John Carter setur nýtt met

…sem mesta flopp allra tíma. Ekki beint eftirsóknarverður titill en nú er áætlað að John Carter muni tapa um 200 milljónum Bandaríkjadala og setja þar með nýtt met í mesta tekjutapi á einni kvikmynd fyrr og síðar. Samkvæmt Guiness Book of World Records á myndin Cutthroat Island frá árinu 1995, með þeim Geena Davis og Matthew Modine í aðalhlutverkum, metið, en sú mynd tapaði um 147 milljónum dala samkvæmt lista Wikipedia yfir tekjulægstu kvikmyndir sögunnar. Aðrar myndir sem töpuðu yfir 140 milljónum dala eru t.d. Eddie Murphy myndin, The Adventures of Pluto Nash, Sahara með Matthew McConaughey og Penelopé Cruz og nú nýlegast Mars Needs Moms.

Deila má hins vegar um trúverðugleika listans á Wikipedia þar sem búið er að aðlaga dollarann við verðbólgu ársins 2012. Þar er einungis tekin með sala í kvikmyndahúsum, en ekki sala á DVD eða sjónvarpsrétti. Einnig er oft mjög erfitt að vita nákvæmlega hversu miklum fjárhæðum hefur verið eytt í kvikmyndir þar sem Hollywood er aldrei með allt bókhald opinbert.

Þó er ekki hægt að kenna leikstjóranum Andrew Stanton eða lélegri aðsókn á John Carter um hið mikla tap sem framleiðendur Walt Disney eru nú að horfast í augu við. Myndin hefur nú þegar þénað yfir 180 milljónir Bandaríkjadali sem verður að teljast nokkuð gott, en þegar kostnaður við gerð myndarinnar er talinn vera yfir 350 milljónir með auglýsinga- og markaðskostnaði er það hvergi nærri nóg og þykir því ljóst að John Carter muni fara á lista hjá Hollywood’s Hall of Shame. Merkilegt þykir að á listanum yfir 15 tekjulægstu myndir allra tíma hafa sex þeirra verið gerðar eftir árið 2005, en kvikmyndaverin eru að keppast við að framleiða sem flottustu myndirnar með bestu brellunum sem kosta mikinn pening á meðan ekki þykir grundvöllur fyrir slíku… ekki nema þú sért James Cameron.