Íslensk mynd um tunglferðir – frumsýning á fyrstu stiklu

Ný íslensk heimildarmynd um ferðirnar til tunglsins verður frumsýnd þann 20. júlí næstkomandi, samtímis í Bíó Paradís og í sjónvarpi. Myndin heitir Af jörðu ertu kominn, eða Cosmic Birth á ensku, og leitast höfundar myndarinnar við að kafa dýpra í söguna af tunglferðunum en áður hefur verið gert.


„Flestar þær myndir sem garðar hafa verið um tunglferðirnar horfa mjög sterkt á þetta tæknilega, enda voru þessar ferðir gríðarlega stórt tæknilegt afrek. Við kjósum að horfa í þetta mannlega og jafnvel ljóðræna í þessum ferðum, hvernig þær breyttu mönnunum sem fóru og ekki síður hvernig þær breyttu skynjun okkar sem eftir sátum á heimili okkar í alheiminum,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, handritshöfundur myndarinnar og safnstjóri The Exploration Museum í samtali við Kvikmyndir.is en safnið framleiðir myndina í samstarfi við Colorwaves. 

Fóru að hitta tunglfarana


Örlygur og Rafnar Orri Gunnarsson leikstjóri myndarinnar hafa síðustu mánuði ferðast ásamt Hlyni Þór Jenssyni kvikmyndatökumanni um sex fylki Bandaríkjanna til að hitta tunglfarana og afkomendur þeirra, auk þess sem mikið efni hefur verið tekið upp hér á landi í heimsóknum tunglfaranna síðustu 6 ár. 

Rætt við tunglfara


„Það var einstaklega gaman að ræða við Mark Armstrong, son Neil Armstrong sem fyrstur steig fæti á tunglið. Neil var kominn með flugmannsréttindi áður en hann tók bílprófið, og leit fyrst og fremst á sig sem flugmann. Því fannst honum fyrsta skrefið sem heimsfrægt er orðið ekki svo merkilegt, heldur flugið sjálft til tunglsins. Flugmenn eru stoltir af góðri lendingu en ekki endilega af því að stíga út úr vélinni. En hann skildi auðvitað sögulegt mikilvægi þessa skrefs,“ segir Rafnar.


Í myndinni er einnig rætt við Vilborgu Dagbjartsdóttur skáldkonu sem skrifað hefur mikið um tunglið. „Það er eitthvað svo fallegt við jafnvægið á milli jarðarinnar og tunglsins og greinilegt að Vilborg hefur mikið hugsað um það á sinni lífsleið,“ segja þeir félagar. 

Frumsýnd á 50 ára afmælinu


Myndin verður eins og áður sagði frumsýnd þann 20. júlí. en þann dag verða 50 ár frá fyrstu skrefum Neil Armstrong og Buzz Aldrin á tunglinu, en í kjölfar þeirra fóru 8 geimfarar til viðbótar til tunglsins.


„Það er okkur mikill heiður að frumsýna stiklu myndarinnar í dag á kvikmyndir.is og mikilvægt fyrir okkur sem erum að koma inn í þessa grein að hér sé svo öflugur vettvangur fyrir umfjallanir um kvikmyndir og kvikmyndagerð. Í kjölfar frumsýningar hér heima munum við ferðast með myndina um Bandaríkin og er þegar búið að staðfesta sýningar  í New York, Denver og San Diego,“ segir Örlygur.

Myndin er 57 mínútur að lengd og er frásögnin á íslensku en viðtöl á ensku. Frekari upplýsingar er að finna á facebook síðu myndarinnar fb.com/cosmicbirthfilm og á vefnum cosmicbirth.org

Sjáðu stikluna hér að neðan: