Meistari Andersons fær stiklu

Árið 2012 virðist ætla að skjóta á sögubækurnar, þvi nú þegar er þetta afbragðs afþreyingarár og restin hljómar jafnvel enn betur. Nánast allir bestu leikstjórar starfandi í dag (því miður „nánast“) eru að henda frá sér mynd í ár og þar á meðal er gulldrengurinn Paul Thomas Anderson sem kemur hér aftur eftir 5 ára fjarvist. Seinasta mynd Andersons, olíu-epíkin There Will Be Blood, virðist hafa sett leikstjóran á nýtt plan og er afraksturinn í svipuðum dúr. Myndin heitir The Master og út frá nýútgefinni stiklu er auðveldlega hægt að sjá að There Will Be Blood-áhrifin sitja enn í Anderson.

Hún gerist á 6. áratugnum og fjallar um samband trúarleiðtoga sem kallast einfaldlega ‘Meistarinn’ (Philip Seymour Hoffman), og ungum útigangsmanni, Freddie Sutton (Joaquin Phoenix), sem gerist hans hægri-hönd eftir að trú ‘Meistarans’ nær vinsældum í Bandaríkjunum.

Þó svo að það sé ekki formlegi tilgangurinn, þá er hægt að sjá myndina sem þunna ádeilu á Vísindakirkjuna og PTA er ekkert að fela það, en hann hefur haft þessa hugmynd lengi í hausnum. Eins og síðast mun Radiohead-meðlimurinn Jonny Greenwood sjá um tónlistina og myndin verður tekin upp með 65mm filmu.
Sumir gætu verið ósammála um að Anderson eigi nú heima í svona háklassa sögulegu-drama, enda bjó hann til nafn sitt með léttgeggjuðum ævintýrum í gegnum líf einkennilegra persóna, en The Master þarf samt ekki að vera of þung; enda gefur bæði sögusviðið og söguþráðurinn í skyn sturlað andrúmsloft.

Um tíma leit það út fyrir að myndin kæmi ekki fyrr en á næsta ári, en hún hefur nú fengið útgáfudag í október næstkomandi.