Tong, að mikið fát kom á hann, þar sem hann beið á ströndinni. Þegar hann sá Chan birtast og koma upp úr vatninu, þá grét hann. „Ég gat ekki haldið aftur af tárunum,“ sagði hann á blaðamannafundinum.

Chan brosti hins vegar þegar honum var bjargað, og fór og huggaði Tong og hina úr tökuliðinu.

Þrátt fyrir harðan skráp, þá átti Chan eftir að finna fyrir atvikinu síðar um kvöldið. „Þegar ég fór í sturtu um kvöldið og rifjaði upp atvikið, þá varð ég skyndilega hræddur og byrjaði að skjálfa. Ég áttaði mig á því hvað ég var nálægt því að deyja.“

Ekki í fyrsta sinn

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Chan sleppur naumlega við tökur á kvikmynd. Chan varð fyrir meiðslum á hrygg þegar hann var að leika í kvikmyndinni Project A og meiddi sig á bringubeini þegar hann datt í kvikmyndinni Armour of God II: Operation Condor.

Þá brákaði hann höfuðkúpu sína, og þurfti á heilaskurðaðgerð að halda, eftir að hann féll í myndinni Armour of God.