Hetjur Valhallar og Egmont í samstarf

Nú tæpum mánuði fyrir frumsýningu fyrstu íslensku teiknimyndarinnar í fullri lengd:
Hetjur Valhallar – Þór, eru landvinningar myndarinnar og vörumerkisins komnir á fullan
skrið. Sýningarréttur á teiknimyndinni hefur þegar verið seldur til yfir 50 landa víðs vegar
um heiminn og nú hefur teiknimyndafyrirtækið CAOZ skrifað undir samning við norræna
útgáfu- og efnisveiturisann Egmont.

Samningurinn felur í sér að Egmont verður fulltrúi myndarinnar og vörumerkisins á
Norðurlöndunum og á völdum mörkuðum í Norður Evrópu og mun bera ábyrgð á sölu allra
hliðarvara sem bera vörumerkið Hetjur Valhallar (e. Legends of Valhalla). Hluti samningsins
innifelur einnig að Egmont hefur þegar lagt af stað í allsherjar vöruþróun í útgáfu undir
merkjum Hetja Valhallar og munu þeir selja þær vörur í öllu þeim löndum sem myndin
hefur verið seld til. Egmont hefur þegar hafið þróun á yfir 25 titlum í tengslum við þennan
samning og mun kynna Hetjur Valhallar til leiks á bókamessunni í Frankfurt í október.
Egmont er stærsta miðlunar- og útgáfufyrirtæki á Norðurlöndunum og standa þeir að baki
ótal vörumerkjum í afþreyingariðnaðinum, öflugri bókaútgáfu, tímaritaútgáfu,
fréttaveitum, sjónvarpsstöðvum, kvikmyndahúsakeðjum, tölvuleikjum, dreifingu og svo
mætti lengi telja. Fyrirtækið gefur út efni í yfir 30 löndum og er með yfir 6.500 starfsmenn.
Meðal annarra vörumerkja sem Egmont annast útgáfu og leyfismál fyrir má nefna Andrés
Önd, Ástrík, Lukku Láka, Tinna og Rasmus Klump.

Tölvuteiknimyndin Hetjur Valhallar – Þór verður frumsýnd í 3D á Íslandi þann 14. október
næstkomandi. Teiknimyndin er stærsta kvikmyndaverkefni sem nokkru sinni hefur verið
ráðist í á Íslandi. Áður hefur CAOZ framleitt teiknimyndirnar um Litlu lirfuna ljótu og Önnu
og skapsveiflurnar. CAOZ hf. er stofnað árið 2001.
– —
Nánari upplýsingar um Egmont eru á www.egmont.com
Nánari upplýsingar um Hetjur Valhallar má finna á www.legendsofvalhalla.com
Nánari upplýsingar um CAOZ eru á www.caoz.com