Kvikmyndahátíð úti á sjó

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Couch Fest Films, eða Sófa stuttmyndahátíðin, verður haldin hér á landi á laugardaginn næsta, þann 10. nóvember. Hátíðin er haldin árlega á heimilum ókunnugs fólks, eða öðrum heimilislegum stöðum, út um allan heim samtímis, á sama deginum, og er engin mynd lengri en 8 mínútur.
Hægt er að sækja um að fá að halda hátíðina heima hjá sér á heimasíðu hátíðarinnar, auk þess sem hver sem er getur sent inn myndir til þátttöku, sem svo er valið úr. Stuttmyndaunnendur koma sér síðan notalega fyrir uppi í sófa á sýningarstöðunum á laugardaginn og horfa á stuttmyndir.  Í ár er hátíðin haldin fimmta árið í röð, en hún fer fram í 30 borgum í 21 landi, allt frá Nepal til New York!

Á Íslandi fer hátíðin nú fram í annað skipti, og er haldin á fjórum stöðum og hefst dagskráin á mismunandi tíma á hverjum stað. Hjá Íslenska fjallahjólaklúbbnum að Brekkustíg 2 verða sýndar  tilraunakenndar og ákafar stuttmyndir kl. 14, í Special Tours bát sem fer frá Reykjavíkurhöfn verða sýndar sannar sögur og skálduð verk kl. 16, í Hostel International Reykjavík við Vesturgötu 17 og Sundlaugarveg 34 frá kl. 18, og að lokum verða myndir sýndar í Hörpunni kl. 20. Um kvöldið kl. 22 verður svo lokapartý  á KEX hostel.

Í fallegasta húsinu

Craig Downing, forsvarsmaður hátíðarinnar, segir aðspurður í samtali við kvikmyndir.is að hátíðarhaldarar hafi viljað halda hátíðina hér á landi á stöðum sem vektu áhuga fólks á að mæta á svæðið. „Þannig að við erum með hana í allt frá skrýtnum hjólaklúbbi að fallegasta húsi á Íslandi – Hörpunni,“ segir Downing. „Svo hugsuðum við, ætli einhver hafi haldið svona hátíð úti á sjó, þannig að við höfðum samband við Special Tours sem tóku vel í hugmyndina.“

Craig Downing er sjálfur upphafsmaður hátíðarinnar, en með honum vinnur fjöldi fólks í sjálfboðavinnu.

Á hverju ári eru sýndar gæða myndir frá kvikmyndahátíðunum Sundance, SXSW, CFC Worldwide Shorts, Seattle Int. Film Festival og New Horizons Film Festival, svo nokkur dæmi séu nefnd.  Downing segir að fæstar myndanna 42 sem sýndar verða á hátíðinni hafi verið sýndar hér á landi áður, en hann segir að aðstandendur hafi horft á um 1.000 myndir til að velja þær 42 bestu úr. Í fyrra voru tvær íslenskar myndir með á hátíðinni, en í ár er engin.  „Það eru smá vonbrigði,“ segir Downing.

 

 

Gullni sófinn

Í lok hátíðar eru aðalverðlaunin, hinn 500 dala Gullni sófi, veitt ásamt aukaverðlaunum. Dómnefndin er skipuð fólki sem kemur frá stuttmyndahátíðunum Seattle International og SXSW.

Verðlaunamyndin er valin með blöndu af atkvæðum áhorfenda, starfsmanna og dómnefndar, að sögn Downing.

Hér að neðan er svo dagskráin á laugardaginn, en annars má fá ýmsar upplýsingar um hátíðina á heimasíðunni sem hægt er að heimsækja með því að smella hér:

The Icelandic Mountain Bike Club
Experimental & Intense (60 mins) 2pm
Brekkustígur 2

Special Tours
Truth & Fiction (70 mins) 4pm
Reykjavik Old Harbour

Hostel International Reykjavik
Animation (60 mins) 6pm
Vesturgata 17
Sundlaugavegur 34

HARPA
Comedy (60 mins) 8pm
Austurbakki 2

KEX 10pm WRAP PARTY