Fyrir nokkru stóð til að gerð væri Justice League mynd og var verkefnið komið það langt að leikstjórinn Martin Campbell var ráðinn sem og nokkrir helstu leikararnir. Justice League er eitt vinsælasta og stærsta ofurhetjulið sem þekkst hefur, en í röðum þeirra eru Batman, Superman, Wonder Woman, Green Lantern, The Flash og fleiri.
Eftir mikla óánægju frá aðdáendum sem og erfiðleikum við að fjármagna myndina var ákveðið að hætta við verkefnið. Warner Bros tilkynntu nýlega að þeir hefðu byrjað frá byrjun og ætluðu sér að gefa út Justice League mynd á næstu árum.
Einstaklingsmyndir um margar af ofantöldum ofurhetjum eru í framleiðslu, en þar má helst nefna The Dark Knight Rises, The Man of Steel og Green Lantern. Aðdáendur voru fljótir að spyrja hvort þessar myndir gerðust þar af leiðandi í sama heimi, og hvort Justice League myndi skarta þeim Christian Bale, Henry Cavill og Ryan Reynolds í hlutverkum sínum.
Ef marka má þá Zack Snyder, leikstjóra The Man of Steel, sem og Ryan Reynolds sem leikur Green Lantern í hinni væntanlegu spennumynd, er svo ekki. „Justice League verður sinn eigin heimur. Ég geri Superman í mínu horni, Chris [Nolan] gerir Batman í sínu horni, svo gera þeir öðruvísi Batman og Superman fyrir Justice League. Myndirnar munu ekki koma hvor annarri við.“ sagði Snyder.
Reynolds bætti við, „Justice League kemur mér ekkert við, ég hef ekki verið beðinn um að leika í henni.“ en hann hefur lýst því yfir að hann muni leika í að minnsta kosti tveimur Green Lantern myndum í viðbót. Eins og sumir hafa kannski tekið eftir hafa tökur hafist á spennuþáttum um kvenofurhetjuna Wonder Woman, en einn framleiðandi Justice League myndarinnar lét hafa eftir sér að þættirnir hefðu engin áhrif á myndina. „Það verður eins og þegar Superman Returns kom út, þá var Smallville í loftinu.“
Aðdáendur ættu því að vera kampakátir með að fá tvær útgáfur af öllum helstu ofurhetjunum á hvíta tjaldið, og bíða nú spenntir eftir að fyrstu fregnir af leikaravalinu berast.
– Bjarki Dagur