Michael B. Jordan og félagar hans riðu ekki feitum hesti frá Fantastic Four ofurhetjumyndinni á dögunum, en hún var frumsýnd við heldur dræmari undirtektir í Bandaríkjunum en vonast var eftir. Það er þó ekki öll nótt úti enn fyrir Jordan, því enn hefur hann möguleika á að slá í gegn í miðasölunni á þessu ári, þegar hnefaleikamyndin Creed verður frumsýnd þann 25. nóvember í Bandaríkjunum.
Út er komið nýtt plakat og ný stikla úr myndinni, sem er með sjálfum Sylvester Stallone í hlutverki Rocky, en Jordan leikur son Appollo Creed, eins af andstæðingum Stallone úr Rocky myndunum.
Jordan leikur Adonis Johnson, sem þekkti aldrei hinn vel þekkta föður sinn, þar sem han dó í hnefaleikahringnum áður en Johnson fæddist. En hann er með hnefaleikana í blóðinu eins og faðir hans, og fer til Philadelphia til að biðja Rocky Balboa (Stallone) að gerast þjálfari sinn. Rocky er hikandi við að fara aftur í hnefaleikabransann, en hann heillast af styrk og ákveðni Adonis, sem sannfærir hann um að slá til.
Sjáðu plakatið hér fyrir neðan:
Leikstjóri er Fruitvale Station leikstjórinn Ryan Coogler.
„Að vinna með Stallone af því að við tókum allar hnefaleikasenurnar fyrst,“ sagði Jordan aðspurður í samtali við VH1 um uppáhalds andartökin við tökur myndarinnar. „Það hefði verið fáránlegt að taka upp drama atriðin og fara svo yfir í hnefaleikaatriðin, sem eru svo áköf atriði. En ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá, í fyrsta skipti sem við vorum í hringnum, þá var Rocky þarna, Sly, í horninu, og ég hugsaði „þetta er klikkað“. Það var líka í fyrsta skipti sem ég sló af einhverjum krafti held ég.“
Aðrir helstu leikarar eru Tessa Thompson, Phylicia Rashad og Anthony Bellew.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: