Million Dollar Baby og Boys Don´t Cry leikkonan Hilary Swank hefur gengið til liðs við Clara Ruggard í vísindatryllinum I Am Mother.
Í kvikmyndinni leikur Ruggard fulltrúa fyrstu kynslóðar nýrra manna sem aldir eru upp af „Mömmu“ vinalegu vélmenni sem er hannað til að fylla Jörðina af fólki á ný, eftir að mannkynið deyr út.
Sambandi „mæðgnanna“ er ógnað þegar blóði drifin kona, sem Swank leikur, birtist, og Ruggard fer að efast um allt sem henni hefur verið sagt um heiminn.
Myndin er byggð á hugmynd leikstjórans Grant Sputore og handritshöfundarins Michael Lloyd Green, og er frumraun Sputore í leikstjórastólnum.
Tæknibrellur gerir hið margverðlaunaða WETA teymi.
Grant Sputore sagði í samtali við Variety kvikmyndaritið um ráðningu Swank, að það væru forréttindi að fá leikkonuna í hópinn. „Hún er frábær leikkona, sem kemur alltaf með mikla einurð og einlægni inn í verkefnin. Ég er spenntur að vinna nú með henni og hinni hæfileikaríku Clara Ruggard.“