Konurnar hlæja mest að Síðustu veiðiferðinni – „Femínískt brautryðjendaverk“

Almennar sýningar á gamanmyndinni Síðasta veiðiferðin hófust í gær og hafa viðtökur verið heldur jákvæðar. Myndin er gerð án opinberra styrkja og standa þeir Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson á bak við afraksturinn. Áratugareynsla þeirra beggja í kvikmyndagerð kom sér því vel en á meðal verka sem þeir hafa staðið að er heimildarmyndin Ham: lifandi dauðir frá árinu 2001.

Í samtali við Menninguna á RÚV segir tvíeykið að hugmyndin að Síðustu veiðiferðinni hafi verið samtíningur úr um tuttugu veiðiferðum sem þeir hafa upplifað í gegnum árin. „Við sýndum stiklu úr myndinni og það voru ansi margir sem höfðu samband og spurðu: „Voruð þið fluga á vegg í síðasta túr hjá okkur?““ segir Þorkell.

Þeir Örn Marinó og Þorkell – Mynd: RÚV/menning

Segja leikstjórarnir einnig að þrátt fyrir að myndin fjalli um hóp miðaldra karla og sé gerð af miðaldra körlum segja þeir að hún sé alls ekki eingöngu gerð fyrir slíkan hóp. Þá segir Örn Marinó að stemningin á prufusýningum hafi sýnt fram á að konurnar í salnum hlæji hæst.

„Það er erfitt að koma konum að í mynd um karlaveiðitúr en þær eru þarna og undantekningalaust eru þær handhafar valdsins. Ég og Hjálmar Hjálmarsson leikari stúderuðum þetta aðeins og komumst að þeirri niðurstöðu að þetta sé femínískt brautryðjendaverk. Ég stend 100% við það,“ segir Örn.

Tökudagar kvikmyndarinnar voru ekki nema sextán eða sautján að þeirra sögn og gengu hlutirnir létt og hratt fyrir sig. Með aðgang að laxveiðiá og veiðihúsi var ekki mikið mál að sannfæra leikarana um að taka þátt.