Hluti af endurreisn Cage

Kvikmyndin Dream Scenario eftir Norðmanninn Kristoffer Borgli, 38 ára, átti upphaflega að vera með Adam Sandler í aðalhlutverkinu en ekki Nicolas Cage.

„Á tímabili héldum við að við myndum gera þetta með Adam, en svo vegna ýmissa ástæðna æxlaðist það öðruvísi,“ segir Borgli í samtali við vefsíðuna Screen Daily. „Það leiddi okkur til Nicolas, sem hefur einstakan sess í bíómenningunni og okkur fannst passa myndinni mjög vel,“ bætir Borgli við en myndin er gerð af framleiðslufyrirtækjunum A24 og Square  Peg, sem kvikmyndagerðarmaðurinn Ari Aster rekur með hinum danska Lars Knudsen.

Fengið mikið lof

Cage fékk mikið lof þegar myndin var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í september sl. og rætt var um frammistöðuna sem hluta af einskonar endurreisn á ferli leikarans – en hann hefur einnig fengið góða dóma undanfarið fyrir myndir eins og Pig, The Unbearable Weight Of Massive Talent og sem Dracula í Renfield.

Dream Scenario (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.9
Rotten tomatoes einkunn 91%

Líf fjölskyldumannsins heillum horfna Paul Matthews fer allt á hvolf þegar milljónir ókunnugra fara skyndilega að sjá hann í draumum sínum. En þegar þessar birtingarmyndir breytast í martraðir neyðist Paul til að horfast í augu við nýfengna frægð. ...

Þetta var frammistaða, segir Borgli, sem við byggðum upp í sameiningu.  „Hann sagðist vilja láta mig halda á fjarstýringunni, láta mig ýta á alla takkana og kannski leysa eitthvað nýtt úr læðingi,“ bætir hann við.  „Það var þó ekki alveg það sem gerðist – hann á mikið í persónunni sjálfur – en hann vildi endilega vinna með mér að því að finna mögulega eitthvað nýtt.“

Um persónuna og tilurð hennar segir Borgli á Cooming Soon vefnum að persónan hafi átt að vera ofurvenjuleg, einhver sem væri hálf vandræðalegur og óframfærinn, maður sem væri ekki mikið karlmenni. „Verkefnið að gera þetta með Nicolas Cage, sem er mögulega einn af því fólki á jörðinni sem auðveldast er að þekkja […] og er með náttúrulega útgeislun, varð mikil áskorun. Við reyndum að hugsa okkur hvernig Paul Matthews gæti orðið til? Það er eins og að fara gegn öllu því sem Cage er þekktur fyrir og eins og hann sagði sjálfur, þetta er persóna sem er eins ólík mér og hægt er.“

Hluti af því hvernig þeir tækluðu þetta var að láta Cage hverfa að einhverju leiti. Í kvikmyndinni er hann sköllóttur, hann er í ofurvenjulegum pabbafötum. Hann er jafnvel með gervinef alla myndina. „Öll þessi smáatriði hjálpuðu til við að gera persónu sem gæti verið einhver sem maður hefði ekki séð áður.“

Hluti af maraþoni

Borgli ólst upp við Cage myndir eins og Vampire´s Kiss og Raising Arizona.  Hann á erfitt með að trúa að hann sé núna einn af leikstjórum leikarans. „Það er heiður að vera hluti af verkum hans og arfleifð. Sú tilhugsun að Dream Scenario gæti orðið hluti af Nicolas Cage maraþoni í framtíðinni er vægast sagt frekar spennandi,“ segir Borgli að lokum.