Írönskum verðlaunaleikstjóra bannað að gera myndir og ferðast

Kvikmyndahátíðin í Feneyjum byrjaði í gær, miðvikudag 1. september, og stjörnur og bransafólk flykkist á staðinn. Einn er þó sá maður sem ekki mætir á staðinn, en það er íranski verðlaunaleikstjórinn Jafar Panahi, en honum hefur verið bannað af yfirvöldum að fara úr landi.
Panahi var sleppt úr fangelsi nýlega, eftir að hafa dúsað þar í 88 daga.
Mynd hans The Accordion verður sýnd á kvikmyndahátíðinni, en Panahi sagði í yfirlýsingu til hátíðarinnar að yfirvöld hefðu bannað honum að vinna að kvikmyndagerð síðastliðin fimm ár.
„Þó að ég sé nú laus úr fangelsi, þá má ég ekki ferðast út úr landinu og fara á kvikmyndahátíðir,“ sagði leikstjórinn í yfirlýsingunni.
„Þegar leikstjóra er bannað að gera myndir, þá er eins og að hugur hans sé í fangelsi. Hann er kannski ekki læstur í litlum klefa, en hann þvælist um í ráðaleysi í mun stærri klefa,“ bætti Panahi við í yfirlýsingunni.
Leikstjórinn er fylgismaður stjórnarandstöðuleiðtogans Mirhossein Mousavi sem bauð sig fram í forsetakosningunum á síðasta ári. Panahi var sleppt gegn tryggingu í maí sl. eftir að hafa verið í hunguverkfalli í fangelsinu í viku. Honum hafði þá verið haldið í 88 daga þar sem yfirvöld grunuðu hann um að ætla að gera mynd sem væri í andstöðu við stjórnvöld.
Panahi vann Camera d´Or verðlaunin í Cannes árið 1995 fyrir White Balloon, og fimm árum síðar vann hann Gullna ljónið í Feneyjum fyrir The Circle.
The Acccordion var gerð áður en Panahi var fangelsaður, og er níu mínútna löng og fjallar um tvo götutónlistarmenn í Teheran, höfuðborg Írans.