Kínversk krossferð Cage og Christensen

Leit er hafin að réttum tökustöðum í Kína fyrir Nicolas Cage myndina Outcast, en með honum í myndinni leikur Hayden Christensen, sem lék Anakin Skywalker í nýju Star Wars myndunum. Leikstjóri verður Nick Powell, en myndin er hans fyrsta alvöru leikstjórnarverkefni.

Myndin sem er kínversk meðframleiðsla, kemur samtímis í bíó í Kína og um allan heim í nóvember 2013. 

Þeir Cage og Christensen eiga að mæta til Yunnan í suð-vestur Kína í apríl nk. en þá hefjast tökur myndarinnar, sem mun gerast á 12. öldinni. 

Myndin er byggð á handriti James Dormer, sem skrifað hefur m.a. fyrir bresku njósnaþættina Spooks, og fjallar um tvo útjaskaða krossfara sem ákveða að reika austur á bóginn og enda í vesturhluta Kína, þar sem þeir lenda í rómantískum ástarsamböndum en mæta einnig fjandskap yfirvalda á svæðinu.

Myndin verður að 90% hluta mönnuð kínversku tökuliði og öðru starfsfólki, samkvæmt leikstjóranum.