Kynning á Marvel ofurhetjumyndinni Logan, síðustu myndinni í Wolverine bálknum, stendur nú sem allra hæst en myndin verður frumsýnd 3. mars nk. Stutt stikla var frumsýnd fyrr í haust, en framleiðendur hafa síðan þá sent frá sér ýmsar ljósmyndir til að kynda undir áhuga á myndinni.
Nýjasta ljósmyndin úr herbúðum Logan er mynd af hendi illmennisins í myndinni, en myndinni var fyrst deilt á Intagram reikningi Logan. Um er að ræða járnhendi sem leggst yfir bílhurð.
Í stiklunni sást svipuð hendi sem tilheyrði Boyd Holbrook, sem leikur þorparann Donald Pierce í myndinni.
Því má leiða getum að því að þessi hönd tilheyri honum, en auðvitað gætu hún einnig tilheyrt einum af Reavers, hópi illmenna í myndini, sem hafa það að markmiði að gereyða stökkbreyttum og eru að hluta vélar og að hluta menn ( cyborg ), þannig að þeir gætu haft járnhendur.
Eins og fyrr sagði er Logan þriðja Wolverine myndin í X-Men myndaflokknum. Fyrsta myndin var X: Men Origins: Wolverine. Þá kom The Wolverine, og Logan verður lokamyndin.
Í myndinni kemur fram ný persóna, X-23, sem er einskonar kvenkyns Wolverine, leikin af Dafne Keen.
Hugh Jackman leikur Wolverine sjálfan, en hann lék persónuna fyrst í X-Men mynd Bryan Singer árið 2000. Síðan þá hefur hann leikið Wolverine í sjö myndum, auk þess að leika gestahlutverk X-Men: First Class.
Síðasta staka Wolverine mynd, The Wolverine, þénaði 414 milljónir Bandaríkjadala um heim allan.
Auk Jackman, Holbrook og Keen, þá leika Stephen Merchant, Doris Morgado, Elizabeth Rodriguez, Richard E. Grant og Patrick Stewart helstu hlutverkin í myndinni.
James Mangold, sem einnig leikstýrði The Wolverine, leikstýrir.