Macy byrjar á sorgbitnum föður

Kvikmyndaleikarinn William H. Macy fetar innan skamms í fótspor ýmissa kollega sinna og tekur sér stöðu hinum megin við kvikmyndatökuvélina. Fyrsta kvikmyndin sem Macy mun leikstýra verður myndin Rudderless og með honum verður samansafn af valinkunnum leikurum. Macy sjálfur og eiginkona hans Felicity Huffman, sem er þekkt úr Desperate Housewives sjónvarpsþáttunum, munu bæði leika í myndinni en einnig þau Billy Crudup, Anton Yelchin, Selena Gomez og Laurence Fishburne.

Rudderless verður drama-söngvamynd og tökur hefjast í Oklohoma í Bandaríkjunum í lok þessa mánaðar. Myndin er byggð á handriti eftir Casey Twenter og Jeff Robison og fjallar um föður sem er eyðilagður eftir að sonur hans lætur lífið. Þegar hann finnur kassa með gömlu dóti sem sonur hans átti, þar á meðal tónlist sem sonur hans samdi, þá ákveður hann að stofna hljómsveit og vonar að það hjálpi sér að vinna á sorginni.

Billy Crudup mun leika föðurinn en ekki er vitað nánar um önnur hlutverk.

Laurence Fishburne er um þessar mundir ein af aðalpersónunum í Hannibal sjónvarpsþáttunum á NBC og Selena Gomez lék nýverið í myndinni Spring Brakers ásamt þeim Vanessa Hudgens og James Franco. Yelchin sést innan skamms við stýrið á USS Enterprise í Star Trek Into Darkness og Crudup er að leika í mynd Noah Buschel, Glass Chin, þar sem hann leikur fyrrum hnefaleikamann sem er sakaður um morð sem hann framdi ekki.