Hollt að hafa efasemdir í leiklistinni

„Í leiklistinni fær maður alveg djúpar efasemdir um til hvers í andskotanum við séum að þessu en síðan kemst ég að því að það er ekkert merkilegra heldur en sköpun; að búa til eitthvað, segja sögur og miðla sögum. En mér finnst það á móti frekar hollt að hafa efasemdirnar um hvað þetta er og til hvers. Það hefur alltaf áhrif á hvað það er sem maður býr til eða hvernig maður nálgast þetta.“

Þetta segir Lára Jóhanna Jónsdóttir leikkona, en hana þekkja margir úr Undir trénu, Lof mér að falla og Ófærð. Lára var á dögunum gestur, ásamt Ingvari E. Sigurðssyni, á pallborðsumræðu á vegum miðstöðvarinnar Reykjavík Creative Hub. Til umræðu þar var leiktækni, reynslusögur, rauð flögg og ýmist fleira sem leiklistinni tilheyrir.

Þeir Atli Óskar Fjalarsson og Elías Helgi Kofoed-Hansen saman standa að miðstöðinni, sem í grunninn er hugsuð fyrir upprennandi listafólk jafnt og áhugafólk um hina ýmsu vinkla kvikmyndagerðar.

Sjúk í leikstjóra

Þegar Lára er spurð hvað það var sem kom henni upphaflega í leiklistina segir hún fagið vera eitthvað sem hún ætlaði sér aldrei að velja. „Ég villtist einhvern veginn alveg inn í þetta, í hreinskilni sagt. Ég var í stúdentaleikhúsinu og eignaðist svo góða vini að sækja um í leiklistarskólann.

Ég ætlaði aldrei með þeim en ég slysaðist heppilega með þeim og er rosa glöð með þá ákvörðun í dag. En þetta var eiginlega alveg óvart, algjört slys,“ segir leikkonan.

Hvað er það við handrit eða verkefni sem heillar. Er það sagan í heild eða fókus á karakterinn sjálfan?
spyr Atli gestina sína.

„Ég er svolítið sjúk í leikstjóra og met það út frá því, hvort það er einhver sem mig langar að eiga kreatívan díalog við,“ svarar Lára. „Þá legg ég mig fram um að reyna hvað sem er til að fá að vera með í verkefninu. Það hefur verið það sem gefur mér mest, þegar manni líður eins og verkefnið hafi verið eitthvað og gerir eitthvað fyrir mann.“

Lára Jóhanna í Lof mér að falla.