Besti vinur mannsins

Hundurinn, besti vinur mannsins, og fleiri skemmtileg dýr verða í aðalhlutverkinu í íslenskum bíóhúsum á morgun. Þrjár nýjar kvikmyndir fyrir alla fjölskylduna verða þá frumsýndar og ferfætlingar og furðuverur láta ljós sitt skína svo um munar.

Myndirnar eru Dog, eða Hundur, með Channing Tatum í aðalhlutverki, Klandri, um seppa sem þarf að venjast nýjum lífsstíl og svo mynd um sérkennilega en áhugaverða blöndu, Hanahérinn og myrkrahamsturinn.

Við elskum hunda

Tatum segir í samtali við Entertaiment Weekly að hann og meðleikstjórinn, vinur hans og Magic Mike samstarfsmaðurinn Reid Carolin, hafi verið sammála um að aðalatriðið væri að hundurinn myndi lifa út alla myndina. „Við elskum hunda,“ segir Tatum. „Það er ein af dauðasyndunum … að deyða það eina sem allir dýrka og dá í kvikmynd. Dreptu bara ekki hundinn – þú mátt deyða hvað sem er annað.“

Saman á ferðalagi.

Myndin, sem er dæmigerð félagamynd (e. buddy comedy), segir frá ævintýrum þjóðvarðliðans Briggs sem fær það verkefni að fara með hina frekar erfiðu og óstýrilátu tík Lulu í ferðalag til að hún geti verið viðstödd útför þjálfara síns.

Hundarnir sem leika Lulu í myndinni eru þrír og heita Lana, Britta og Zuza. Þeir eru allir af tegundinni Belgian Malinois, eða belgískur fjárhundur, eftir því sem Kvikmyndir.is kemst næst.

Byggir á sambandi Tatum og hundsins hans

Myndin er lauslega byggð á sambandi Tatum og ástkærs seppa hans af tegundinni Pitbull-Catahoula en hann drapst árið 2018.

„Myndin byggir á sambandinu og tengslunum á milli mín og Lulu. Ég eignaðist hana þegar hún var sex vikna gömul. Hún var eins og barnið mitt, skugginn minn – hún var mér allt. En þetta er mjög ólík saga,“ útskýrir Tatum.

Þó að í myndinni sé ekki beint sögð sönn saga úr lífi Tatum, og persóna Lulu sé ólík persónu hinnar raunverulegu Lulu, þá er eitt atriði sem minnir sérstaklega á gömlu góðu vinkonu Tatums.

Atriðið fjallar um það þegar þau Briggs og Lulu taka stutt pissustopp úti í vegkanti. Eftir það stingur Lulu af út í buskann. Þegar hún snýr aftur er hún með fuglsfjaðrir í kjaftinum. „Mín Lulu var veiðihundur. Ég veiði ekki, þannig að hún fékk í raun aldrei að gera það sem eðlið bauð henni. Hún vildi líklega elta og veiða allt sem var ekki hundur og var ekki fimm sinnum stærra en hún var sjálf.“

Sýnd í Kanada og á Netflix

Teiknimyndin Trouble, eða Klandri eins og hún heitir á íslensku, fjallar um samnefndan hund sem býr við lúxus og dekur allt þar til eigandi hans deyr. Nú þarf hann að fara út í lífið og þar er ekki tekið á honum með neinum silkihönskum. Hann hittir stelpu með stóra drauma, en enga peninga til að láta þá verða að veruleika. Lífið er framundan en ekki án erfiðleika.

Leikstjóri er Kevin Johnson sem einnig leikstýrði The Jungle Book árið 2014.

Það er gaman að segja frá því að teiknimyndin var upphaflega frumsýnd í Kanada fyrir tveimur árum, en hún fór síðar á Netflix í Bandaríkjunum.

Fullt af góðri tónlist

Í Klandra hljómar fullt af góðri tónlist og hér fyrir neðan er listinn yfir helstu lög og flytjendur:
All About Us – Julia Michaels og Big Sean
Chaotic Perfection – F Macchia
Bad And Dangerous – Minou Monet
Back To Earth – Lucy Hale
Never Never – Stephen Mcintosh og Joseph Charles
Made For Two – pJason Mraz og Lucy Hale
Grouting King – Manny Fly, Colin Badman og Mad Dog Sly
Back To Earth – Lucy Hale og Big Sean
Home Is Where The Heart Is – Choc og Snoop Dogg

Hálfur kjúklingur

Opinber söguþráður Hanahérans og myrkrahamstursins er sem hér segir:

Ung hetja, sem er hálfur kjúklingur og hálfur héri, þráir ekkert frekar en að lynda við alla og vera elskaður þrátt fyrir að vera öðruvísi en aðrir. Hann er sólginn í ævintýri, þrátt fyrir að vera eilítið klunnalegur. Þegar frændi hans, sem er mesti þrjótur konungsríkisins, sleppur úr fangelsi og hótar að velta föður hans úr sessi, þá grípur hanahérinn til sinna ráða ásamt skjaldbökunni Abe og skúnknum Meg, sem er meistari í bardagalistum…