Hereditary olli miklum andlegum skaða

Bandaríski leikarinn Alex Wolff segir hryllingsmyndina Hereditary hafa tekið gríðarlega á og vill hann meina að hlutverk sitt í þeirri frægu kvikmynd hafi tekið gífurlega á sína andlegu heilsu, þá ekki síst svefninn – enn þann dag í dag.

Þetta staðfesti Wolff í samtali við fréttamiðilinn Looper og kveðst leikarinn hafa ekki þorað að tjá sig áður um hlutverkið sökum þess hvað leikarastörf þykja mikil forréttindi að hans sögn. Wolff telur óhjákvæmilegt að leikarar taki vinnuna oft með sér heim, ef þannig mætti að orði komast, en þessi framleiðsla hafi tekið langvarandi toll.

„Þessi kvikmynd olli mér eins miklum skaða og nokkur kvikmynd mun nokkurn tímann gera,“ segir Wolff í viðtalinu.

„Ég vil ekki hljóma tilgerðarlegur eða taka sjálfan mig full alvarlega, því leikarar gegna oft þægilegu starfi, en þetta [verkefni] tók verulega á. Andlega og tilfinningalega er þetta með því erfiðara sem ég hef gert. Síðar meir fann ég að þetta var farið að taka sinn toll af minni andlegu heilsu.“

Wolff er mörgum kunnugur og hefur víða komið við á síðustu árum, þar á meðal í kvikmyndunum Jumanji: Welcome to the Jungle, The Next Level, My Friend Dahmer, Bad Education, Old og Pig sem nýverið hafa verið að raka inn umtali. Í aðalhlutverkum Hereditary eru Toni Collette, Gabriel Byrne, Ann Dowd ásamt Wolff og má þess geta að allir leikarar myndarinnar hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda fyrir hlutverk sín.

Myndin fjallar um hvernig fjölskylda tekst á við óvænt andlát innan fjölskyldunnar. Allir erfa ákveðna eiginleika, slæma og skrítna ávana jafnvel og kæki frá foreldrum eða öðrum forfeðrum og -mæðrum. Segja má að þessi kvikmynd taki þá staðreynd upp á hærra og hryllilegra stig.

Hereditary er fyrsta mynd leikstjórans og handritshöfundsins Ari Aster en hann var undir áhrifum kvikmynda eins og Don’t Look Now, The Shining og Rosemary’s Baby.

Hereditary movie poster