Hitta naglann á höfuðið – Ný stikla!

Ný stikla er komin fyrir þriðju þáttaröð gamanþáttanna vinsælu Hæ Gosi!  Sem leikstýrt er af Arnóri Pálma Arnarsyni,  en Arnór hefur leikstýrt og skrifað handrit að öllum seríunum þremur.

Sem fyrr er sögusviðið Akureyri og fjalla þættirnir um bræðurna Víði og Börk og fólkið í lífi þeirra.

Leikarar eru m.a. þau Helga Braga Jónsdóttir, María Ellingssen, Hannes Óli Ágústsson, Hjálmar Hjálmarsson, Árni Pétur Guðjónsson, Kjartan Guðjónsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson.

Sjáðu stikluna hér að neðan:

Arnór Pálmi segir í samtali við kvikmyndir.is að upphaflega hafi ekki staðið til að gera þriðju seríuna. Menn hafi verið farnir að snúa sér að öðrum verkefnum þegar Skjár einn hafði samband og vildi fá nýja seríu til sýninga, eftir velgengni síðustu seríu.

Fyrsta serían var frumsýnd haustið 2010, önnur serían haustið 2011 og þessi nýja sería verður frumsýnd þann 31. Janúar nk.  „Við vildum eyða meiri tíma núna í þróun handritsins og ákváðum því að fresta frumsýningu fram yfir áramót. Við erum mjög stolt af þessari seríu, þetta er skref fram á við hvað handritið og allt hitt varðar. Við erum að hitta naglann á höfuðið í útfærslu á ýmsum hlutum, og þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt,“ segir Arnór Pálmi.

Fengu Önnu Svövu í handritsteymið

Þættirnir eru skrifaðir af teymi handritshöfunda sem samanstendur af Arnóri sjálfum, kvikmyndagerðarmanninum Baldvini Z., Katrínu Björgvinsdóttur og gamanleikkonunni Önnu Svövu Knútsdóttur. „Við fengum Önnu Svövu núna með í handritsteymið. Hún er reynslubolti þegar kemur að því að skrifa grínþætti og það kom mjög vel út að hafa hana með.
Við Íslendingar eru alltaf að læra betur og betur á svona handritaskrif, og erum farin að gera þetta meira og meira í teymisvinnu, eins og hefur tíðkast erlendis.“

Arnór segir að á undan fyrsta þættinum, verði sýndur upprifjunarþáttur, svo fólk geti sett sig betur inn í hvað hefur verið að gerast. Menn ættu þó ekki að þurfa nema einn þátt til að detta inn í atburðarásina. Fyrsti þátturinn verður í opinni dagskrá, en serían verður svo sýnd í lokaðri dagskrá Skjás eins.

Aðspurður segir hann að þættirnir séu í ætt við Clown þættina dönsku og Curb Your Enthusiasm, í bland við þætti eins og Modern Family, til að gefa mönnum smá hugmynd um tóninn í þáttunum.

„Þetta er allt á svona asnalegum nótum, og svo óþægilega kjánalegt að það er fyndið.“

Björn Jörundur átti hugmyndina að því að leika sjálfan sig

Arnór segir að í seríunni verði flakkað fram og til baka í tíma, og nýjar persónur verði kynntar til sögunnar.  Þar á meðal er tónlistarmaðurinn og leikarinn Björn Jörundur Friðbjörnsson úr hljómsveitinni Ný dönsk, sem leikur sjálfan sig í þáttunum.

„Björn kom fram í síðasta þættinum í annarri seríunni. Þá voru persónur Hjálmars og Hannesar Óla að stinga af til Brasilíu. Þeir ætluðu að kaupa sér bát og fara þar í útgerð og þá var talað mikið um Bjössa, sem kom svo í ljós að var Björn Jörundur. Svo stækkaði sú hugmynd núna í þessari seríu, að Björn léki sjálfan sig í þáttunum.“

Hann segir að Björn hafi sjálfur átt hugmyndina að því að leika sjálfan sig í þáttunum. „Við tæklum mikið hann sjálfan, Ný dönsk og fleira, og hann fer ekkert endilega mjúkum höndum um sjálfan sig.“

Tökum á þáttunum lauk í byrjun nóvember, eftir sex vikna ferli.

Spurður að því hvort að jafnvel væri von væri á fleiri seríum af Hæ Gosa, útilokar Arnór það ekki, það hafi vissulega verið rætt í handritsferlinu, en þau hafi þurft að stoppa ferlið af þar sem ekki var samið nema um 8 þætti. Hann segir að þættirnir endi þannig að margt sé óútskýrt í lok áttunda þáttar.

Nýir þættir með Garðari Cortez í vinnslu

Arnór er annars þessa dagana að vinna að nýjum gamanþáttum sem gerast úti í Danmörku sem fjalla um fólk sem flytur til útlanda á vit ævintýranna. Það eru þau Anna Svava Knútsdóttir og Garðar Cortez sem fara með aðalhlutverk í þeim þáttum.

Arnór hvetur að lokum fólk til að horfa á nýju seríuna, en ef menn vilja er hægt að rifja upp fyrri seríur á DVD eða á VOD.