Jói og baunagrasið verður hasarmynd

Fyrsta stiklan var að detta á netið fyrir ævintýramyndina Jack the Giant Killer, eftir Bryan Singer, sem byggir á ævintýrinu vel þekkta Jói og baunagrasið. Nicholas Hoult (Beast úr X-Men: First Class) fer með hlutverk Jóa, fátæks sveitadrengs, sem áskotnast töfrabaunir nokkrar, og fær viðvörun um að þær séu stórhættulegar og megi aldrei koma nálægt vætu. Að sjálfsögðu gleymir Jói þessu, og baunirnar spretta upp og taka húsið hans með sér, og Ísabellu prinsessu (Eleanor Tomlinson) sem af einhverjum ástæðum var stödd heima hjá honum. Jói heldur af stað að bjarga prinsessunni, en lendir í miklum ævintýrum á leiðinni.

Með önnur helstu hlutverk fara Ewan McGregor, Stanley Tucci, Warwick Davis, Ian McShane, Bill Nighy, Ewan Bremner og Eddie Marsan. Myndin kemur út næsta sumar. Þetta verður eflaust ágætis ævintýramynd, en… það er ekki mikið þarna sem maður hefur ekki séð áður. Brellurnar litu heldur ekki neitt sérlega vel út en það á örugglega eftir að skána. Og ef að söguþráðurinn og húmorinn í myndinni verður í lagi á enginn eftir að pæla í því hvort sem er. Hvað finnst ykkur?