Hjálp og Skuld óvæntir smellir í Bandaríkjunum

Útlit er fyrir það að myndirnar The Help og The Debt muni tróna á toppi aðsóknarlistans í Bandaríkjunum og Kanada yfir helgina, og slá hrollvekjutryllunum Apollo 18 og Shark Night 3D við.

Help virðist hafa slegið óvænt í gegn í Bandaríkjunum og stefnir í að verða fyrsta myndin á þessu ári sem er í þrjár helgar í röð í efsta sæti aðsóknarlistans. Búist er við að myndin þéni um 17 milljónir Bandaríkjadala yfir helgina, en það er fjögurra daga helgi í Bandaríkjunum, svokölluð Labor Day weekend. Samanlagt er búist við að The Help hafi þénað 120 milljónir dala frá frumsýningu.
The Debt, sem gefin er út af Focus Features og Miramax, er eins og The Help, að ná betri árangri en framleiðendur bjuggust við. Myndin var frumsýnd á miðvikudaginn síðasta og er með bresku leikkonunni Helen Mirren í aðalhlutverki. Myndin þénaði 4,5 milljónir dala frá miðvikudegi til föstudags.
The Debt mun líklega taka annað sætið á aðsóknarlistanum, með 12 milljónir dala í tekjur, þrátt fyrir að vera sýnd í mun færri bíósölum en samkeppnismyndirnar, eða aðeins 1.826 sölum. Samanlagt gæti myndin þénað 14 milljónir dala frá miðvikudegi til mánudags.
Vísindatryllirinn Apollo 18, frá Weinstein Co., og Shark Night, voru ekki að heilla áhorfendur eins mikið og framleiðendur höfðu vonað, og talið er að þær þéni hvor um sig um 10 milljónir dala yfir helgina.
Framleiðslukostnaður Apollo 18 var einungis 5 milljónir dala, og því ekki um neitt áfall að ræða fyrir framleiðslufyrirtækið, Weinstein Co., en það er þó áhyggjuefni fyrir félagið að þetta er þriðja myndin í röð frá þeim sem veldur vonbrigðum í miðasölunni.