Jack Sparrow mætir í grunnskóla eftir bréf frá nemanda

Kvikmyndaleikarinn Johnny Depp birtist öllum að óvörum í sjóræingjabúningnum sem hann klæðist í Pirates of the Carribean myndunum, í breskum skóla í síðustu viku.

Beatrice Delap, 9 ára, skrifaði bréf til Captain Jack Sparrow, persónu Depp í Pirates of the Carribean myndunum, og bað hann um hjálp við að gera uppreisn gegn kennurunum í Meridian grunnskólanum í Greenwich í suð-austur London.

Depp, sem er einmitt staddur í suð-austur London við tökur á Pirates of the Carribean myndinni; On Stranger Tides, gaf sér tíma til að koma í skólann í 10 mínútur, öllum til mikillar undrunar.

Depp kom inn, með bréfið í hendinni, og kallaði í Delap, og faðmaði hana að sér, en bað hana að endurhugsa allar fyrirætlanir um uppreisn í skólanum. „Kannski við ættum ekki að gera uppreisn í dag, þar sem það er of mikið af lögregluþjónum hér fyrir utan að fylgjast með mér,“ sagði Depp, sem sjálfur á tvö börn.