Hvalfirði spáð góðu gengi í Cannes

Börkur Gunnarsson kvikmyndaleikstjóri og blaðamaður á Morgunblaðinu er staddur á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi og hefur skrifað daglega pistla frá hátíðinni í Morgunblaðið. 

hvalfjord

Í grein eftir hann í blaðinu í dag, og birt er á mbl.is, segir hann að góður rómur hafi verið gerður að íslensku stuttmyndinni Hvalfjörður sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes í gær. Í greininni segir Börkur að myndin hafi spurst vel út og menn telji hana eiga möguleika á að vinna stuttmyndakeppnina.

Úrslit í öllum flokkum á hátíðinni verða kynnt nú um helgina.

Íslenskar stuttmyndir hafa áður verið sýndar á Cannes en árið 2008 keppti mynd Rúnars Rúnarssonar, Smáfuglar. Rúnar er einmitt einn framleiðenda Hvalfjarðar.

Smelltu hér til að lesa viðtal við leikstjóra Hvalfjarðar hér á kvikmyndir.is

Í Morgunblaðsgreininni segir einnig að búið sé að tilkynna úrslitin í nokkrum hliðarkeppnum eins og í stuttmyndakeppninni sem fransk-íslenska stuttmyndin Víkingar eftir leikstjórann Magali Magistri var í. Stuttmynd Magali vann áhorfendaverðlaunin í gær en þýsk stuttmynd vann aðalverðlaunin.

Stuttmynd hennar fjallar um víking árið 1000 og nútíma víking í samtímanum og hvernig svipuð barátta þeirra fyrir fjölskyldunni er leyst með öðrum hætti á öðrum tímum. Allir leikarar myndarinnar og allt kvikmyndateymið eru Íslendingar utan leikstjórinn sjálfur sem er 34 ára gömul frönsk kona.

Hér er hægt að lesa meira um Víkinga á kvikmyndir.is og sjá sýnishorn úr myndinni.