Mannfólkið er vondi kallinn

Breska dagblaðið The Daily Telegraph gefur vísindaskáldsögunni The Creator, sem kom í bíó nú um helgina hér á Íslandi, fjórar stjörnur af fimm mögulegum, en eins og segir í umfjölluninni er mannfólkið vondi kallinn í þessari mögnuðu gervigreindarsögu. 

Gagnrýnandinn, Robbie Collin, segir að árið 2010 hafi ungur breskur leikstjóri, Gareth Edwards, skorað stóru Hollywoodmyndverin á hólm og haft þau undir. Fyrsta myndin hans sem var frekar hrá vísindaskáld- og dæmisaga sem hét Monsters, var tekin upp með frjálslegum hætti í miðríkjum Bandaríkjanna. Hún innihélt 250 tæknibrellur (þar á meðal risastórar geimverur með griparma) sem Edwards bjó til í fartölvu sinni. 

Boðaði nýja tíma

Niðurstaðan var, eins og Collin nefnir, eins og hjónaband Doctor Who og leikstjórans Werner Herzog. Myndin hafi boðað nýja tíma í vísindaskáldsögum. Nú gæti þessi tegund mynda aflað tekna eins og hefðbundnar stórmyndir, en með mun minni kostnaði. Og hvernig brást Hollywood við? Með því að ráða manninn í nokkur verkefni í snarhasti. 

Eins og segir í dóminum eyddi Edwards um áratug í vinnu fyrir stóru myndverin og gerði Godzilla og Star Wars m.a.  Nú gerir hann forvitnilega mynd með 80 milljóna dala kostnaðaráætlun og til allrar hamingju, eins og Collin segir, hefur þessi mynd meira skemmtigildi og er hugmyndafræðilega metnaðarfyllri en fyrsta myndin hans.  Hún er einnig í takti við tímann á fleiri en einn hátt, þar sem myndin tæklar yfirvofandi átök milli mannkyns og gervigreindar – þó að góðu gæjarnir, eins og Telegraph orðar það, séu ekki endilega af holdi og blóði. 

Í ætt við Interstellar

Gagnrýnandi blaðsins segir að söguþráðurinn sé í ætt við geimmyndir eins og Interstellar, Ad Astra og First Man, þar sem reynir á tengslin við föðurímynd í geimheimi. Hér eru það tengsl á milli hermannsstýpu, sem John David Washington leikur, og vélmennabarns sem Madeleine Yuna Voyles leikur, hannað og framleitt af dularfullum manni sem vopn af einhverju tagi sem gæti endað öll stríð. 

Feluleikur parsins fer fram á sama tíma og Washington leitar að konu sinni, Gemmu Chan, sem Gagnrýnandinn segir að sé æsispennandi og tilvistarlega hugvíkkandi eins og í myndunum sem nefndar voru hér að framan. 

The Creator (2023)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.7
Rotten tomatoes einkunn 68%

Mitt í framtíðarstríði á milli mannkyns og gervigreindar, er Joshua, grjótharður fyrrum sérsveitarmaður sem syrgir eiginkonu sína, ráðinn til að elta uppi og drepa Skaparann (e. Creator), arkitekt hinnar háþróuðu gervigreindar sem skapað hefur dularfullt vopn sem getur bundið ...

“En það sem skilur á milli er ótrúlega vel gerð yfirfærsla af fagurfræðinni í Monsters yfir á miklu stærra format.”

Tekin í austurlöndum

Myndin var tekin í austurlöndum fjær að miklu leiti í frumskógi og við þokukenndar strendur sem vísa til bæði verka Herzog og hins ofskynjunarkennda ástands í Apocalypse Now eftir Francis Ford Coppola. “Í hverri töku, er stórbrotin blanda af kornóttum litum staðarins og stafrænum listilegum umbreytingum. Þú ert alltaf aðeins meðvitaður um að það sem þú ert að horfa á sé alls ekki raunverulegt, en ómögulegt er að sjá hvað skilur á milli raunveruleika og hins ævintýralega,” segir Collin og bætir við: “Að mynd Denis Villeneuve , Dune, frátalinni þá held ég að ég hafi ekki sokkið jafn ánægjulega inn í tæknibrelludrifinn heim eins og þennan í mörg ár: það er eins og Edwards sé að taka upp þráðinn frá því snemma á fyrsta áratug þessarar aldar.”

Þá segir hann að leikmunir og sviðsmynd séu sannfærandi og hver sjóndeildarhringur sem birtist sé eins og hann sé beint fyrir framan þig en ekki unninn í tölvu.