Þó að tökur séu þegar hafnar á framhaldinu á spennu-grínmyndinni The Hitman´s Bodyguard, The Hitman´s Wife´s Bodyguard, þá er enn verið að ráða leikara á fullu í myndina. Nú síðast bættust við tveir valinkunnir leikarar, hinn Óskarstilnefndi Richard E. Grant, sem snýr aftur í hlutverki sínu úr fyrstu myndinni, sem Seifert, og Antonio Banderas.
Patrick Hughes er mættur í leikstjórastólinn, og aðalhetjurnar, þau Ryan Reynolds, Samuel L. Jackson og Salma Hayek, snúa aftur í sínum hlutverkum.
Reynolds leikur í fyrri myndinni topp-lífvörðinn Michael Bryce sem enginn á nokkurt roð í þegar slagsmál eru annars vegar. Dag einn fær hann það nýja verkefni að halda hlífiskildi yfir vitni, Dariusi Kincaid, sem samþykkt hefur að vitna gegn fyrrverandi vinnuveitanda sínum, rússneska glæpakónginum Vladislav Dukhovich, sem á móti skipar sínum mönnum að koma Dariusi fyrir kattarnef með hvaða ráði sem er og hvað sem það kann að kosta.
Tekin upp á Ítalíu
Eins og sagði hér á undan er vitað hvaða hlutverk Grant mun leika í myndinni, en ekki hefur verið tilkynnt um hlutverk Banderas. Auk þeirra þá er ekki langt síðan tveir aðrir þekktir leikarar, þeir Frank Grillo og Morgan Freeman, gengu til liðs við myndina.
Tökur fara fram á Amalfi ströndinni á Ítalíu, í sól og sumaryl.
Við sjáum annars Banderas næst í The New Mutants sem frumsýnd verður 2. ágúst næstkomandi á Íslandi. Þá leikur hann í nýjustu kvikmynd Steven Soderbergh, The Laundromat. Grant er meðal leikenda í Star Wars: Episode IX sem frumsýnd verður 19. desember og einnig í gaman-dramanu Palm Beach.