Klippir hasarmyndina Kate fyrir Netflix

Elísabet Ronaldsdóttir, einn færasti klippari landsins, er svo sannarlega merkt nokkrum stórum og svölum kvikmyndaverkefnum sem áætlað er að frumsýna á þessu ári. Fyrst ber að nefna Marvel-stórmyndina Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings (sem sýnd verður í júlí, að öllu óbreyttu) að ógleymdri hasarmyndinni Kate frá streymisþursanum Netflix, en þar fer Mary Elizabeth Winstead með titilhlutverkið.

Sögusvið spennumyndarinnar er Japan og segir frá leigumorðingjanum Kate, sem er í kröppum dansi og kapphlaupi við tímann eftir að henni er byrlað eitur. Með aðeins sólarhring eftir ólifaðan er ekki til neinna annarra ráða en að elta uppi óvini sína um götur Tokyoborgar í fullum gír.

Með önnur hlutverk í myndinni fara Woody Harrelson, Tadanobu Asano, Jun Kunimura og Michiel Huisman. Franski leikstjórinn Cedric Nicolas-Troyan (The Huntsman: Winter’s War) situr við stjórnvölinn, það er Netflix sem sér um dreifinguna á Kate en einn af framleiðendum er reynsluboltinn David Leitch, leikstjóri Deadpool 2, Atomic Blonde og John Wick.

Elísabet hefur gert garðinn frægan með stórvinsælum kvikmyndum, þar á þeim nokkrum ofantöldum frá Leitch og nýlega gamanmyndinni Playing with Fire. Hún hefur þó ekki eingöngu haldið sig við erlend verkefni á síðustu misserum og klippti einnig íslensku kvikmyndirnar Svanurinn, Vargur og heimildarmyndina Sólveig mín, um líf og ævi Sólveigu Anspach, leikstjóra og handritshöfundar.

Ekki er enn komin staðfest dagsetning á útgáfu Kate, en áætlað er að hún lendi á Netflix á komandi mánuðum.