Joaquin Phoenix í nýrri mynd?

Eins og margir muna eflaust eftir ‘hætti’ Joaquin Phoenix að leika til að einblína á rappferil sinn, en eins og mörgum grunaði var um eins konar grín að ræða. Allt var þetta hluti af grín-heimildamynd eftir Casey Affleck sem gerði allt vitlaust í fyrra, en að henni undanskilinni hefur Phoenix ekki leikið í kvikmynd í rúm 3 ár, eða síðan Two Lovers kom út árið 2008.

Samkvæmt Deadline íhugar Phoenix nú að demba sér í leiklistina á ný, en honum á að hafa verið boðið hlutverk í Abraham Lincoln: Vampire Hunter. Eins og titill myndarinnar gefur til kynna fjallar hún um fyrrum forseta Bandaríkjanna og ævintýrum hans sem vampírubana. Phoenix færi ekki með hlutverk Lincolns, en leikarinn Benjamin Walker hreppti það, heldur mannsins sem kennir forsetanum hvernig skal drepa blóðsugur.

– Bjarki Dagur