Roskinn Prófessor X

James Mangold, leikstjóri Logan, þriðju Wolverine myndarinnar, deildi í dag fyrstu ljósmyndinni af Patrick Stewart, öðru nafni Professor X úr X-men, úr Logan, og óhætt er að segja að Prófessorinn sé rúnum ristur, og orðin rosknari en við erum vön því að sjá hann.

Á fimmtudaginn birtum við fyrsta plakatið úr myndinni og upplýsingar um efni myndarinnar, en þar kemur fram að Wolverine sjálfur sé farinn að eldast, heilsu hans hefði hrakað, hann lifði við stöðuga verki, og hann glímdi við drykkjuvandamál.

mangold_-_screenshot_Síðan tilkynnt var að Patrick Stewart yrði meðal leikenda í Logan, sem verður loka Wolverine myndin, þá hafa menn velt fyrir sér hvert hlutverk hans yrði í myndinni. Það eina sem kannski má velta fyrir sér útfrá myndinni, er hvort að þetta verði svanasöngur bæði prófessors X og Wolverine.

Það litla sem látið hefur verið uppi um Prófessorinn og hlutverk hans í myndinni er að hann sé ekki í jafnvægi ( unstable ) og þá er spurning hvort að þar sé átt við bæði líkama og sál.

Þetta kemur þó allt í ljós þegar myndin verður frumsýnd 3. mars á næsta ári.