Eins og Íslendingar hafa vanist með teiknimyndir í bíó þá er DC League of Super-Pets sýnd bæði með íslensku og ensku tali. Auk þess er búið að gefa myndinni íslenska heitið: Ofurgæludýrabandalagið.
En hverjir ætli hafi verið valdir til að ljá ofurdýrunum rödd sína?
Orri er Krypto
Fyrstan ber að telja Orra Huginn Ágústsson sem fer með hlutverk ofurhundsins Krypto, besta vinar Súpermanns. Orra ættu menn að þekkja úr sjónvarpsþáttunum Pressan og Fangar m.a.
Í ensku útgáfunni talar Dwayne Johnson fyrir Krypto.
Hjálmar er Ace
Hinn gamalreyndi „ekkifréttamaður“ Hjálmar Hjálmarsson fer með hlutverk leðurblökuhundsins Ace. Hjálmar þarf ekki að kynna. Hann hefur leikið fjölda hlutverka í gegnum tíðina og nú nýlega í t.d. Síðustu veiðiferðinni.
Grínistinn Kevin Hart talar fyrir Ace í bandarísku útgáfu myndarinnar.
Sigríður er PB
Þá fer Sigríður Eyrún Friðriksdóttir með hlutverk PB. Sú sem upprunalega lék það hlutverk var Vanessa Bayer. Sigríður er bæði leik- og söngkona en margir þekkja hana til dæmis úr Eurovision undankeppninni með lagið Lífið kviknar á ný.
Edda og Kate eru LULU
Með hlutverk LULU fer Edda Björg Eyjólfsdóttir. Hana allir ættu að þekkja úr ólíkum verkefnum, en af þeim nýjustu má nefna Allra síðustu veiðiferðina, Saumaklúbbinn og Síðustu veiðiferðina, að ógleymdum sjónvarpsþáttunum frábæru Stelpunum.
Kate McKinnon er LULU í upprunalegu útgáfu myndarinnar.
Ja Ja Ding Dong leikarinn
Með hlutverk Lex Luthor, erkióvinar Súpermanns, fer svo Hannes Óli Ágústsson sem slegið hefur í gegn í hlutverki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi forsætisráðherra, og í Evróvisjónmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, þar sem hann krafðist þess ítrekað að lagið JaJa Ding Dong yrði sungið.
Í bandarísku útgáfunni talar Marc Maron fyrir Lex Luthor.
Aðrir íslenskir leikarar eru:
CHIP – Björgvin Franz Gíslason
MERTON – Hanna María Karlsdóttir
SUPERMAN – Arnar Dan Kristjánsson
BATMAN – Valdimar Örn Flygenring
Þá fara þessi leikarar með smærri hlutverk í myndinni: Andrea Ólafsdóttir, Árni Beinteinn Árnason, Birgir Steinn Stefánsson, Bjartmar Þórðarson, Davíð Guðbrandsson, Hrund Ölmudóttir, Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, Ívar Baldvin Júlíusson, Kolbrún Helga Friðriksdóttir, Kristinn Sigurpáll Sturluson, Lísa Bríet Malmquist, Rakel Björk Björnsdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir, Sigrún Elsa Bjarnadóttir og Þorsteinn Gunnar Bjarnason.
Kristinn með mörg hlutverk
Leikstjóri íslensku útgáfunnar er Kristinn Sigurpáll Sturluson. Hann sá einnig um upptökur og hljóðblöndun. Þýðingu annaðist Margrét Örnólfsdóttir. Umsjón var í höndum Sigrúnar Elsu Bjarnadóttur og hljóðverið var Stúdíó Sýrland.